1972: V. Reykjavíkurskákmótið

Friðrik Ólafsson, Vlastimil Hort og Florin Gheorghiu urðu efstir og jafnir á V. Reykjavíkurskákmótinu, sem var gríðarlega vel skipað og spennandi. Þarna átti Friðrik einhvern magnaðasta endasprett sem um getur — sigraði í sex síðustu skákunum. Í mótslok átti Morgunblaðið viðtal við Friðrik. Viðtalið birtist í blaðinu 1. mars 1972 og fer hér á eftir.

„Það er gott að vera búinn,“ sagði Friðrik Ólafsson, skákmeistari , er Morgunblaðið hitti hann að máli í fyrradag. „Mótið er ef til vill hið sterkasta, sem hér hefur verið haldið, nema ef vera skyldi stúdentaskákmótið, sem haldið var hér 1957. Þar voru margir mjög sterkir skákmenn.“

Friðrik Ólafsson varð í 1.-3. sæti á Reykjavíkurskákmótinu ásamt Tékkanum Vlastimil Hort og Rúmenanum Florin Gheorghiu. Vann Friðrik það afrek að vinna 6 síðustu skákir sínar á mótinu.

Við spurðum Friðrik um þetta: „Já, þetta gekk heldur skrykkjótt fyrst framan af og ég var lengi að komast í gang. Sennilega hef ég tekið mótið full rólega í upphafi. Ég fann það sjálfur um miðbik mótsins, þegar ég komst í réttan baráttuhug.“

Hvað olli því?

„Ég veit það ekki fyrir víst, en þó gæti ég ímyndað mér að skákin gegn Tukmakov hefði skipt sköpum. Það er alltaf mjög mikilvægt að vel gangi. Gott gengi í skák, kemur manni oft og tíðum á sporið.“

Hvaða skák fannst þér erfiðust?

„Það er erfitt að segja. Síðasta skákin var kannski erfiðust. Þá mátti svo litlu muna og ekkert út af bera til þess að settu marki náð — en það hafðist, þótt sú skák hafi því miður verið Timman kannski öllu mikilvægari því að með því að tapa henni missti hann af stórmeistaratitlinum að þessu sinni.“

Nú hlutu tveir ungir menn næga stigatölu fyrir stórmeistaratitil á þesu móti. Annar þeirra, Andersson er mjög ungur maður. Hvað finnst þér um hann?

„Já, það er mjög ánægjulegt að þessir tveir skákmenn, Andersson og Tukmakov skyldu ná þessum áfanga hér og að þetta mót skyldi í raun gera út um að þeir hlytu stórmeistaratitil. Mér líst ágætlega á Andersson sem skákmann og hann ætti að geta náð nokkuð langt. Það virðist ekkert vefjast fyrir honum. Skákin er hið eina sem kemst að. Að þessu leyti finnst mér honum svipa svolítið til Fischers. Það komast engar efasemdir að hjá honum.“

Hvað tekur nú við í skákinni næst.

„Ég veit það ekki. Eins og menn vita var ég valinn varamaður á millisvæðamótið og það þýðir að heltist enginn úr lestinni, þá þarf ég að byrja frá rótum. Ég hef ekki ákveðið mig enn um þátttöku, en verði af því þá þarf ég að tilkynna þátttöku í svæðamóti í Júgóslavíu í vor. Eigi ég svo að komast áfram í millisvæðamót, þarf ég að verða þar í 1. eða 2. sæti — Enn veit ég ekki hvaða keppendur verða þar. Georghiu þarf einnig að tefla á svæðamóti, af því að hann hafði ekki nægan styrkleika til þess að komast í millisvæðamótið, en það höfðu Stein og Hort aftur á móti. Nú, þá eru einnig við og við sæmileg mót, sem kæmu til greina. Ég gæti til dæmis teflt á mótum í Hollandi þegar ég vil.“

Finnst þér þú vera í sama keppnisforminu og hér áður fyrr, þegar þú vannst þína stóru og miklu sigra?

„Það er allt öðru vísi. Nú hef ég aðstöðu til þess að tefla miklu öruggar. Í gamla daga var ég vígreifur og til alls líklegur — var að koma mér up og hafði engu að tapa en allt að vinna. Þá rak metnaðurinn mann áfram, en nú þegar maður er kominn upp á ákveðið svið, er erfiðara að láta að sér kveða. Takist illa til, getur fallið orðið svo mikið.“

Hvað finnst þér um mótið í heild?

„Þetta mót tókst mjög vel og þeir sem stjórnuðu því eiga miklar þakkir skyldar. Erlendu keppendurnir voru mjög ánægðir, að því er ég held. Slík mót hér heima eru mjög æskileg og veita íslenskum skákmönnum tækifæri til að reyna getu sína gegn erlendum skákmönnum. Kannski eru tvö ár [milli Reykjavíkurskákmóta] of langur tími og nauðsynlegt að halda mótin árlega eða þá senda íslenska skákmenn utan til þátttöku í mótum erlendis. Það var einnig áberandi fyrst framan af, að sumum íslensku skákmönnunum stóð stuggur af erlendu þátttakendunum.“

Nú, ef við skiptum um umræðuefni. Hvað finnst þér um að halda heimsmeistaraeinvígið hér?

„Ég vona að það verði haldið hér og að því ber að stuðla, ef landkynning er einhvers virði. Frá skáklegu sjónarmiði gæti einvígið ýtt mjög undir áhuga á skák meðal Íslendinga.

Á hvorn keppandann veðjar þú?

„Ég veðja nú á Spassky — kannski vegna þess að allir veðja á Fischer. Þó ber þess að geta að Spassky er mjög harður einvígismaður, síðan hann komst verulega í gang. Hann gerði atlögu að heimsmeistaratitlinum 1966 og tapaði, en vann síðan titilinn af Petrosian 1969. Hann hefur teflt mikinn fjölda einvígisskáka, og frá því er hann virkilega komst í gang hefur kannski tapað 5 skákum. Ef Spassky stendur ekki í Fischer, þá gerir það enginn.“

Hvernig er staða þín gegn þessum tveimur mönnum?

„Ég hef 5 sinnum teflt við Spassky, tapað þremur skákum og gert tvö jafntefli. Gegn Fischer stend ég heldur ekki vel. Þar hef ég tapað 6 skákum, en unnið tvær.“

Hvað heldur þú að Rússarnir geri í sambandi við keppnisstaðinn?

„Ég veit ekki hvað þeir eru stífir á mótmælum sínum, en það er alveg ljóst, að þeir vilja að einvígið verði haldið hér og þeir berjast fyrir því. Það er hin stóra spurning, hve sterkur dr. Euwe er. Þá er það einnig ljóst, að Júgóslavar óttast að þeir hafi ekki eins sterka vígstöðu og Íslendingar og leggja því til samkomulag um skiptingu einvígisins. Tryggara hefði verið, að hafa fyrri hluta einvígisins hér heima, en töluverð áhætta er að hafa hinn síðari, því ekki er ljóst, hve margar skákir verða etir. Þó er það og kostur að síðari hlutinn getur farið fram í ágúst-september, þegar aðalferðamannatíminn er liðinn. Ég ræddi við Spassky í Moskvu fyrir jól og sagði honum þá, að ef hann vildi koma til Íslands, væri hann ávallt velkominn. Þá hafði tilboð Skáksambandsins ekki verið lagt fram, svo að ég gat ekki orðað þetta beint við hann. En ég afhenti honum mikið lesefni um Ísland, bæklinga o.fl.“

Hvers vegna kemur Spassky hvergi fram og segir álit sitt á tilboðunum opinberlega?

„Ég held að sovéska skáksambandið vilji ekki þreyta Spassky á samningaviðræðum og öllu því taugastríði, sem því fylgir. Þótt hér sé aðeins um skák að ræða, þá er þó annað og meira að baki. Skákstyrkleiki Sovétríkjanna er talinn afsprengi þeirrar stjórnmálastefnu, sem ríkir í Sovétríkjunum og það yrði þeim töluvert áfall að missa heimsmeistarann. Lenín sjálfur var skákmaður og taldi skák góða afþreyingu fyrir fólk almennt.“

Að lokum Friðrik, hvarflar aldrei að þér að gerast atvinnuskákmaður?

„Ég veit ekki — mér finnst eins og verið hefur ekki hafa verið nógu skemmtilegur grundvöllur fyrir atvinnuskákmenn. Verðlaun eru mishá og á þessu máli eru einnig fleiri hliðar. Mótin eru oft og tíðum mjög löng og menn eru fjarverandi frá fjölskyldu sinni kannski mánuðum saman. Maður verður að hugsa um það hvernig maður geti höndlað hamingjuna á sem bestan hátt,“ sagði Friðrik Ólafsson að lokum.

1972: V. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1972 Reykjavíkurmotið - tafla

Vinningshlutall 73%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu