Friðrik í nærmynd
Vísir 6. desember 1961.
Við sátum inni á Skála fyrir fáum vikum, ég og Helgi Sæm, og sötruðum tevatn og maltöl, en hið andlega stríðsölið freyddi á könnum beggja. Sem við nú sitjum þarna í allgóðu yfirlæti, gengur í salinn ungur maður, hár og ófeitur, með ljóst höfuð á löngum hálsi; lét Iítið yfir sér. Hér var kominn Friðrik Ólafsson stórmeistari, nýkominn frá Júgóslövum og Tító.
Formaður Menntamálaráðs [Helgi Sæmundsson] þarf eðliIega að ræða við Stórmeistarann og rekur upp óp mikið og bendir honum að setjast hið næsta sér. Og þar eð meistarinn er maður af hjarta lítillátur, þá þekkist hann þetta boð, og sit ég nú um stund andspænis þessum tveimur renglulegu mönnum og hlýði á merkilegt skraf þeirra.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég talaði við Friðrik Ólafsson, og það skal sagt strax, að ég hreifst þegar í stað af persónutöfrum þessa unga skákmeistara sem borið hefir nafn Íslands svo víða. Áberandi eiginleiki í fari hans er yfirlætisleysið. Of mikið er að segja, að hann sé feiminn, en hlédrægnin í framkomunni er áreiðanlega ósvikin.
Það hefir verið sagt um suma illgjarna menn, að það sljákki í þeim, þegar farið er að tala vel um einhvern í návist þeirra. Friðrik Ólafsson er maður góðgjarn, en það sljákkar í honum samt, ef á að fara að upphefja eitthvert skjall um sjálfan hann í návist hans. Ef honum finnst eitthvað ofmælt í því sambandi, þá leiðréttir hann eða dregur úr. Maðurinn er hákúltíveraður, hóglát háttprýði er honum eðlileg, — „sú, sem siðdekri öllu er efri“.
Víkingar fóru hér áður fyrr í stórhópum og gerðu strandhögg. Frægasti víkingur vor Íslendinga nú fer vítt um lönd og álfur og heyr einvígi, og varpar með því meiri birtu á þjóð sína og hagi hennar en þótt hann færi með stórum flokki „Vort heimslíf er tafl fyrir glöggeygan gest / þar sem gátan er ráðin, ef leikurinn sést —“ (E. Ben.). En slíku stríði, slíku lífi, hlýtur að fylgja, mitt í allri hringiðunni — viss einsemd.
Mörg okkar, sem heima sitjum, sjáum glæsileg skákmót úti í hinum stóra heimi í einhverri rómantískri móðu. Framandi nöfn hljóma í eyrum, lýst er fögrum og laðandi stöðum þar sem mótin eru haldin. Vér sjáum í anda skákmeistara vora, að lokinni dagshríð, reikandi um skuggsæla trjálundi á bökkum lognsælla og broshýrra vatna eða svamlandi alsæla í ævintýraríku samkvæmislífi milljónaborganna.
Sú mynd er ekki rétt. Að vísu eru mótstaðirnir oft glæsilegir. En skákmeistararnir hafa litla möguIeika á að njóta þeirrar paradísar. Starfið, keppnin, tekur mestallan tíma þeirra og allan hugann. Það verður því minna um spásséringar og Iystiróðra á bláum vötnum. Eins verður um félagslífið. Stórmeistarinn er einfari á slíku móti. Hann kynnist, að vísu, andstæðingum sínum nokkuð, en til vináttu kemur ekki. Einhver múr verður ætíð í milli.
Eg hefi spurt Friðrik hvers hann leiti helzt til að hvíla hugann, þegar einhver stund gefst milli stríða á svona stórmótum, því að hin flóknu viðfagsefni, skákirnar, sækja stöðugt á. Auðvitað er nauðsynlegt að hugsa þær vel, en jafnvel hraustustu heilsu má ofbjóða, og þá verður minna úr sókninni og eftir það lítils barizt. Ekki gefast gönguferðir í einveru vel, þegar svona stendur á, því að við slíkar kringumstæður, hugsa menn hvað dýpst og lengst, eins og allir þekkja. Gönguferðir verða því ekki til hvíldar frá því að hugsa um skákina.
Friðrik er músikalskur og hneigður til bókmennta, en hvorugt kemur að haldi til svona hvíldar. Tækifæri gefast ekki til að sækja tónleika, og huganum verður ekki einbeitt að vönduðum bókum. Bezt segist hann þá hvílast á því að skjótast í bíó eða taka sér í hönd góða leynilögreglusögu. (Honum þykir vænt um hana Agötu okkar hérna gömlu Christie).
Friðrik Ólafsson stendur nú andspænis örlagaríku vali. Hann gæti því vafalaust sagt eitthvað svipað og Sigurður gamli Breiðfjörð:
„Á ég að halda áfram lengra eða hætta?
Milli Grænlands köldu kletta
kvæðin láta niður detta?“
Hann er orðinn 26 ára og hlýtur að velja sér lífsstarf. Hann hefir lokið stúdentsprófi fyrir löngu og slíkum manni virðast standa allar leiðir opnar utan lands og innan. Og áhugamál þessa unga manns eru svo margfalt fleiri en skákin, tónlist, bókmenntir, tækni…
Fram að þessu hefur hann helgað skáklistinni mestalla krafta sína og hefir komizt langt, undra langt. Sú leið hlýtur líka að vera honum mikið umhugsunarefni, hvort ekki skuli áfram stefna til nýrra sigurvinninga. En skákin er heimtufrek, atvinnutaflmaður verður að gefa sig allan við list sinni.
En hvort sem Friðrik Ólafsson kýs að halda áfram á glæsibraut stórmeistarans, í áhættu og einsemd frægðarinnar, eða kýs að stinga við fótum og gefa sig að öðrum hugðarefnum, þá er eitt víst:
Búast má við, að manni með hans hæfileikum skjóti upp á áberandi hátt á einhverju öðru sviði — og verði þar enginn hlöðukálfur — fremur en í skákinni.
—RJÓH.