Friðrik Íslandsmeistari í sjötta sinn eftir harða baráttu við Guðmund Sigurjónsson
Jóhann Örn Sigurjónsson skrifar.
Friðrik Ólafsson vann titilinn Skákmeistari Islands 1969 eftir tvísýna keppni við Guðmund Sigurjónsson. Tefldi Friðrik af miklu öryggi og var honum aðeins einu sinni ógnað, er hann tefldi gegn Guðmundi í næst síðustu umferð. Sú skák varð þó jafntefli eftir harðar sviptingar.
Guðmundur sannaði ótvírætt að hann er nú okkar næst sterkasti skákmaður. Hann tapaði aðeins einni skák, gegn Hauki Angantýssyni. Tefldi Haukur hina gamalkunnu Birds byrjun, en danski meistarinn Bent Larsen hefur mikið dálæti á þessari byrjun. Fórnaði Haukur skiptamun í byrjun tafls og fékk góð sóknartækifæri í staðinn. Tefldi hann sóknina fast og vel og var ekki að sökum að spyrja.
Haukur og Björn Þorsteinsson hlutu 3. og 4. sætið og skipa þeir landslið Íslendinga 1969 ásamt Guðmundi og Friðriki.
Freysteinn Þorbergsson náði 5. sæti, en tefldi ekki af sama öryggi og á Fiske-mótinu sl. sumar. Nokkuð sérstakt atvik kom fyrir í skák hans gegn Halldóri Jónssyni. Fór skákin í bið eftir 40 leiki og lék Halldór biðleik. Er tekið var til við skákina að nýju kom í Ijós að Halldór hafði leikið nokkuð kynlegan leik Rc2-e4. Ekki var skákstjórinn ánægður með þennan riddaragang og dæmdi skákina réttilega unna hjá , Freysteini. Reyndar stóð hann öllu betur, en þó var töluvert eftir af skákinni.
Vísir 19. apríl 1969.
1969: Skákþing Íslands
Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Skákirnar
Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu