1971: Skákþing Norðurlanda í Reykjavík

Fingraæfing Friðriks í Norræna húsinu

 

Friðrik Ólafsson sigraði með yfirburðum á Norðurlandamótinu í skák, sem fram fór í Norræna húsinu Reykjavík í ágúst 1971. Hann hlaut 9 vinninga af 11 mögulegum, og var 1,5 vinningi á undan danska meistaranum Sejer Holm. Þriðji varð Johnny Ivarsson frá Svíþjóð. Friðrik var eini stórmeistarinn sem keppti á mótinu, og því um ,,skyldusigur“ að ræða. Sjálfur sagði Friðrik í viðtali við Vísi 30. ágúst: ,,Einhvern veginn var ég í þeirri aðstöðu, að ég varð að vera efstur.“

Þrátt fyrir sigurinn, sem Friðrik hafði tryggt sér fyrir síðustu umferð var meistarinn ekki nema í meðallagi ánægður með taflmennsku sína, og saknaði þess líka að fleiri Íslendingar skyldu ekki blanda sér í toppbaráttuna. Það gladdi þó hjörtu Íslendinga að hinn ungi og bráðefnilegi Sævar Bjarnason skyldi verða unglingameistari Norðurlanda.

Sigur Friðriks var aldrei í hættu, enda andstæðingarnir ekki af sama styrkleika og hann á að venjast á alþjóðlegum stórmótum. Þannig hafði hann fyrir mótið aldrei heyrt getið um Svíann Ivarsson sem hreppti bronsið. Morgunblaðið spurði Friðrik 26. ágúst hvort hann væri aðeins með í mótinu til þess að halda sér í þjálfum:

,,Það má segja að ég sé að þessu til að halda fingraæfingu,“ sagði Friðrik og hló við.

Í samtali við Vísi sagði Friðrik að erfiðasta skákin hefði verið gegn Jóni Kristinssyni, en sú skemmtilegasta gegn Norðmanninum Barda í síðustu umferð:

,,Þegar ég tefldi hana, var ég öruggur um efsta sætið svo að úrslitin skiptu ekki máli. Ég var í léttu skapi, og þá gengur manni oft best.“

1971: Skákþing Norðurlanda í Reykjavík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 82%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu