Fischer og Spassky unnu yfirburðasigur í Mar del Plata: Ágætur árangur Friðriks
Boris Spassky og Bobby Fischer sigruðu með yfirburðum á alþjóðamótinu í Mar del Plata, hlutu 13,5 vinninga af 15 mögulegum. David Bronstein varð í þriðja sæti og Friðrik Ólafsson í því fjórða, en keppendur voru alls 16. Hér fer á eftir frétt Morgunblaðsins 24. apríl 1960:
MBL. barzt bréf frá Buenos Aires í Argentínu í gærmorgun, dagsett 17. apríl, en kvöldinu áður lauk alþjóðaskákmótinu í Mar del Plata. Í síðustu umferðinni tefldi Friðrik Ólafsson við Redolfi og varð sú skák jafntefli. Wexler náði jafntefli við Spassky, en Fischer vann Marini, og Bronstein vann Eliskases.
Í bréfinu segir Arnoldo Gravenhorst, að keppnin hafi verið mjög erfið þar sem svo fjölmennt mót hafi verið teflt á jafn skömmum tíma, og til þess að mótið stæðist setta áætlun varð oft að tefla biðskákir að næturlagi.
Gravenhorst telur að Friðrik megi vel una úrslitunum. Hann hafi unnið alla Argentínumennina og Suður-Ameríku skákmennina. Bréfritarinn segir ennfremur að efstu mennirnir muni verða þátttakendur í stórmóti, sem fram á að fara í Buenos Aires í næsta mánuði.
Skákirnar
Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu