1980: 3. Helgarskákmótið – Ísafjörður og Bolungarvík

Þriðja helgarmót okkar

Helgi Ólafsson og Friðrik Ólafsson efstir

 

Ásgeir Þ. Árnason skrifar:

Oft hefur því verið haldið fram að hlutskipti skákmanna á jörðu hér komist hvað næst því að vera dans á þyrnirósum. Þjóðflokkur þessi býr yfir þeirri áráttu að einangra sig fá umhverfi sinu þegar síst skyldi og leiðir þá hjá sér alla erfiðleika mannlegs lífs. Aldrei hefur þó mér af vitandi verið gerð félagsfræðileg könnun á kynjaverum þessum og ekki hafa Vísindamenn heldur reynt að gera sér far um að varpa ljósi á hvers vegna skákmenn eru svona allt öðruvísi en önnur dýr merkurinnar. Hvað sem slíkum bolla- leggingum liður er staðreyndin sú að skákmenn lifa á skákmótum og á þeim svæðum jarðarinnar þar sem skákmót eru flest i er skáklíf líka í mestum blóma.

1980_Helgarskakmotid_VestfjordumÁ Íslandi hefur löngum verið einkenni á saeluríki skákmanna að „hungursneyð“ ríkir á sumrin. Svo rammt hefur kveðið að þessu undanfarin misseri að hinir hungruðustu hafa leitað út fyrir landsteinana til fæðuöflunar. Þannig hefur Ísland oft og tíðum verið skákmannslaust frá því er fyrstu grös spretta og allt fram í réttir. Þegar þessi staðreynd er höfð í huga er ekki að undra að kunnugir menn telja að íslenskt skáklíf hafi stigið langt skref í átt að fullkomnun þegar ritstjóri vor beitti sér fyrir þeirri nýung sem nefnd hefur verið helgarmótin okkar. Nú geta allar skákhænur á Íslandi teflt allan ársins hring og það sem meira er, „flóðhestunum“ er gefið tækifæri til þess að tefla við okkar mestu meistara.

Á Ísafirði og Bolungarvík fór þriðja helgarmót okkar fram og auðvitað var yfir því sérstakur glæsileiki enda líta þeir Vestfirðingar skákina stærri augum en önnur spil. — Bæjarfélögin fjármögnuðu mótið af rausnar skap og þrátt fyrir bágborlð efnahagslíf fyrirtækjanna fyrir vestan þegar mótið bar að garði reyndu þau einnig að mæta erindinu af vinsemd og höfðingskap. Án stuðnings þessara aðila hefði aldrei orðið af þessum einstaka atburði í skáksögu Vestfjarða.

Margir meistarar lögðu gjörfa hönd á plóginn við undirbúning mótsins. —  Má þar helsta nefna Matthías Kristinsson og Einar Otta Guðmundsson frá, Ísafirði, Daða Guðmundsson og Óla Ingimundarson frá Bolungarvík, en á engan er þó hallað þegar Magnús Reynir, bæjarritari á Ísafirði, er sérstaklega nefndur í þessu sambandi.

Reykvískir skákmenn komu flestir með flugvél til Ísafjarðar föstudagsmorguninn 8. ágúst. Þar var jafnt stórmeisturum sem óbreyttum skákmnönum tekið opnum örmum af heimamönnunum Einari Otta Guðmundssyni formanni Skákfélags Ísafjarðar, og Bolla Kjartanssyni, bæjarstjóra. Eftir stutta viðkynningu var haldið með áætlunarbíl  til Bolungarvíkur, þar sem á ný var tekið á móti gestunum og þeim síðan komið fyrir eftir atskákstigum á heimilum Bolvískra skákmanna, þar sem þeir nutu góðrar aðhlynningar yfir helgina.

1980_Helgarskakmotid_Vestfjordum_1Þátttakendur á þessu þriðja helgarskákmóti okkar voru 42 og vekur það athygli að fjöldi þeirra virðist aukast í réttu hlutfalli við fjarlægð frá höfuðborginni. Fyrstu fjórar umferðirnar fóru fram í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði, en lokin í ráðhúsi Bolvíkinga. Við setningu mótsins bauð Kjartan Sigurjónsson skólastjóri gesti og aðra skákmenn velkomna og rifjaði síðan upp skák sem hann hafði tapað fyrir mörgum árum og vakti sú frásögn mikla kátínu. Guðmundur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar, lék síðan fyrsta leikinn í skák Friðriks Ólafssonar við Arinbjörn Gunnarsson og þar með var mótið hafið.

Fyrstu þrjár umferðir mótsins  voru heldur tíðindalitlar. Þeir skákmenn, sem fyrirfram voru álitnir sterkastir, unnu sínar skákir. Þetta gerðist þó ekki átakalaust, þannig lá jafnteflið í loftinu í skák Sigurðar H. Jónssonar og Margeirs Péturssonar,  en Sigurður lék af sér a örlagastund og tapaði taflinu. Einnig lenti Friðrik í brösum með að vinna Daða Guðmundsson, sem barðist eins og ljón, en varð þó að gefast upp fyrir stórmeistaranum eftir magnaða baráttu.

Í raun er eki hægt að segja annað en að ballið hafi byrjað fyrir alvöru í fjórðu umferð, en þá leiddu margir kunnir meistarar saman hesta sína. – Helgi Ólafsson lagði Ásgeir Þór hvatlega að velli. – Jóhannes Gísli lenti strax í erfiðri stöðu gegn Margeiri og átti sér ekki viðreisnar von eftir það. Jafntefli var snemma samið hjá Jóni L. og Jóhanni Hjartarsyni, en skák umferðarinnar var hjá Sævari Bjarnasyni og Friðriki Ólafssyni. Henni lauk einnig með jafntefli, þó Sævar hafi saumað mjög rækilega að stórmeistaranum og haft möguleika á þvinguðum vinningsleiðum að sögn kunnugra. Hinn ungi og efnilegi Karl Þorsteins vann góða skák af Hilmari Karlssyni og var Karl því efstur ásamt Helga og Margeiri, hálfum vinningi á undan Friðriki, Jóni L., Jóhanni og Sævari, þegar til ráða var gegnið á laugardagskvöldið. Tvær síðustu umferðirnar, sem tefldar voru í hinu glæsilega ráðhúsi Bolungavíkur, buðu því upp á mikla spennu.

Á sunnudagsmorguninn áttust meðal annarra við Helgi og Margeir, Karl Þorsteins og Friðrik, Jón L. og Sævar Bjarnason og Íslandsmeistarinn Jóhann Hjartarson átti í höggi við Ásgeir Þór, alræmdan skákref. – Þeir félagarnir Helgi og Margeir voru ekki í baráttubuxunum að þessu sinni og þótti því hyggilegast að semja snemma um jafntefli, en hart var hins vegar barist á öðrum borðum. Jón L. fórnaði liði fyrir allskyns flækjur og stöðu sem var vandtefld á báða bóga. Sævar, sem tefldi af miklum krafti í mótinu, tók auðvitað hraustlega á móti og eftir miklar sviptingar stýrði hann taflinu í jafnteflishöfn. Ásgeir Þór taldi sig aldeilis hafa króað drottningu Íslandsmeistarans inni – „átti aðeins eftir að sækja hana“ – þegar hæverskur peðsleikur frá Jóhanni kollvarpaði áformum hans algerlega. Ásgeir stóð uppi með skiptamun minna og tapað tafl, sem síðan tapaðist örugglega eins og venja er. Hámark fimmtu umferðar var síðan skák Friðriks Ólafssonar við Karl Þorsteins. Karl, sem aðeins er fimmtán ára, stýrði svarta liðinu af miklu öryggi. – Hann byggði hægt og sígandi upp góða stöðu, sem Friðrik var ekki alls kostar ánægður með og reyndi að brjóta niður með öllum ráðum. Bollaleggingar hans kostuðu þó mikinn tíma á klukkunni og þegar fallvísirinn var farinn að hreyfast sá hann sitt óvænna og bauð hinum unga meistara jafntefli. Öllum á óvart var Karl ekki ginnkeyptur fyrir friðarsamningum. Rekinn áfram af mikilli keppnishörku og sigurvilja hafnaði hann jafnteflinu og stefndi ótrauður til sigurs. Meistarinn ungi rak sig þó fljótt á að Friðrik er ekkert lamb við að eiga og allra síst í tímahraki. Stórmeistarinn þurfti ekki meira en örlitla ónákvæmni frá andstæðingnum til þess að snúa taflinu við. Von bráðar sá Karl sæng sína útbreidda og gafst upp, en það var mál manna að hann væri fullsæmdur af.

1980_Helgarskakmotid_Vestfjordum_2Fyrir síðustu umferð trónuðu því titilberarnir Friðrik, Helgi, Margeir og Jóhann í efsta sætinu og höfðu hver um sig tapað niður hálfum vinningi Á hæla þeirra komu síðan sex menn með hálfum vinningi minna. Í þeim hópi voru bæði menn sem komu frá efstu borðum, eins og Jón L., Sævar Bjarnason og Karl Þorsteins, en þar voru líka Jóhannes Gísli og Monradgambítsmennirnir Ómar Jónsson og Róbert Harðarson. – Fræðilega var því mögulegt að sjö menn yrðu efstir og jafnir í mótslok.

Spennan var því mögnuð þegar Jóhann Þórir blés til síðustu umferðar. Fjórir efstu menn tefldu innbyrðis: Jóhann gegn Helga og Margeir gegn Friðriki og voru hinir fyrrnefndu með hvítt. Hvorki Margeiri né Jóhanni tókst að notfæra sér að eiga fyrsta leikinn. Þeir Ólafssynirnir voru báðir í miklum vígaham og eftir klukkustundar tafl stóðu þeir báðir betur. Friðrik hafði mætt frumlegri taflmennsku Margeirs af fullum krafti og var í þann veginn að vinna peð þegar Helgi fór út í  hagstæðara endatafl á hinu borðinu. Helgi tefldi síðan lokin óaðfinnanlega og varð fyrri til að sigra, en ávallt var ljóst að Friðrik myndi einnig vinna sína skák. Það var þó ekki fyrr en komið var út í hróktsendatafl sem Margeir gafst upp, Friðrik og Helgi urðu því efstir á mótinu og síðar kom í ljós að þeir voru einnig jafnir á stigum og deildu þeir því með sér efsta sætinu. Helgi tefldi ávallt af miklu öryggi og lenti aldrei í neinni hættu. Hið sama verður ekki sagt um Friðrik, því eitthvert æfingaleysi virtist angra hann. Í síðustu umferð sýndi hann þó að fáir standast honum snúning þegar mest á reynir.

Jón L. Árnason, Karl Þorsteins og Ómar Jónsson unnu sinar skákir og deildu því með sér þriðja til fimmta sæti. Jón L. var ávallt í fremstu röð, en skorti herslumuninn til að ná toppnum. Karl Þorsteins tapaði aðeins fyrir Friðriki og það er vitaskuld frábært fyrir jafn ungan pilt. Í síðustu umferð lagði hann Sævar einstaklega stílhreinni skák. Ómar Jónsson var vitaskuld spútnik mótsins, en eins og kunnugt er þá er það til marks um að Monradmót heppnist vel ef einn keppandi a. m. k. fær ærlegan Monrad-meðvind (þ.e. Monradgambíturinn heppnast).

Ýmsir skákmenn sátu eftir með sárt ennið, en aðrir voru ánægðir með sinn hlut. Margeir Pétursson náði ekki verðlauna sæti í þetta skipti, en hann hefur verið sérlega „óheppinn“ með andstæðinga í þeim þrem helgarmotum sem tefld hafa verið. Þannig hefur hann teflt við Friðrik og Helga í þeim öllum á meðan þeir hafa ekki teflt innbyrðis!

1980_Helgarskakmotid_Vestfjordum_3Athygli vakti þátttaka Önnu Sigrúnar Benediktsdóttur, en hún ku vera eiginkona Hilmars Karlssonar skákmeifstara. Anna tefldi á köflum mjög vel, en skákklukkan var henni óþægur ljár í þúfu og felldi hana á tíma a. m. k. tvívegis. Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir var sú eina af „þekktarí“ skákkonurm landsins sem tók þátt og stóð sig með sóma, þó vankunnátta í Marshall árásinni hafi komið í veg fyrir hærra sæti í mótinu. Það er reyndar nokkurt áhyggjuefni að hinar skákkonur landsins skuli ávallt sitja heima, því eins og kunnugt er þá ætla þær að bregða sér á ólympíumót í vetur og víst er að þangað hafa þær ekkert að gera æfingalausar. Örlögin hafa reyndar komið því svo fyrir að Sigurlaug fær að sitja heima þegar hinar leggja í sólarlandareisuna. Ægir Páll Friðbertsson, Súðavík fék flesta vinninga unglinga innan 14 ára aldurs og hlaut að launum dvöl í skákskólanum að Kirkjubæjarklaustri á sumri komanda. Ægir er eins og svo margir vestfirskir unglingar bráðefnilegur skákmaður, sem við eigum ábyggilega eftir að heyra meira frá í framtíðinni.

Bolvíkingar efndu til veglegs kvöldverðar í félagsheimilinu að móti loknu. Þar afhenti Ólafur Kristjánsson, forseti bæjarráðs Bolungarvíkur, verðlaunin og flutti síðan stutta tölu. Bolli Kjartansson, bæjarstjóri á Ísafirði, tók einnig til máls fyrir hönd heimamanna, en síðan þakkaði Jóhann Þórir fyrir góða keppni og góðar viðtökur, og Friðrik Ólafsson, forseti FIDE, tók í sama streng.

Greinarhötfundur vill síðan fyrir sitt leyti þakka Vestfirðingum góðar móttökur og sérstaklega þó Bolvíkingum, sem veittu okkur sunnanmönnum húsaskjól og sitthvað fleira. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra samferðamanna minna þegar ég segi að þið gerðuð ferðina vestur ógleymanlega.

Skák nr. 4836.

Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart Daði Guðmundsson.

Grunfelds-vörn.

Skák nr. 4839.

Hvítt: Sævar Bjarnason.
Svart: Friðrik Ólafsson.

Kóngindversk vörn.

Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: Karl Þorsteins.

Meran-vörn.

Hvítt: Margeir Pétursson.
Svart: Friðrik Ólafsson.

Kóngindversk vörn.

1980: 3. Helgarskákmótið - Ísafjörður og Bolungarvík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1980_Helgarskakmotid_Vestfjordum_tafla

Vinningshlutall 92%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu