1977: 39. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Gunnar Steinn Pálsson skrifar. Þjóðviljinn 28. janúar 1977.

Sovéski harðjaxlinn Geller komst upp að hlið Hollendingsins Sosonko eftir stórskemmtilega skák gegn Nicolac á skákmótinu í Wijk aan Zee í gær. Um leið náðu Sovétríkin þeim ágæta árangri að bera sigur úr býtum í öllum flokkum, sem keppt var í á þessu móti, en það voru til dæmis flokkur stórmeistara, meistara, kvennaflokkur, unglingaflokkur o.fl. Alls staðar röðu þeir sovésku sér í efstu sætin en Geller varð þó að deila sínu með Sosonko.

 

39. Hoogoven-skákmótinu er þar með lokið og verður afmælisskákmótið næsta ár, það fertugasta í röðinni, glæsilegra en nokkru sinni fyrr, ef áætlun verður haldið. Mikill áhugi er ævinlega fyrir þessu móti og með lokasprettinum fylgdust hvorki meira né minna en eitt þúsund manns.

 

Síðan 1963 hefur Hollendingur ekki borið sigur úr býtum í Wijk aan Zee, en þá var það Donner sem hélt forskoti sínu mótið í gegn. Nú kom Sosonko öllum á óvart, og þessi lítt þekkti og tiltölulega nýbakaði stórmeistari, sem ættaður er frá Sovétríkjunum en hefur hollenskan ríkisborgararétt, tefldi stórglæsilega í hverri umferðinni á fætur annarri.  Hann hefur rólegt yfirbragð og er gæflyndur maður, en í skákinni teflir hann af grimmd og stóðust andstæðingar hans honum aldrei snúning á þessu móti.

 

Sosonko og Timman eru hetjur Hollendinga um þessar mundir, en sá fyrrnefndi hélt sér við toppinn alveg frá byrjun. Timman sigraði í fimm síðustu skákum sínum og tefldi þá stórglæsilega um leið og hann klifraði alla leið upp í 3. sæti. Í gær sigraði Timman Miles í hörkuskák en íslensku stórmeistararnir, þeir Friðrik og Guðmundur, hafa greinilega misst áhugann að mestu. Í gær sömdu þeir um jafntefli eftir mjög stuttar skákir.

 

Guðmundur tefldi gegn Böhm og sömdu þeir kappar eftir aðeins tólf leiki, enda skipti staðan [á mótinu] þá nákvæmlega engu máli. Friðrik tefldi við Kavalek og hafði hvítt. Skák þeirra tók aðeins 13 leiki og sömdu þeir þá um jafntefli. Sannarlega ekki mikil barátta í þeim viðureignum enda e.t.v. fullseint að keyra hörkuna upp í síðustu umferð.

 

Ný mót eru framundan og þeir Friðrik og Guðmundur hafa báðir tekið stefnuna á Genf í Sviss.

39. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1977_hoogovens_tafla

Vinningshlutall 55%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu