1964: I. Reykjavíkurskákmótið

Glæsilegur sigur töframannsins frá Riga

 

Þórir Ólafsson skrifar í Vísi 5. febrúar 1964.
1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_Gylfi-Gislason_Morozov_Tal
Dr. Gylfi Gíslason, Menntamálaráðherra, Morzov, sendiráðsritari Rússa og Tal

Þá er lokið glæsilegasta skákmóti, sem haldið hefur verið hér á landi. Sigurvegari var Mikail Tal frá Sovétríkjunum, fyrrverandi heimsmeistari og einhver sterkasti skákmeistari vorra tíma. Svo margt hefur þegar verið rætt og ritað um þennan furðumann skáklistarinnar, að það er í raun og veru að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar nokkru við.

Vinningafjöldinn, 12,5 af 13 mögulegum, tala rsínu skýra máli um yfirburðina, en þegar þess er gætt, hvernig þessir vinningar fengust, dofna öll lýsingarorð. Eftir hvern leik andstæðingsins var engu líkara en kynngi magnaður rafeindaheili færi í gang og svarið lét ekki standa á sér, en rak flesta venjulega menn á gat.

 

Sigur Tals verður því ekki aðeins minnisstæður fyrir hið háa vinningshlutfall, sem hann hlaut á mótinu, heldur miklu fremur fyrir þá glæsilegu taflmennsku, sem hann sýndi.

1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_Gligoric_Thordur-Einarsson
Gligoric og Þórður Einarsson, fulltrúi í menntamálaráðuneytinu

Í öðru sæti varð Gligoric með 11,5 vinning, sem er einnig mjög hátt vinningshlutfall. Kom þessi frammistaða hans engum á óvart, því hann hefur um árabil verið einn snjallasti skákmeistari heims utan Rússlands.

Hinu hafa fæstir búizt við, að Johannessen hafnaði í þriðja sæti ásamt Friðriki Ólafssyni. Þeir hlutu 9 vinninga hvor. Þori
ég að fullyrða, að þetta sé bezti skákárangur Norðmannsins til þessa. Johannessen teflir lipran position-stíl er lítið fyrir hatrammar flækjur, en hægfara stöðubarátta á vel við hann, laginn að notfæra sér veilur í stöðu andstæðingsins.

Í upphafi mótsins hefðu víst fæstir kyngt þeim spádómi, að Friðrik yrði að berjast fyrir þriðja sætinu. Og þótt okkur þyki að sjálfsögðu súrt í broti, að bezti fulltrúi okkar skyldi ekki verða hærri en raun ber vitni, hljótum við að íhuga vel aðstæður, áður en dómur um frammistöðu hans er upp kveðinn.

Friðrik vissi vel, að til mikils var ætlazt af honum og hann lá sannarlega ekki á liði sínu. Öðru nær og einmitt þess vegna, að hann var i sviðsljósinu, reisti hann sér hurðarás um öxl. Undir „eðlilegum“ kringumstæðum hefði Friðrik gert jafntefli bæði við Tal og Gligoric, en nú tefldi hann til vinnings gegn þeim báðum.

Þeir, sem þekkja eðli skákarinnar vita hvað það þýðir: Sá, sem teflir upp á vinning verður alltaf að hætta á að tapa. Ósigurinn gegn Wade er auðvitað annars eðlis. Hann verður að skrifa á kostnað tímahraks, sem er auðvitað að miklu leyti afleiðing Iítillar þjálfunar.

1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_Aki-Petursson_Fridrik-Olafsson_Ingi-R-Johannsson
Menntamálaráðherra, Áki pétursson deildarstjóri, Friðrik Ólafsson og Ingi R. Jóhannsson

Wade varð fimmti með 7,5 vinning. Með tilliti til þess, að hann er alþjóðlegur meistari verður þetta að teljast eðlileg útkoma eftir atvikum. En samt sem áður kom árangur NýsjáIendingsins mjög á óvart. Menn hafa einhvern veginn ekki ennþá melt það, að Wade hefur farið býsna mikið fram síðan hann tefldi hér árið 1947. Vanmat hinna yngri meistara okkar á honum varð þeim að falli.

Þessi viðkunnanlegi og þægilegi skákmeistari hefur lýst því yfir, að hann sé fús til þess að ferðast um landið og tefla fjöltefli. Vonandi er, að taflfélög úti um land taki þetta til athugunar.

Sjötti varð Guðmundur Pálmason með 7 v., og má segja, að hann hafi verið sá eini, sem stóð sig framar vonum. Í Guðmundi hljótum við að eygja næsta alþjóðlegan meistara okkar, haldi hann áfram að tefla eitthvað að ráði. Hann tefldi vel frá byrjun, en einhverra hluta vegna vildu vinningarnir ekki koma fyrr en undir lokin. En úr því að hann gerði jafntefli við Tal um mitt mótið, fór hin góða taflmennska hans að bera ávöxt og þrír vinningar úr síðustu fjórum skákunum tala sínu máli.

1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_skakdrottningar_Audur-Juliusdottir_Gudrun-Thordardottir_Sigthrudur-Steffensen
Auður Júlíusdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Sigþrúður Steffensen

 

Ingi R. Jóhannsson hafnaði í síðasta verðlaunasætinu, 7. sæti. Varla fer hjá því, að árangur hans valdi talsverðum vonbrigðum. Til marks um það, að Ingi er greinilega í öldudal, má minna á, að þeir Johannessen eru gamlir keppinautar og í viðureign þeirra, hefur Ingi oftast borið hærri hlut. En í þetta sinn gekk fæst samkvæmt áætlun. Vel uppbyggðar stöður hrundu sem spilaborgir fyrir klaufalega afleiki og Inga virtist ekki endast mótið til að losna við taugaspennuna.

Í 8.-9. sæti urðu Gaprindasvili og Magnús Sólmundarson. Eftir góða byrjun mátti heimsmeistari kvenna þola hvern ósigurinn á fætur öðrum og þrátt fyrir liðlega taflmennsku skorti hana úthald, svo að hlutur hennar verður að teljast sanngjarn. Jafntefli við tvo af okkar sterkustu skákmönnum, Friðrik og Inga, sýnir að hér er enginn aukvisi á ferð.

Hlutur Magnúsar er góður, því að fæstir höfðu spáð því, að hann riði feitum hesti úr svo sterku móti. En hann sýndi, að
hann er vaxandi skákmaður og mátti jafnvel greina framfaramerki hjá honum, meðan á mótinu stóð.

Það verður að skipa þeim, sem lestina reka í einn flokk. Ber þar tvennt til: Annars vegar hversu svipaðir þeir eru að vinningum og hins vegar hve gæði skáka þeirra voru lík. Einna beztan verður að telja árangur Trausta, en honum virtist vaxa ásmegin, er líða tók á mótið.

Um hina reyndari skákmenn, Arinbjörn, Freystein og Ingvar er skylt að segja, að þeir náðu ekki sínu bezta, og má sjálfsagt kenna æfingarleysi um. Jón er enn óharðnaður skákmaður og er nú að byrja að öðlast þá reynslu, sem nauðsynleg er hverjum meistara.

1964: I. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1964 Reykjavíkurmótið - leiðrétt tafla

Vinningshlutall 69%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu