1976: Afmælismót Max Euwe í Amsterdam

Gunnar Steinn Pálsson skrifar. Þjóðviljinn 27. maí 1976.

Dr. Max Euwe - Afmælis steinninn
Einar Ess Einarsson færir Dr. Max Euwe afmælissteininn

Afmælismóti Dr. Max Euwe var slitið sl. sunnudag eftir tveggja daga veisluhöld til heiðurs Euwe 75 ára. Um leið var stofnaður sérstakur „Euwe sjóður“ og er fyrirhugað að veita úr honum fé til eflingar skáklistar eða skákkennslu meðal þeirra þjóða sem styst eru á veg komnar á þessu sviði.

Stofnsjóðurinn var hátt á 4. milljón króna og í lokahófinu gáfu forsetar skáksambanda margra landa loforð fyrir mismunandi háum upphæðum til viðbótar.

Gestir frá tæplega 80 löndum mættu til Amsterdam til þess að taka þátt í afmælishófinu og heiðra þannig hinn aldna en sístarfandi forseta Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Flestir höfðu þeir einhverjar gjafir með sér eins og siður er í afmælisveislum og forseti íslenska skáksambandsins, Einar S. Einarsson, færði Dr. Euwe að gjöf íslenskan undurfagran grjóthnullung. Var hann af náttúrunnar hendi eins og hálfkúla í laginu en mannahendur höfðu síðan skorið hann í tvennt, sett á hann hjarir og grafið íslenska minnispening með mynd af Friðriki Ólafssyni inn í steininn.

Þrír af fjórum keppendum á afmælismótinu voru viðstaddir þennan helgarfagnað, þ.e.a.s. allir nema Bandaríkjamaðurinn Browne sem hvarf til síns heimalands á sunnudagsmorgninum. Hollendingurinn Timman sýndi að vísu ekki af sér mikla veislukæti og ,,skrópaði“ í öllum móttökum og veislum þar til komið var að verðlaunaafhendingunni á sunnudagskvöld.

Heimsmeistarinn Karpov háði hins vegar keppni við Euwe um afmælisfagnaði, því hann varð 25 ára gamall meðan á mótinu stóð og hélt upp á það eins og frekast var unnt vegna hinnar ströngu dagskrár á mótinu. Í sovéska sendiráðinu var haldinn afmælisfagnaður honum til heiðurs og sl. sunnudagsmorgun hélt hótelið þar sem skákmennirnir dvöldust stutta veislu fyrir Karpov.

Euwe var hins vegar í aðalhlutverki enda 50 árum eldri en heimsmeistarinn.

Óþarf er að rekja með mörgum orðum fremur sorglegan endi þessa móts fyrir íslenska þátttakandann. Friðrik byrjaði mjög vel, vann Timman í fyrstu umferð og á eftir fylgdu jafntefli við Browne og Karpov. Þegar mótið var hálfnað hafði því fengið 2 vinninga og var í efsta sæti ásamt Karpov.

Í seinni umferðinni gekk ekki eins vel. Fyrst kom jafntefli við Timman. Menn voru sáttir við það, enda hélt Friðrik sínu striki á toppnum. Skákin gegn Browne í fimmtu umferð réði hins vegar úrslitum. Með gjörunna stöðu féll Friðrik á tíma og til þess að rétta sinn hlut eitthvað varð hann að tefla til vinnings gegn Karpov í síðustu umferð.

EUWE steinninn
EUWE steinninn

Friðrik hafði þá svart og þrátt fyrir góða en djarfa taflmennsku tókst honum ekki að brjóta varnarmúr Karpovs, sem sætti síðan lagi, náði yfirhöndinni og vann skákina. Þannig hrapaði Friðrik úr efsta sæti í það neðsta í tveimur síðustu umferðunum og Browne, sem fékk hálfan vinning úr fyrri umferðinni, skaust af botninum upp í næstefsta sæti.

Hollendingar voru því ekki yfir sig hrifnir af úrslitum afmælismótsins. Þeirra maður, stórmeistarinn Timman, sat á botninum með Friðriki sem er einnig ákaflega vinsæll í þessu landi. Hins vegar var á vissan hátt gaman að því að Karpov skyldi vinna þetta mót, því margur heimsmeistarinn hefði vafalaust veigrað sér við að fara í svona stutt en sterkt mót, þar sem ekkert má út af bera til þess að illa fari.

Dr. Max Euwe hrósaði Karpov enda sérstaklega fyrir þátttökuna og sagði að enginn heimsmeistari hefði teflt eins mikið og þessi 25 ára Rússi, sem tekur þátt í hverju mótinu á fætur öðru. Þess má geta til gamans að Karpov hélt beint frá Amsterdam til Spánar þar sem hann mun tefla á fjöltefli á nokkrum stöðum. Enginn efaðist um yfirburði hans í þessu móti en hins vegar þótti mörgum að annað sætið hans Browne væri ekki alveg í réttu hlutfalli við styrkleika keppenda. Það verður þó að viðurkennast að þessi sérkennilegi skákmaður er duglegur að hala inn vinningana þótt oft gangi það klúðurslega fyrir sig.

1976: Afmælismót Max Euwe í Amsterdam

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
1 2 3 4 Vinningar
1 Karpov xxx 1 ½  ½ ½  ½ 1 4
2 Browne 0 ½ xxx 0 1  ½ 1 3
3 Timman  ½ ½ 1 0 xxx 0 ½ 2,5
4 Olafsson  ½ 0  ½ 0 1 ½ xxx 2,5
Vinningshlutall 42%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu