1976: IBM-skákmótið í Amsterdam

IBM-skákmótið sem haldið er árlega í Amsterdam var venju fremur viðburðasnautt sl. sumar. Þó átti það eftir að enda á viðburðaríkari og athyglisverðari hátt en flest önnur skákmót sem haldin hafa verið og var það sovéski stórmeistarinn Kortsnoj sem sló svo hressilega botninn í mótið. Aðeins rúmum sólarhring eftir að hann tók á móti fyrstu verðlaunum IblW mótsins sótti hann um hæli sem flóttamaður í Hollandi og lét sig að því búnu hverfa af sjónarsviðinu í meira en eina viku. Brotthlaup Kortsnojs vakti geysimikla athygli um allan heim og íslendingar nutu þeirra forréttinda að geta einir allra þjóða lesið viðtal við flóttamanninn um hina óvæntu og örlagaríku ákvörðun hans.

Já, Kortsnoj var tvímælalaust í aðalhlutverki á IBM-mótinu í sumar. Enda þótt hann berðist í gegnum allt mótið með hugann rígbundinn við ákvarðanatöku í „flóttamálinu“ tefldi hann oft af stakri prýði og tryggði sér efsta sætið ásamt enska stórmeistaranum Miles. – Óneitanlega rann upp fyrir manni ljós þegar fréttist um brotthvarf hans. Þá skildi maður betur en fyrr hvers vegna hann hafði á stundum virkað svolítið órólegur og æstur þegar hann var að tefla og a. m. k. steinhætti maður að hneykslast á því að sovétmaðurinn skyldi keðjureykja sig í gegnum hverja einustu umferð mótsins!

Tveir íslenskir stórmeistarar

Undirrituðum gafst kostur á að fylgjast með IBM-mótinu úr návígi fyrir tilstilli Tímaritsins Skák og dagblaðsins Þjóðviljans. Fyrir okkur íslendinga var mótið nokkuð forvitnilegt þar sem báðir íslensku stórmeisararnir, þeir Friðrik Ólafsson og Guðmundur Sigurjónsson, voru á meðal keppenda. Þarna tóku þeir félagar í fyrsta sinn þátt í einu og sama skákmótinu á erlendri grund og höfðu þeir báðir beðið þess lengi með mikilli tilhlökkun að fá að njóta félagsskapar hvors annars á svo sterku skákmóti í útlöndum.

Því er þó ekki að neita að árangurinn varð ekki eins mikill og vonir stóðu til. Guðmundur nældi sér að vísu í neðstu verðlaunin með því að hafna í 7.-10. sæti. Friðrik Ólafsson varð hins vegar að sætta sig við 11.-12. sætið og var að vonum ekki yfir sig hrifinn.

Svona mót geta alltaf komið öðru hvoru,  sagði hann.

Það vantaði ekki að ég reyndi og reyndi að rífa mig upp en hlutir voru mér andstæðir og það var á köflum sem mér væri algjörlega fyrirmunað að vinna úr þeim stöðum sem lágu á borðinu fyrir framan mig. Stundum þurfti bókstaflega ofurmannlegt hugvit til þess að klúðra niður vinningunum og ég virtist einhverra hluta vegna hafa yfir þessari snilldargáfu að ráða. Þetta var svo sannarlega erfitt mót og mótbyrinn orðinn ansi þreytandi undir lokin

sagði Friðrik.

Þegar íslensku stórmeistararnir komu til Amsterdam í byrjun júlí var hitabylgjan, sem lagði menn og skepnur að velli, sem betur fer í rénum og hitinn „ekki nema“ rúmlega þrjátíu og fimm stig á celsíus.

IBM-skákmótið fór fram í hvorki meira né minna en langstærstu byggingu Amsterdamborgar, RAI-húsinu, sem er rúmir áttatíu þúsund fermetrar að stærð og inni heldur fjöldan allan af ráðstefnusölum og smáum veitingahúsum.

Um átta hundruð þátttakendur

Trúlega hefur fæstum stórmeisturunum verið kunnugt um það, að fleiri tóku þátt í þessu móti heldur en þeir sextán sem háðu keppni í flokki stórmeistara. IBM-mótið er nefnilega öllum opið, allt frá smábörnum upp í gamalmenni og einu gæðakröfurnar sem settar eru hljóða upp á það ófrávíkjanlega skilyrði að allir þátttakendur kunni mannganginn!!

Þátttakendur í sumar voru um átta hundruð talsins og þótt mikið hafi verið teflt í RAI var einnig leitað fanga víðar í sambandi við húsnæði. IBM-mótið er eitt stærsta skákmót sem haldið er reglulega í heiminum og er teflt í fjölmörgum gæðaflokkum. Tveir efstu í hverjum flokki vinna sér rétt til þátttöku í næsta flokki fyrir ofan og þannig geta menn „klifrað“ alla leið upp í flokk stórmeistara án þess þó að geta skartað þeim eftirsótti titli.

Einmitt á þann hátt höfðu nokkrir ungir og vaxandi hollendingar* tryggt sér þátttökurétt í stórmeistaraflokknum í sumar. Voru það þeir Langeweg, Ligterink og Böhm,og er óhætt að fullyrða, að sá síðastnefndi kom mjög á óvart og náði verðlaunasæti.

Einstök samheldni íslendinganna

Íslendingarnir voru svo sannarlega samhentir í fyrstu umferðum mótsins. Þeir byrjuðu á því að leggja tvo hollendinga að velli í fyrstu umferð, sem tefld var þann 6. júlí.Guðmundur vann Böhm og Friðrik sigraði Donner, sem var gjörsamlega heillum horfinn í þessu móti og hafnaði í neðsta sæti. En þetta var góð byrjun fyrir íslendingana og vakti strax vonir um gott framhald og þokkalega útkomu úr mótinu.

Skák nr. 3600.

Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: Donner (Holland).

Katalan.

Skák nr. 3601.

Hvítt: Guðmundur Sigurjónsson.
Svart: Böhm (Holland).

Cam-Kann vörn.

Svartur er í rauninni leiklaus.–

Hugsanlegt framhald gæti orðið 42.-Bf5 43. f3 Kg8 44. g4 hxg4 45.hxg4 Bc2 46. h5 Kh7 47. b6 Kxb6 48. Dh8 Kg5 49. Kg3 og vinnur.

En þá komu jafnteflin til sögunnar. Í 2. umferð sömdu þeir Guðmundur og Friðrik báðir um jafntefli gegn Miles og Szabó og í þriðju umferð sömuleiðis. Þá gerði Friðrik jafntefli með hvítt á móti Ligterink og Guðmundur á móti Ree, en báðir þessir skákmenn eru frá Hollandi.

Og áfram héldust íslendingarnir í hendur. Í 4. umferð töpuðu þeir báðir sínum skákum og það sem meira var þeir urðu báðir svo gott sem skák og mát! Friðrik tapaði fyrir hollendingnum Böhm en Guðmundur fyrir ungverjanum Farago, sem síðar átti eftir að koma mjög á óvart með frammistöðu sinni.

Friðrik og Guðmundur gerðu síðan báðir jafntefli í 5. umferð og líka í þeirri 6. Menn voru farnir að tala mikið um einstaka samheldni íslensku stórmeistaranna og ekki dró úr talinu þegar þeir sömdu báðir um enn eitt jafnteflið í 7. umferð. Það kom því fæstum á óvart að kapparnir skyldu semju jafntefl í viðureign þeirra í 8. umferð, en þá hafði Guðmundur hvítt á móti Friðriki.

Það var síðan ekki fyrr en í 9. umferð að þeir slepptu taktinum og þá brá svo við að Friðrik tapaði fyrir hollendingnum Langeweg, sem þá var í neðsta sæti mótsins.

Loks sigur í 10. umferð

Í 10. umferð kom loks íslenskur sigur er Guðmundur sigraði júgóslavann Ivkov eftir langa og nokkuð skemmtilega skák.

Skák nr. 3602.

Hvítt: Guðmundur Sigurjónsson
Svart: Ivkov (Júgóslavía).

Spánskur leikur.

Í sömu umferð tefldi Friðrik gegn Kurajica og eftir góða og skemmtilega viðureign var samið um jafntefli í 56. leik.

Skák nr. 3603.

Hvítt: Kurajica ( Júgóslavía).
Svart: Friðrik Ólafsson.

Caro-Kann Vörn.

Sekúndubrotin gerðu útslagið

Friðrik Ólafsson fylgdi síðan vel eftir í næstu umferð er hann hirti nokkuð óvænt vinninginn af sovétmanninum Kortsnoj. Og það var sannkölluð baráttuskák. Sekúndubrotin réðu þar úrslitum. Eftir mikinn bardaga lentu þeir báðir í tímahraki en þó einkum Kortsnoj, sem hafði rýmri stöðu, en minni tíma. Síðustu tuttugu leikirnir voru leiknir á örfáum mínútum og darraðardansinn undir lokin dró að sér athygli allra áhorfenda. Kortsnoj lék vinningslegri stöðu niður í jafntefli í tímahrakinu en það voru sekúndubrotin, sem réðu úrslitum og um leið og sovétmaðurinn lék sínum 40. leik féll vísirinn og þar með hafði Friðrik unnið á tíma. Fyrsta og eina tapskák Kortsnoj var þar með orðin staðreynd og þótt hann gæti ekki dulið vonbrigði sín brást hann við af sannri íþróttamennsku, rétti Friðriki brosandi hendina og óskaði honum til hamingju.

Þetta var kærkomin upplyfting fyrir Friðrik, sem ekki hafði átt mikilli velgengni að fagna til þessa og að skákinni lokinni sagði hann m.a.:

Ég hafði ákveðið að láta til skarar skríða í dag. Eftir frammistöðuna undanfarið var ekki um annað að ræða en að hleypa í sig manndómi, og þótt Kortsnoj sé ef til vill ekki árennilegastur keppenda hér, varð ekki hjá því komist að reyna að stöðva sigurgöngu hans. Hann hefur teflt af mikilli festu og öryggi í þessu móti og því er ekki að neita að það var ansi feitur biti að vinna hann.

En ég byrjaði svo sannarlega ekki vel í þessari viðureign okkar. Ég misreiknaði mig herfilega í fyrstu, tapaði tveimur leikjum mjög fljótlega og allt í einu hafði skákin snúist upp í eitthvað sem ég get eiginlega ekki kallað annað en „Sikileyjarvörn á hvolfi“, allt hafði farið úrskeiðis og mér fannst ég ekki geta annað gert en að reyna að flækja skákina og reyna að flækjast fyrir, andstæðingnum. En hann eyddi miklum tíma og honum tókst aldrei að vinna úr þeim yfirburðum sem hann fékk út úr byrjuninni.

– Tilraunir hans runnu út í sandinn. Þegar hann féll á tíma var ekkert til annað en jafntefli í skákinni. Við hefðum staðið uppi með tvö peð hvor og svo hrókana og hefðum vafalaust samið um jafntefli fljótlega.

Skák nr. 3604.

Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: Kortsnoj (Sovétríkin)

Katalan.

Hinn sovétmaðurinn lét sig ekki

En Friðrik átti möguleika á meiru en að verða eini keppandinn sem sigraði Kortsnoj, því strax daginn eftir tefldi hann gegn Gipslis frá Sovétríkjunum og náði fljótlega betri stöðu. Í miðtaflinu átti hann rakta vinningsleið sem honum sást yfir og þegar skákin fór í bið var hún jafnteflisleg. Gipslis varð heldur betur jafntefliskonungur mótsins, því hann fékk hálfan vinning úr

hverri einustu skák sinni, tapaði ekki einni einustu og vann heldur ekki neina. Þótti mönnum þó lítið til taflmennsku hans koma, sögðu hann leiðinlegan þátttakanda og gjörsamlega lausan við allan baráttukjark.

Það má segja að það hafi þurfti alveg sérstaka hugkvæmni til þess að vinna,ekki þessa skák,“ sagði Friðrik. „Eg sá bara góða stöðu, en smám saman rann hún út í sandinn án þess að ég fengi við neitt ráðið. Þetta var einfaldlega hneyksli; það á eingöngu að vera tæknilegt atriði að vinna svona skák. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af tímanum og einhvern tíma hefði það þótt feiki nóg í endatafli að hafa tvo biskupa og svo eitt peð yfir.

Nei, ég tefldi þetta hræðilega; ég leyfði honum að „blokkera“ peðið. Það var alls ekki nauðsynlegt og ég átti um margar leiðir að velja til að vinna þessa skák,

sagði Friðrik Ólafsson að lokum.

Skák nr. 3605.

Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: Gipslis ( Sovétríkin)

Nimzoindversk vörn.

Skák nr. 3608.

Hvítt: Ligterink (Holland).
Svart: Guðmundur Sigurjónsson.

Sikileyjarvörn.

Ungverjinn Sax hafði ekki að minnu að keppa er hann stýrði hvítu mönnunum gegn Friðriki. Sax átti möguleika á að ná efsta sæti mótsins ef hann bæri sigurorð af íslendingnum og áttu menn því ekki síður von á baráttuskák á þessum vígstöðvum. Friðrik tefldi Sikileyjarvörn sem síðan snerist upp í afbrigði af spánska leiknum.

Skák nr. 3609.

Hvítt: Sax (Ungverjaland).
Svart: Friðrik Olafsson.

Sikileyjarvörn.

 

Og þar með var botninn sleginn í IBM-mótið að sinni.

Ekki áttu þeir Guðmundur og Friðrik mikilli velgengni að fagna, en hreint var það dásamlegt að sjá hve miklum vinsældum þeir áttu að fagna í gegnum þykkt og þunnt. Í Hollandi hefur Friðrik greinilega lagt grunninn að einlægum áhuga og jafnvel ást á Íslandi og fólkinu sem þar býr. Hann hefur teflt mikið í Hollandi og tók t. d. þarna þátt í öðru skákmótinu á þessu ári, aðeins tveim mánuðum eftir að hann tefldi á afmælismóti Dr. Max Euwe, sem einnig fór fram í Amsterdam. Í janúar á næsta ári fer hann enn einu sinni til Hollands og má vart á milli sjá hvar Friðrik hefur lögheimili nú orðið, í Hollandi eða heima á Íslandi.

A .m. k. er ekki hægt að merkja neinn verulegan mun á því hvort Friðrik tefli „á heimavelli“ þegar hann er í Amsterdam eða Reykjavík. Hann á hylli áhorfenda óskipta á báðum stöðunum og er skemmst að minnast í því sambandi gömlu konunnar sem mætti upp á hvern dag í lopapeysunni sinni á IBM-mótið. Sagði hún undirrituðum að hún væri ævinlega í þessari forláta peysu þegar Friðrik sæti að tafli í Hollandi þar sem hún væri vafalaust lukkugripurinn hans. Sagði sú gamla að sig skipti það engu hvort hún væri á meðal áhorfenda eða ekki, ef hún einhverra hluta vegna gæti ekki mætt á staðinn, þá einfaldlega gengi hún í peysunni heima hjá sér á meðan hún vissi af Friðriki við skákborðið.

Óneitanlega vorkenndu margir konunni þegar hún sat í lok hitabylgjunnar í lopapeysunni sinni klukkutímum saman, en hún var hin ánægðasta og gerði þetta allt saman fyrir átrúnaðargoðið sitt, „elskuna hann Friðrik“. Þarna var komið gott dæmi um vinsældir hans í Hollandi og sömuleiðis átti Guðmundur óskipta athygli margra áhorfenda.

Var gaman að fylgjast með þeim köppum saman á erlendri grund og kann ég þeim bestu þakkir fyrir ánægjulega samveru.

Gunnar Steinn Pálsson.

1976: IBM-skákmótið í Amsterdam

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1976 IBM 1 - tafla

Vinningshlutall 47%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu