1962: XV. Ólympíuskákmótið í Varna

Friðrik með bestan árangur allra á 1. borði!

 

Þjóðviljinn 20. október 1962.

Í gær hitti fréttamaður blaðsins að máli Arinbjörn Guðmundsson skákmeistara en hann kom heim í fyrrinótt ásamt fjórum öðrum félögum sínum, er kepptu fyrir Íslands hönd á nýafstöðnu Ólympíuskákmóti í Varna í Búlgaríu. Notaði fréttamaðurinn tækifærið að inna hann frétta af mótinu og þá sérstaklega frammistöðu íslenzku sveitarinnar.

Hvað viltu segja um frammistöðu íslenzku skáksveitarinnar, Arinbjörn, reiknuðuð þið með betri eða lakari heildarárangri?

,,Ég held að hún hafi verið eftir öllum vonum, því að við vorum allir mjög lítið þjálfaðir og illa undir mótið búnir, enda kom það greinilega fram að æfingaleysi háði okkur, sérstaklega í byrjun mótsins. Ég hafði reyndar vonað, að við yrðum heldur ofar í röðinni í B-flokknum en keppnin þar var mjög jöfn og lítill munur á sveitunum, þannig hefðum við orðið um miðjan flokk, ef við hefðum fengið tveim vinningum meira.“

Hvað geturðu sagt mér um árangur einstakra keppenda?

,,Friðrik stóð sig eins og hetja og var með hæsta vinningahlutfall allra keppenda mótsins á 1. borði. Hann fékk 77,78% vinninga, vann 10 skákir, gerði 8 jafntefli og tapaði engri. Friðrik tefldi flestar skákirnar mjög vel, sérstaklega skákina á móti Gligoric sem var mjög erfið, en henni lauk með jafntefli. Skákina gegn O’Kelly vann hann mjög skemmtilega í aðeins 20 leikjum.“

Þú stóðst þig ágætlega í undankeppninni en tefldir aðeins 3 skákir í úrslitakeppninni. Hvernig stóð á því, varstu veikur?

,,Þegar ég var búinn að tefla 7 skákir, fékk ég mikil óþægindi í augun og fóru þau síversnandi eftir hverja skák. Fór ég til augnlæknis og kom í ljós, að gleraugun sem ég var með áttu ekki við sjónina og bólgnuðu augun af þeim sökum. Bannaði hann mér að tefla meira. Ég tefldi alls 11 skákir, vann 3, gerði 7 jafntefli og tapaði einni.“

Hvernig stóðu nýliðarnir í skáksveitinni sig?

,,Frammistaða þeirra Jóns Kristinssonar og Jónasar Þorvaldssonar kom mjög á óvart. Jón hefur aldrei teflt áður á erlendum vettvangi og Jónas aðeins einu sinni, á unglingamóti í Noregi 1957. Jón sýndi mikla keppnishörku og seiglu og þótt hann væri með verri stöðu í sumum skákunum gaf hann sig ekki. Hann hlaut 6 vinninga í 14 skákum, vann 2, gerði 8 jafntefli og tapaði 4. (42,86%). Jónas tefldi einnig af miklu meiri hörku en hann hefur gert áður. Hann hlaut 5 vinninga í 13 skákum, vann 4, gerði 2 jafntefli og tapaði 7. (38,46%).“

,,Björn Þorsteinsson hlaut 50% vinninga og var vel að þeim árangri kominn. Hann stóð sig vel en tefldi ekki eins traust og hann hefur gert oft áður. Hann vann 4 skákir, gerði 4 jafntefli og tapaði 4 skákum. Jón Pálsson þekkti maður ekki fyrir sama mann eins og hann hefur teflt á mótum hér heima. Hann hlaut 2,5 vinning í 12 skákum, vann eina, gerði 3 jafntefli og tapaði 8. (20.83%).

Hvernig var aðbúnaðurinn og aðstaðan á mótinu?

,,Aðbúnaðurinn var ágætur nema maturinn féll okkur Norðurlandabúunum ekki, og urðu sumir hart úti af þeim sökum. Annars var þetta ágætur matur fyrir þá sem voru vanir honum.“

Hvað geturðu sagt mér af úrslitakeppninni í A-flokknum?

,,Þar bar hæst skákina milli Botvinniks og Fischers. Að henni voru eins margir áhorfendur úti sem inni, enda var hún sýnd á sýningarborði úti. Hún endaði með jafntefli. Botvinnik hafði hvítt og tefldi byrjunina óvenju hvasst og virtist hann fá heldur betra tafl. Hann fórnaði svo snemma peði til þess að halda spennunni á miðborðinu, en Fischer tókst með nákvæmri taflmennsku að létta á stöðunni og halda peðinu sem hann hafði yfir. Rétt áður en skákin fór í bið virtist Fischer hafa miklar vinningslíkur. Hann átti 2 peð á drottningarvæng (á b6 og a7) á móti einu peði hjá Botvinnik (á a2). Einnig átti Fischer hrók, sterkan riddara og 2 peð kóngsmegin á móti hróki og biskupi og tveim peðum kóngsmegin hjá Botvinnik.“

,,Fischer hefur líklega misst af vinningnum með því að skipta á riddaranum og biskupnum. Rétt fyrir biðina gat Botvinnik skipt upp á a-peði sínu og b-peði Fischers og tókst Fischer ekki að vinna skákina vegna nákvæmrar taflmennsku Botvinniks þrátt fyrir átta tíma setu alls.“

Hvernig fóru hinar skákirnar milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna?

,,Petrosjan og Benkö gerðu jafntefli, Spassky vann Robert Byrne og Tal og David Byrne gerðu jafntefli svo að Rússar unnu með 2,5 vinningi gegn 1,5. Ég held að Spassky hafi teflt manna bezt á mótinu heilt yfir. Sýndi hann sérstaklega mikið öryggi.“

1962: XV. Ólympíuskákmótið í Varna

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1962: XV. Ólympíumótið í Varna: Riðlakeppni

1962_varna_tafla_ridla

1962: XV. Ólympíumótið í Varna: Úrslitakeppni

1962_varna_tafla_urslit

Ólympíumót: Öll mót Friðriks

1956_Olympiumot_oll-mot-Fridriks

Vinningshlutall 78%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu