Skáktafl í ferli til sjálfstæðis

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður skrifaði þessa grein í Mbl. í tilefni af áttræðisafmæli Friðriks Ólafssonar.

Sjálfstæði og fullveldi var viðvarandi viðfangsefni í sögu íslensku þjóðarinnar síðustu tvær aldir. Í upphafi ætluðu skáldin að yrkja land og þjóð til sjálfstæðis og fullveldis. Svo komu stjórnmálamennirnir, sem sumir hverjir voru einnig skáld, og vörðuðu hina formlegu hlið málsins.

Þann feril má tímasetja:

Stjórnarskrá 1874

Heimastjórn 1904

Fullveldi 1918

Lýðveldi 1944

Sumt í þessu ferli er okkur nútímamönnum algerlega óskiljanlegt. Val á ráðherrum varð stundum tilviljanakennt þar sem glæsileiki eða stafrófsröð réð vali. Dr. Valtýr Guðmundsson sagði að Hannes Hafstein hefði sigrað á glæsileikanum, og að Einar Arnórsson hefði orðið ráðherra en ekki Sveinn Björnsson, þar sem Arnórsson var á undan Björnsson í stafrófinu.

Við lýðveldisstofnun kepptust stjórnmálamenn við að afla hinu nýja lýðveldi alþjóðlegrar viðurkenningar, ekki aðeins þeirra stórvelda, sem áttu í stríði við möndulveldin þegar lýðveldi var stofnað 1944, heldur með því að hið nýstofnaða lýðveldi varð fullgilt sem stofnaðili að þeim alþjóðastofnunum sem stofnaðar voru á lýðveldisárinu. Þær stofnanir eru Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðaflugmálastofnunin. Ef til vill var framsýni ráðamanna mest þegar ákveðið var að senda fulltrúa á stofnfund Alþjóðaflugmálastofnunarinnar þar sem aðeins voru gefin út 25 flugskírteini á Íslandi.

Þessar viðurkenningar með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi voru hin ytri atriði sem sneru að þjóðríkinu Íslandi. Þjóðin Íslendingar þurfti á alþjóðlegri viðurkenningu að halda. Það var nærtækast að menningararfleifðin hlyti viðurkenningu umheimsins. Til þess átti þjóðin skáld, sem vildi skrifa fyrir heiminn. Skáldið vildi öðlast viðurkenningu, sem fólst í bókmenntaverðlaunum Nóbels og fékk viðurkenninguna árið 1955. Verðlaunin voru ekki aðeins viðurkenning fyrir skáldið heldur einnig frásagnarlist íslensks sagnaarfs frá miðöldum.

Þann 7. janúar 1956 birtist frétt í Morgunblaðinu: „Sigur Friðriks skipar honum við hlið beztu skákmanna heimsins.“ Í greininni segir: „Í gær var nafn Íslands í annað sinn á þessum vetri nefnt í heimsfregnunum í sambandi við unnin afrek. Í desember var það nafn nóbelsverðlaunaskáldsins Halldórs Kiljan Laxness, sem ljóma varpaði á nafn Íslands. Í gær var það nafn Friðriks Ólafssonar skákmeistara.“

Þá hafði hinn tvítugi skákmaður, Friðrik Ólafsson, hlotið efsta sæti á skákmóti í Hastings ásamt Viktor Korshnoi, en hann var útnefndur stórmeistari síðar það ár. Afrek Friðriks héldu áfram og var hann útnefndur stórmeistari árið 1958. Skák var þá og er enn þjóðaríþrótt Íslendinga.

Í Morgunblaðsfréttinni sagði jafnframt: „Þessi sigur Friðriks skipar honum sess með beztu skákmönnum heimsins og opnar honum efalaust leið inn í allar meiriháttar skákkeppnir, en um þær mun leið hans liggja til æðstu virðingarsæta meðal skákmeistaranna.“ Svo mörg voru þau orð; skákmeistarinn ungi varð forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE.

Nóbelsverðlaun og stórmeistarititill voru viðurkenningar fyrir afrek einstaklinga en þjóðin eignaði sér þau.

Þá var aðeins eitt eftir; þjóðin sem eitt sinn hafði aðeins átt eina sameign, að því er skáldið sagði:

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign, sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum.“

Sú þjóð átti aðra sameign, það voru handritin í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Þau þurfti að endurheimta. Það gerðist árið 1971 þegar þjóðin þyrptist niður að höfn til að taka á móti skipi sem kom með tvær bækur. Þá varð sjálfstæðið fullkomnað.

Það er rétt að óska sigurvegaranum í Hastings 1956 til hamingju með afmælið. Hann sannaði að Íslendingar voru þjóð sem átti erindi meðal annarra þjóða.

Merki: