1957: Stórmót Taflfélags Reykjavíkur

STÓRMÓT TAFLFÉLAGS REYKJAVÍKUR

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur notaði tækifærið, er tveir erlendir taflmeistarar voru staddir hér á landi – þeir Herman Pilnik, sem hefur verið hér langdvölum frá því er hann kom fyrst hingað til lands fyrir tveim árum og er landsmönnum jafn kunnur og okkar eigin skákmenn, og Pal Benkö, ungverski taflmeistarinn, er beiddist landvistar hér í sumar eftir stúdentamótið. Til þess að bjóða þeim þriðja, sænska stórmeistaranum Gideon Stáhlberg, og efna til skákmóts með þessum görpum og snjöllustu skákmönnum okkar.

Mót þetta stóð meirihluta septembermánaðar og var þó teflt á hverju kvöldi að kalla. Þarna voru komnir til leiks flestir þeir skákmenn okkar, er hæst ber um þessar mundir, maður saknaði einna helzt Baldurs Möllers, er eigi treystist til þátttöku sakir annríkis, og Freysteins Þorbergssonar, en hann stundar nú nám við háskóla austur í Moskvu.

Þetta var því mjög öflugt mót á íslenzkan mælikvarða, enda kom þar fram óvenju mikið af skemmtilegum og vel tefldum skákum. Teflt var fjórar stundir í senn, 34 leikir, og varð því all mikið af biðskákum. Ýmsar þeirra voru afar tvísýnar og spennandi, enda hafa ekki í annan tíma sézt fleiri áhorfendur að biðskákum en hér var. Friðrik Olafsson vann þarna knappan en mjög vinsælan sigur og verðskuldaðan. – Einhverjir kunna að sakna sviptisigra hans frá fyrri mótum, en hann sýndi þarna á sér nýja hlið: mikla þolinmæði, nákvæmni og tækni í rólegu tafli, sem manni er ekki alveg grunlaust um, að honum hafi leiðzt hér fyrr á árum. Þetta var allt annar Friðrik en við sáum á stúdentamótinu í sumar, hann stóð að vísu stundum örlítið lakar, en var hvergi í taphættu, og virðist í vexti.

Benkö var aðeins hálfum vinningi á eftir Friðriki og var vel að því kominn. Hann tefldi yfirleitt mjög örugglega og vel, einkum voru skákir hans við þá Guðmundana Agústsson og Guðmundsson vel tefldar. Hann var að vísu eilítið heppinn, er hann vann skák sína gegn Pilnik, en sú skák mótaðist mjög af taugaóstyrk beggja. Pilnik og Stáhlberg skiptu þriðju og fjórðu verðlaunum. Stahlberg vann snotrar skákir af Arinbirni og Gunnari og mjög dramatíska og spennandi skák af Guðmundi S. Guðmundssyni, en var hætt kominn gegn Guðmundi Agústssyni. Hann tapaði ekki skák, en sum jafntefli hans voru nokkuð stutt, enda er aldurinn farinn að segja til sín.

– Pilnik tefldi misjafnlega, fallega á köflum, en miður inn á milli. Hann átti hlut að sumu því er sögulegast gerðist, þótt ekkert jafnaðist á við skák hans við Guðmund Agústsson úr fyrstu umferð. Pilnik hefur teflt Við Guðmund fjórum sinnum áður, alltaf haft hvítt og alltaf unnið. Honum hefur sennilega fundizt að þetta hlyti svo að ganga hið fimmta sinnið líka, því að hann tefldi til sóknar heldur glæfralegá. En Guðmundur varðist vel og tókst að standa af sér allar sóknartilraunir Pilniks, þótt hættulegar væru. Báðir voru í mikilli tímaþröng undir lokin,. en þegar 34 leikjum var lokið, stóðu leikar þannig, að Pilnik gat gefizt upp, og gilti nærri einu hverju Guðmundur léki – nema þeim eina leik, er hann valdi. En tímaþröngin hafði orkað svo sterkt á Guðmund, áð hann hélt áfram með hraði 35. leikinn líka – lék drottningunni í uppnám og mátti gefast upp sjálfur.

Næstur þessum fjórum kom Guðmundur Pálmason, þá Ingi og síðan hinir Íslendingarnir hver af öðrum, eins og taflan sýnir, en hér er ekki rúm til þess að segja frekar frá frammistöðu einstakra manna.

Mótið fór fram í Listamannaskálanum, og var aðsókn mjög við hæfi fram til síðustu umferðar, en þá fylltist húsið meir en góðu hófi gegndi, loftið inni varð heitt og þungt, svo að það bagaði keppendur til muna. Augljóst virðist að ekki er kleift að halda hér stærri mót en þetta, fyrr en kostur er heppilegri salarkynna hér í Reykjavík en nú er.

Yfirleitt held ég megi segja að mótið hafi tekizt með ágætum og náð sinum tvíþætta tilgangi: að veita beztu skákmönnum okkar þjálfun og efla áhuga almennings á skákíþróttinni. Stjórn Taflfélagsins skipa nú menn, er lítt hafa fengizt við skipulagningu stórra taflmóta. Því var sérstaklega ánægjulegt að sjá, hve vel þeim fórst mótið úr hendi. Aðstaða áhorfenda var bætt frá umferð til umferðar og sýnd við það mikil alúð og hugkvæmni. Skipulagning og framkvæmd skákmóts krefst ótrúlega mikillar vinnu, sjálfboðavinnu, sem unnin er í hjáverkum, og oft reynist örðugt að fá menn til, enda sjaldan þökkuð sem skyldi. Það er því gleðiefni að sjá nýja menn koma fram á sjónarsviðið og framkvæma hana svo að jafnast við það sem bezt hefur verið gert hér áður.

Guðmundur Arnlaugsson.

1957: Stórmót Taflfélags Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn Titill 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 Vinn. Prósenta
1 Friðrik Ólafsson AM Iceland x ½ ½ ½ 1 ½ ½ 1 1 1 1 1 8,5 77%
2 Pal Benkö AM Hungary ½ x ½ 1 ½ ½ 1 ½ ½ 1 1 1 8 73%
3 Gideon Ståhlberg SM Sweden ½ ½ x ½ ½ 1 1 ½ 1 ½ ½ 1 7,5 68%
4 Herman Pilnik SM Argentina ½ 0 ½ x ½ ½ ½ 1 1 1 1 1 7,5 68%
5 Guðmundur Pálmason Iceland 0 ½ ½ ½ x 0 ½ ½ 1 1 1 1 6,5 59%
6 Ingi R. Jóhannsson Iceland ½ ½ 0 ½ 1 x ½ ½ ½ 1 0 1 6 55%
7 Guðmundur S. Guðmundsson Iceland ½ 0 0 ½ ½ ½ x 1 0 1 ½ ½ 5 45%
8 Ingvar Ásmundsson Iceland 0 ½ ½ 0 ½ ½ 0 x ½ 1 ½ 1 5 45%
9 Arinbjörn Guðmundsson Iceland 0 ½ 0 0 0 ½ 1 ½ x 0 1 0 3,5 32%
10 Björn Jóhannesson Iceland 0 0 ½ 0 0 0 0 0 1 x 1 ½ 3 27%
11 Guðmundur Ágústsson Iceland 0 0 ½ 0 0 1 ½ ½ 0 0 x ½ 3 27%
12 Gunnar Gunnarsson Iceland 0 0 0 0 0 0 ½ 0 1 ½ ½ x 2,5 23%
Vinningshlutall 77%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu