1951: Heimsmeistaramót 20 ára og yngri – Birmingham

Heimsmeistaramót ungmenna í Birmingham: Friðrik í miðjum hópi

 

Guðmundur Arnlaugsson skrifar

Götumynd frá Birmingham um 1950Hljótt hefur verið um för Friðriks Ólafssonar á alþjóðamót drengja í Birmingham. Um það leyti að hann fór af stað voru birt hér ummæli forstöðumanna mótsins, mjög lofsamleg í hans garð, en þeir þekktu hann frá drengjamótinu í fyrrasumar. Töldu þeir líklegt, að hann yrði einn hinna efstu ef ekki efstur. Þegar á mótið leið, og það kom í ljós, að þessi spá mundi ekki rætast, fór að bera minna á fréttunum og leiksloka mun aðeins hafa verið getið í útvarpinu.

Friðrik kom heim með Heklu úr síðustu Skotlandsför hennar. Skákmótinu lauk þannig, að hæstur varð Júgóslavinn Boris Ivkoff, eins og flestir, sem eitthvað þekktu til, munu hafa búizt við. Hann hafði talsverða yfirburði yfir keppinauta sína, vann 8 skákir, gerði 3 jafntefli, en tapaði engri, hlaut því 9,5 vinning.

Næstur honum kom drengjamestari Breta, Malcolm Barker, með 8 vinninga. Báðir voru eins fullorðnir og keppendur máttu framast vera, Ivkoff 19 ára, en Barker vantaði aðeins fáa daga í tvítugt. Þriðji varð piltur frá Argentínu, R. C. Cruz með 7 vinninga. Faðir hans, sem er kunnur skákmaður, kom með honum frá Argentínu og var hjá honum meðan keppnin stóð yfir.

Ivkoff
Ivkoff

Friðrik lenti í miðjum hópi með slétt 50%. Hann vann 4 og tapaði 4, en 3 af skákum hans urðu jafntefli. Þessi leikslok munu hafa orðið mörgum vonbrigði, ekki sízt vegna ummæla í blöðum hér áður en Friðrik lagði af stað. Það er tvíeggjað og reyndar oftast til ills eins að spenna bogann of hátt fyrirfram, koma mönnum til að vænta þeirra leiksloka, sem bezt geta orðið.

Fáir sem til þekktu munu hafa ætlað Friðriki sigurvonir á við Ivkoff, sem ferðaðist með landslði Júgóslava um Evrópu í fyrrasumar og átti sinn þátt í hverjum sigri þeirra á fætur öðrum. En Júgoslavar munu vera öflugusta skákþjóð þeirra, er keppendur sendu á þetta mót, svo að einnig að því leyti voru úrslitin sanngjörn.

Flestir munu hafa búizt við að Friðrik yrði ofarlega, en fæstum tekst alltaf jafnvel upp, og skákir Friðriks frá mótinu bera það með sér, að honum hefur eigi sóttst hugsanaróðurinn jafnlétt þarna og stundum áður. Friðrik sótti þetta mót nýsloppinn úr erfiðu prófi, sem mörgum stendur stuggur af, landsprófinu, og hann var þarna einn síns liðs. Enn hann hefur tímann fyrir sér. Í ráði er að þessi drengjaskákmót verði haldin á árs fresti eða tveggja, og þar verður Friðrik hlutgengur aldursins vegna enn um hríð. Og enn er sagan ekki öll…

 

Friðrik fyrir ofan Tartakower, Unzicker, Rossolimo, Donner og Matanovic!

 

Samtímis drengjaskákmótinu fór fram minningarskákþing það, sem haldið er í sambandi við Bretlandshátíðina. Þess hefur verið getið í þessum dálkum áður og verður nánar vikið að því síðar. Tefldu báðir flokkar í sama salnum, annar á morgnana, hinn síðari hluta dagsins.

Að þingunum loknum fór fram hraðskákamót. Þar tefldu allir saman, meistarar og drengir, og voru tefldar sjö umferðir eftir Monrads-kerfi. Er skemmst af því að segja að Friðrik vann sex meistara í röð, þá Radivic, Sweene, Matanovic, Donner, Tartakower og Unzicker.

Eftir þessar sex umferðir var honum tryggur sigur, hvernig sem sú síðasta færi, enda tapaði hann þar fyrir Rossolimo. Úrslit urðu þessi: 1. Friðrik 6 vinn., 2.—5. Rossolimo, Van Scheltinga, Tartakower og Unzicker 5,5 hver.

Íslendingar hafa sýnt það fyrr, að þeir standa framarlega í hraðskák, enda er hún mjög stunduð hér. Friðrik vann glæsilegan sigur á síðasta hraðskákmóti Íslands, en hann hefur í einu vetfangi lagt þarna að velli fleiri kempur en nokkur annar íslenzkur taflmaður.

Meðal þátttakenda í þessari hraðkeppni voru auk þeirra, sem hér hafa verið taldir, tveir Bretlandsmeistarar, þeir Alexander qg Broadbent, Wade og Bogoljuboff. En hvorki Gligoric né Stáhlberg voru meðal þátttakenda.

Nýi tíminn 12. júlí 1951.

1951: Heimsmeistaramót 20 ára og yngri - Birmingham

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1951 Birmingham - tafla

Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu