1966: XVII. Ólympíuskákmótið á Havana

Tíminn, 27. nóvember 1966.

Íslenska skáksveitin kom heim frá Ólympíuskákmótinu á Havana í gærkvöldi eftir langa og stranga útivist, sem stóð um sex vikur. Sveitin stóð sig með miklum ágætum og náði betri árangri en nokkur sveit íslensk áður á slíku móti — skipaði 11. sætið af 52 þjóðum. Blaðið náði rétt sem snöggvast tali af fyrirliða sveitarinnar, Friðriki Ólafssyni við heimkomuna.

Það er ansi gott að vera kominn heim til fjölskyldunnar aftur — þetta hefur verið langur tími, en við fórum utan hinn 18. október, sagði Friðrik, og mótið sjálft var mjög strangt.

Ertu ánægður með frammistöðuna?

Já, þetta er betri árangur en nokkur þorði að vona í upphafi, en við hefðum án nokkurrar heppni átt að verða fyrir ofan Dani. Ingi stóð sig ágætlega — betur en við áttum von á — og Guðmundur Pálmason stóð sig í stykkinu. Árangur var hinsvegar heldur slakur á neðsta borðinu.

En hvað með þig sjálfan?

Ég var sæmilega ánægður, en æfingarleysið háði mér nokkuð — og þó einkum kunnáttuleysi í byrjunum. Ég hef ekki haft tíma til að rannsaka byrjanir nógu vel undanfarin ár — maður þarf raunverulega að fara yfir nýjar skákir á hverjum degi; það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram.

Þú tapaðir þremur skákum?

Já, það var nú sennilega þreytu um að kenna að nokkru leyti. Ég átti auðveldar vinningsleiðir í tveimur þessara skáka, gegn Tékkanum Hort og Austur-Þjóðverjanum Uhlmann, einkum var þó skákin gegn Uhlmann létt unnin, en ég eyddi of miklum tíma í hana, fórnaði of mörgum mönnum — og tefldi af mér í tímahraki. Ég skil raunverulega ekki hvernig ég gat tapað þeirri skák. Gegn Fischer átti ég ágætt tafl, og það var engin þörf að tapa þeirri skák.

Hver var besta skákin þín?

Ja, ég veit ekki — sennilega vinningsskákin gegn Larsen.

Hvernig gekk Larsen á mótinu?

Illa framan af, en hann lagði árangur sinn mjög í lokin, vann þá Gligoric, Pachmann og Minev — og hann hefur sennilega verið með svipaðan árangur og ég í úrslitakeppninni, um 50%, kannski þó aðeins lakari.

Hver hlaut flesta vinninga á 1. borði?

Það þori ég ekki að fulyrða, en heimsmeistarinn Petrosian fékk besta hlutfallstölu alla vega. Ég veit ekki hve margar skákir hann tefldi, en hann vann allar nema þrjár, sem hann gerði jafntefli í.

En Fischer?

Hann stóð sig lengi mjög vel, en dalaði undir lokin, tapaði þá meðal annars fyrir Gheorghiu frá Rúmeníu.

Hvernig var framkvæmd mótsins?

Hún var mjög góð og móttökurnar alveg frábærar. Allir keppendur á mótinu voru leystir út með gjöfum í lokin, og þetta er áreiðanlega glæsilegasta Ólympíumót, sem haldið hefur verið, sagði Friðrik að lokum.

1966: XVII. Ólympíuskákmótið á Havana

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Ólympíumótið 1966: Undanrásir

1966_havana_undanrasir-tafla

Ólympíumótið 1966: Úrslit

1966_havana_urslit-tafla

Vinningshlutall 64%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu