1984: XI. Reykjavíkurskákmótið

Tímamót urðu í íslenskri skáksögu á Reykjavíkurmótinu 1984 þegar ný kynslóð íslenskra meistara steig fram á sviðið. Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson urðu efstir, ásamt bandarísku goðsögninni Samuel Reshevsky, og náðu báðir áfanga að stórmeistaratitli. Jón L. Árnason og Margeir Pétursson lentu í 4.-6. sæti — ,,fjórmenningaklíkan“ var komin fram á sjónarsviðið! Á þessum árum var reyndar talað um ,,fimmmenningana“ því Karl Þorsteins þótti ekki síður efnilegur; hann náði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli á mótinu.

Friðrik Ólafsson hafnaði í 19.-23. sæti af 59 keppendum með 6 vinninga af 11 mögulegum. Hann tapaði fyrir Helga og Jóhanni á mótinu, en var einsog aðrir hæstánægður með ,,íslensku skáksprengjuna“. Hallur Hallsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Friðrik um miðbik mótsins. Viðtalið, sem birtist 21. febrúar, fer hér á eftir:

,,Ungu skákmennirnir okkar eru í mikilli framför. Margeir Pétursson, Jón L. Árnason og Helgi Ólafsson hafa verið í fremstu röð um nokkurra ára skeið og virðast allir vera í góðri þjálfun, teflt mikið og til alls líklegir. Það hefur áhrif til góðs að nú hafa Jóhann Hjartarson og Karl Þorsteins bæst í þeirra hóp. Hér á landi er nú hópur ungra og mjög efnilegra skákmanna. Eftir þessu hefur maður lengi vonast — nú get ég ánægður farið að huga að því að draga mig í hlé,“ sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari, eftir að hafa beðið ósigur fyrir Jóhanni Hjartarsyni í 5. umferð Reykjavíkurmótsins.

Orðinn ryðgaður í fræðunum

Ég er orðinn í fræðunum. Það kostar gríðarlegt átak að ná upp fyrri styrkleika í skákinni — minnst tvö ár með þrotlausri vinnu. Ég finn vel, þegar ég tefli hvassar stöður eins og gegn Jóhanni í dag, að mig skortir úthald, þjálfun, einbeitingu, og það er ekkert auðvelt mál að ná þessu upp.

Ánægjuleg þróun

En það er ekki kjarni málsins. Heldur eigum við miklu fremur að gleðjast yfir þeirri ánægjulegu þróun, sem átt hefur sér stað í íslensku skáklífi. Ungu skákmennirnir okkar, með fimmmenningana í fylkingarbrjósti hafa náð miklum styrkleika og ef fram heldur sem horfir getum við boðið hverjum sem byrginn; náð upp svipaðri þróun hér á landi og gerst hefur á Englandi. Þar hefur verið hörð samkeppni meðal ungra skákmanna og í dag eiga Englendingar þrjá af alsterkustu skákmönnum heims og fjöldann allan af ungum og upprennandi skákmönnum. Englendingar hafa skipað sér á stuttum tíma í fremstu röð í skákinni.

Sama á að geta orðið hér og á Englandi

Einmitt í þessu andrúmslofti hafa Englendingar lyft Grettistaki — í andrúmslofti samkeppninnar. Sama þróun á að geta átt sér stað hér.  Það hefur mikið að segja að margir ungir skákmenn komi fram á sjónarsviðið og ætli sér stóra hluti. Þeir hvetja hver annan til dáða, undirbúa sig vel, stúdeta grimmt, vinna ötullega að íþrótt sinni — veita hver öðrum aðhald. Að þessu leyti hefur orðið breyting á íslensku skáklífi. Áður fyrr vorum við einn eða tveir sem börðumst í þessu og hið rétta andrúmsloft náði ekki að skapast þó áhuginn væri mikill meðal þjóðarinnar. Ég hef þá trú að breyting hafi orðið á til góðs og fagna því innilega.

Hver dregur lengsta stráið?

Nú er bara spurningin hver okkar ungu skákmanna dregur lengsta stráið. Margeir, Jón L. og Helgi hafa um nokkurn tíma staðið í fremstu röð. Nú hafa Jóhann og Karl bæst í hópinn og fleiri efnilegir eru í sjónmáli.

Hver okkar ungu skákmanna telur þú að geti orðið okkar næsti stórmeistari?

Jóhann Hjartarson hefur tekið miklum framförum bara á einu ári og sýnir nú mikinn styrkleika. Hann hefur öðlast meiri þroska og með sama áframhaldi þurfum við engu að kvíða. Hann virðist í augnablikinu vera sá sem mesta möguleika á til að verða okkar næsti stórmeistari. Virðist ekki sýna nein merki um að hann hyggist láta deigan síga og hefur rétt skap, lætur sér hvergi bregða. Þá hefur Karl Þorsteins sýnt miklar framfarir á þessu móti, meiri en ég átti von á. Margeir, Jón L. og Helga skortir aðeins herslumun á stórmeistaraárangur.

Þetta eru ákaflega ánægjuleg tíðindi og ég get með meira jafnaðargeði farið að huga að því að hætta. Það er greinilega enginn skortur á framtíðarskákmönnum, sagði Friðrik Ólafsson.

1984: XI. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1984_reykjavikurmot-tafla1984_reykjavik_open_tafla

Vinningshlutall 55%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu