1961: Skákþing Íslands

SKÁKÞING ÍSLANDS 1961

Friðrik Ólafsson sigurvegari í Landsliðsflokki.

Skákþing Íslands var haldið í Breiðfirðingabúð á tímabilinu frá 25. marz til 3. apríl sl. Þátttakendur voru alls 32 og tefldu þeir í tveim flokkum, níu umferðir eftir Monrad-kerfi.

Landsliðsflokkur.

Úrslit í Landsliðsflokki urðu þau, sem vænta mátti, að stórmeistarinn Friðrik Ólafsson sigraði, hlaut 7 1/2 vinning af 9. Tefldi hann af miklu öryggi og komst aldrei í taphættu. Með þessum sigri sínum öðlazt Friðrik sæmdarheitið Skákmeistari Íslands ´61. Er þetta í fjórða sinn, sem Friðrik vinnur þennan titil, áður sigraði hann árin 1952, 1953 og 1957.

Í 2. sæti varð Gunnar Gunnarsson með 6 vinninga, tapaði aðeins fyrir Friðriki. Er þetta mjög góð frammistaða og sýnir ljóslega að Gunnar er vaxandi meistari. Hann hreppti 3. sætið í Landsliðskeppninni í fyrra.

Í 3. sæti er Ingvar Ásmundsson, einnig með 6 vinninga. Það blés ekki byrlega í upphafi þingsins fyrir Ingvari, er hann tapaði í fyrstu umferð og gerði jafntefli í þeirri næstu. En Ingvar, sem er harðskeyttur skákmeistari, lét engan bilbug á sér finna og tókst að ná sjö v. af þeim 7, sem eftir voru, og tryggði sér þar með örugglega þriðja sætið.

Í næstu þrem sætum koma þeir Björn Þorsteinsson, Ólafur Magnússon og Freysteinn Þorbergsson, skákmeistari Íslands frá í fyrra, allir með 5 1/2 vinning. – Birni gekk heldur erfiðlega framan af, en sótti sig er áleið og hlaut 3 v. í síðustu fjórum umferðunum. Ólafur tapaði fyrstu skák sinni, en gekk allvel eftir það, hlaut þrjá v. úr næstu 5 skákum. Í 7. umferð beið hann lægri hlut fyrir Freysteini, en sigraði síðan í báðum skákunum, sem eftir voru. Freysteinn fór mjög vel af stað og fylgdi Friðriki fast eftir, allt fram að sjöttu umferð, en þá beið hann ósigur fyrir Ingvari. Þegar ein umferð var eftir hafði Freysteinn mikla möguleika á 2. sæti, en í síðustu umferð tapaði hann fyrir Birni og hafnaði í 4.-6. sæti.

Þar sem breytingar höfðu verið gerðar á lögum Landsliðsins, og það skyldi framvegis skipað fjórum aðalmönnum og fjórum til vara, urðu þessir þrír ofangreindu menn því að tefla um fjórða sætið. Freysteinn afsalaði sér rétti sínum og tefldu því aðeins Björn og Ólafur. Lyktaði þeirri viðureign með sigri Björns, 1 1/2 v. gegn 1/2, og skipar Björn því 4. sætið.

Önnur úrslit, sjá töflu.

Meistaraflokkur.

Úrslit í meistaraflokki urðu þau, að Jón Kristinsson frá Grenivík í Þingeyjarsýslu hreppti efsta sætið. Hlaut hann 7 vinninga, tapaði aðeins einni skák. Jóni gekk heldur erfiðlega í byrjun, hafði hálfan vinning eftir tvær umferðir. Eftir það sótti hann jafnt og þétt á og hlaut 6 1/2 vinning úr 7 síðustu skákunum. Sigraði hann m. a. tvo af skæðustu keppinautum sinum. Með þessari ágætu frammistöðu sinni hefur Jón öðlazt þátttökuréttindi í Landsliðsflokki á næsta Skákþingi Íslands.

Í 2. sæti varð Sigurður Jónsson, einnig með 7 vinninga. Sigurður byrjaði mjög vel, vann tvær fyrstu skákirnar, en tapaði í þriðju umferð. Eftir það héldu honum engin bönd og vann hann næstu fjórar skákirnar. Var hann þá í efsta sæti, hálfum vinningi á undan þeim Jóni Kristinssyni og Braga Björnssyni. Í næstsíðustu umferð beið hann ósigur fyrir Jóni, en tryggði sér 2. sætið og Landsliðsréttindi með sigri sínum yfir Braga Þorbergssyni í síðustu umferð.

Í 3. sæti varð Bragi Björnsson, hlaut 6 1/2 vinning, tapaði aðeins einni skák. Bragi komst fljótlega í toppinn, og var í efsta sæti þegar ein umferð var eftir, og hafði þá engri skák tapað. Í síðustu umferð tefldi hann við Jón og var það úrslitaskákin um efsta sætið; sá sem ynni, hreppti fyrstu verðlaun, og það kom í hlut Jóns eins og áður er sagt.

Önnur úrslit, sjá töflu.

Skákstjórar voru þeir Gísli Ísleifsson og Árni Jakobsson og fór mótið vel fram.

1961: Skákþing Íslands

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1961 Skákþing Íslands

1961_Islandsmot_meistaraflokkur-tafla

Vinningshlutall 83%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu