Morgunblaðið 11. nóvember 1980.
Það er náttúrlega kærkomið að ná sér í vona feitan bita, og því var gaman að leggja heimsmeistarann að velli, sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari í samtali við Morgunblaðið í gær. Friðrik er nýkominn heim frá Buenos Aires í Argentínu, þar sem hann tefldi á mjög sterku skákmóti, þar sem meðal annars bar til tíðinda að hann sigraði heimsmeistarann, Rússann Anatoly Karpov, sem fyrr segir.
Skákin tefldist þannig allt frá byrjun, sagði Friðrik, að við vorum báðir ákveðnir í því að knýja fram úrslit í skákinni, en láta hana ekki fara út í jafntefli. Karpov hafði ekki gengið of vel á mótinu fram til þessa og þurfti á vinningi að halda, og eins ætlaði ég mér ekki jafnteflisleiðina. Lengi framan af var það hins vegar á valdi hvors okkar um sig, að leiða skákina út í lítt áhugaverða stöðu, en það tókst að koma í veg fyrir það með góðri samvinnu!
Skákin tefldist eftir svonefndri Catalan-byrjun, en hún er svo nefnd vegna þess að afbrigðið kom fyrst fram á skákmóti í Barcelona í Katalóníu árið 1929. Friðrik stýrði hvítu mönnunum en Karpov þeim svörtu. Svo fór, að heimsmeistarinn gaf skák sína í 40. leik, en þá var Friðrik að heita má kominn með gjörunnið tafl.
Lengi framan af var meiri broddur í sókn Karpovs, sagði Friðrik, en í 25. til 30. leik gætti hann sín ekki nægilega, lék ónákvæmt og glutraði niður muninum, og taflið snerist mér í hag og ég náði undirtökunum. Hann tapaði peði, og síðar fórnaði hann manni sem ekki stóðst og sigurinn var minn, þótt ég væri kominn í mikið tímahrak. Karpov gafst upp er hann sá að sóknin, sem hann ætlaði að byrja með mannfórninni, var ekki nægilega vel hugsuð.
Þetta er í fyrsta skipti sem Friðrik sigrar heimsmeistara við skákborðið, þótt hann hafi oft áður unnið fyrrverandi eða komandi heimsmeistara, svo Robert Fischer, MIkail Tal og Tigran Petrosian.
Karpov hefur teflt af miklum styrkleika undanfarin ár, og yfirleitt orðið í fyrsta eða öðru sæti á mótum sem hann hefur tekið þátt í. Slakari frammistöðu hans nú kvað Friðrik ekki þurfa að benda til þess að hann væri í öldudal. Karpov væri mannlegur eins og aðrir skákmenn, og einnig yrði að hafa í huga að nú stytist í að hann þyrfti að verja titil sinn, en þá væri það oft svo að menn vildu ekki sýna öll spil á hendi of snemma. Þetta yrði líka að hafa í huga þegar nýleg frammistaða Hübners á skákmótum væri metin.
Friðrik kvað Larsen frá Danmörku hafa teflt af miklum krafti fyrri hluta mótsins, en síðan dalað nokkuð. Timman hefði einnig teflt mjög sterkt, og hefði verið mjög í samræmi við gang mótsins að þeir deildu með sér efstu sætunum.