1995: Afmælismót Friðriks Ólafssonar

Hannes Hlífar sterkur á heimavelli

 

Eftir Jón L. Árnason. Birtist í DV 23. september 1995.

Hannes Hlífar Stefánsson hlaut 8 vinninga af 11 mögulegum á Friðriksmótinu og varð einn í efsta sæti. Öldungurinn Vassily Smyslov var sáttur við að skipta vinningnum með meistaranum í lokaumferðinni. Eftir tíu leiki og nokkurra mínútna taflmennsku lét Smyslov í ljós að hann væri sáttur við jafntefli og þar með voru úrslit mótsins ráðin.

Hannes tefldi skínandi vel á mótinu og var aldrei í taphættu, nema e.t.v. í fjörugri skák við Gligoric, þar sem skiptust á skin og skúrir. Þegar Hannesi tekst vel upp teflir hann mun hetur en hógvær stigatala hans, 2520 Elo-stig, gefur til kynna. Hannes sigraði einnig á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra en svo virðist sem honum falli vel að finna fyrir stuðningi áhorfenda á heimavelli. Á erlendri grund hefur Hannes verið mistækur, teflir oft vel, eins og t.a.m. á ólympíumótunum, en inni á milli hafa komið dýfur.

Margeir vann Zsofíu Polgar létt í síðustu umferð og varð öruggur í 2. sæti. Ungverska skákdrottningin glaðlynda setti sannarlega svip á mótið en mörgum fannst hún þó fá fleiri vinninga en hún ætti skilið miðað við taflstöður. Heilladísirnar virtust á köflum styðja dyggilega við bakið á kynsystur sinni.

Friðrik má vel við una að deila sæti með atvinnustórmeisturunum Larsen og Gligoric. Friðrik tapaði fyrir Larsen snemma í mótinu en vann Gligoric í seinni hluta þess. Þetta lýsir raunar taflmennsku Friðriks vel. Í fyrri hluta mótsins gætti eðlilega stirðleika eftir langvinna skákhvíld og varð Friðrik að láta sér lynda einn vinning úr fimm fyrstu skákunum. Síðan tók hann á sig rögg og tefldi mjög skemmtilega.

Helgi Áss, heimsmeistari unglinga, og Þröstur Þórhallsson, stórmeistaraefni, höfðu ekki meðbyr að þessu sinni en áttu góða spretti. Helgi Áss vann Smyslov t.d. í laglegri sóknarskák.

1995: Afmælismót Friðriks Ólafssonar

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1995_afmaelismot_tafla1

Vinningshlutall 39%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu