Friðrik Ólafsson Skákmeistari Íslands
Þráinn Sigurðsson sigurvegari í Meistaraflokki
Skákþing Íslands 1957 var háð á Akureyri dagana 18.-27. apríl síðastliðinn. – Þátttakendur voru alls 22, 10 í Landsliðsflokki og 12 í meistaraflokki.
Sigur Friðriks í Landsliðsflokki var vel verðskuldaður, en ekki eins yfirgnæfandi og búast mátti við. Hann vann sjö fyrstu skákirnar og gerði síðan tvö jafntefli. Útkoman, tæp 89% án taps, verður að teljast sómasamlegur árangur, jafnvel þótt Friðrik eigi í hlut.
Með sigri sínum öðlast Friðrik titilinn Skákmeistari Íslands 1957.
Freysteinn vann sex skákir og gerði þrjú jafntefli. Hann var heilum vinning á eftir Friðriki, er þeir mættust í 8. umferð, og tókst ekki að vinna upp það bil, þótt hann hefði hvítt og næði betri stöðu um tíma í fjörugri skák þeirra í milli.
Arinbjörn náði 3. sæti, og tapaði aðeins fyrir Friðriki. Er það bezti árangur, sem hann hefur náð hér heima til þessa.
Ingimar varð fjórði. Miðað við hans 19 ár er það prýðilegur árangur. Hann er greinilega í framför, enda í betri æfingu en margir hinna.
Bjarni hlaut 50%. Hann byrjaði illa, en sótti sig er á leið, og endaði með jafntefli við Friðrik í vel byggðri skák.
Júlíus var óheppnastur allra, ef hægt er að tala um slíkt í sambandi við skák. Hann átti m. a. unnið á móti Gilfer, jafntefli á móti Freysteini og betra á móti Friðriki, en fékk engan vinning úr þessum þrem skákum.
Gilfer tefldi byrjanirnar meira af rómantík en hagsýni, en ef hann komst lítt skaddaður út í mið og endatafl, snérist stríðsgæfan honum oftast í hag.
Bragi sýndi góð tilþrif í byrjunum og hörku í tímaþröng, en skortir mjög á í endatafli ennþá.
Stígur virðist ekki eiga yfir þeirri stóizku ró að ráða, sem einkennir góða skákmenn. – Hætti hann að tefla hraðskák þar til í óefni er komið, má búast við betri árangri hjá honum.
Kristján er sá keppenda, sem auðveldast mun reynast að bæta árangur sinn að ári. Hann fékk stundum góðar stöður, sem hann glataði í tímaþröng.
Önnur úrslit, sjá töflu.
Meistaraflokkur.
Eitt hið ánægjulegasta á móti þessu var sigur Þráins Sigurðssonar í meistaraflokki. Þráinn var á unga aldri góður skákmaður og fór m. a. á Olympíumót í Folkestone 1933. Síðustu áratugina hefur hann lítið snert skák, og m. a. látið hana vera með öllu í 15 ár, þar til hann tók þátt í einu móti í fyrra. Nú sigraði hann með yfirburðum, án taps, og má vænta mikils af honum í Landsliðskeppninni að ári. Þráinn er mjög fljótur að leika, og voru þess dæmi að hann notaði aðeins 18 mínútur af umhugsunartíma sínum til þess að fella andstæðinginn.
Haukur Sveinsson fær einnig Landsliðsréttindi, en vafasamt er að hann sé sterkari en Jóhann Snorrason, sem var óheppinn á úrslitastund.
Önnur úrslit, sjá töflu.
Dvölin á. Akureyri var keppendum til mikillar ánægju, enda allt fyrirkomulag mótsins Reykvíkingum til fyrirmyndar.
Freysteinn Þorbergsson
1957: Skákþing Íslands
Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn | Titill | 1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | Vinn. | Prósenta | |
1 | Friðrik Ólafsson | AM | x | ½ | 1 | 1 | ½ | 1 | 1 | 1 | 1 | 1 | 8 | 89% |
2 | Freysteinn Þorbergsson | ½ | x | ½ | ½ | 1 | 1 | 1 | 1 | 1 | 1 | 7,5 | 83% | |
3 | Arinbjörn Guðmundsson | 0 | ½ | x | ½ | 1 | ½ | 1 | 1 | 1 | 1 | 6,5 | 72% | |
4 | Ingimar Jónsson | 0 | ½ | ½ | x | 0 | 1 | 1 | ½ | 1 | 1 | 5,5 | 61% | |
5 | Bjarni Magnússon | ½ | 0 | 0 | 1 | x | 0 | ½ | 1 | 1 | ½ | 4,5 | 50% | |
6 | Júlíus Bogason | 0 | 0 | ½ | 0 | 1 | x | 0 | 1 | ½ | 1 | 4 | 44% | |
7 | Eggert Gilfer | 0 | 0 | 0 | 0 | ½ | 1 | x | 0 | 1 | 1 | 3,5 | 39% | |
8 | Bragi Þorbergsson | 0 | 0 | 0 | ½ | 0 | 0 | 1 | x | 1 | 1 | 3,5 | 39% | |
9 | Stígur Herlufsen | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | ½ | 0 | 0 | x | 1 | 1,5 | 17% | |
10 | Kristján Theódórsson | 0 | 0 | 0 | 0 | ½ | 0 | 0 | 0 | 0 | x | 0,5 | 6% |