1962: Millisvæðamót FIDE í Stokkhólmi

Magnaður sigur Fischers á millisvæðamótinu í Stokkhólmi

 

Grein úr SKÁK, 3. tbl. 1962

Millisvæðamótið svonefnda, sem skipað er efstu mönnum úr hinum einstöku svæðamótum, var háð í Stokkhólmi á tímabilinu frá janúarlokum og fram í marzbyrjun. Eins og sjá má á töflunni voru saman komnir fjölmargir sterkir meistarar, og var því vitað að baráttan um hin sex eftirsóttu sæti yrði afar hörð og spennandi.

1962 Stokkhólmur - Korchnoi og Fischer
Viktor Korchnoi og Bobby Fischer slá á létta strengi með sænskum embættismönnum. Bandaríkjamaðurinn ungi var í algjörum sérflokki á þessu firnasterka skákmóti.

Úrslit keppninnar urðu þau, að hinn ungi stórmeistari Bobby Fischer bar glæsilegan sigur úr býtum, hlaut 17 1/2 vinning, tapaði engri skák. Hafði hann 2 1/2 vinning meira en næsti maður, sem er sjaldgæfur árangur í jafn sterku móti. Aðeins einu sinni lenti hann í erfiðleikum, gegn Geller, en tókst að bjarga sér með ágætri taflmennsku. Fischer fór vel af stað og komst fljótlega í fremstu röð. Eftir 11. umferð hafði hann tekið forustuna og hélt henni til loka mótsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem skákmeistara utan Sovétríkjanna tekst að sigra í þessu móti, og virðist því Vesturheimur loks hafa eignazt mann, sem ógnar veldi Sovétríkjanna í skákheiminum. – Það verður án efa spennandi að fylgjast með Fischer á áskorendamótinu, því án efa verður hann Sovétmeisturunum skeinuhættur, þótt við ramman reip sé að draga.

Næstir Fischer urðu þeir Petrosjan og Geller, hlutu 15 v. hvor. Petrosjan fór heldur rólega af stað, en var nálægt „toppnum“ fram eftir mótinu, og það var ekki öruggt fyrr en í lokin að hann kæmist áfram. Geller byrjaði heldur illa, tapaði í fyrstu umferð fyrir Cuellar, en náði sér fljótt á strik og fylgdi Fischer fast eftir. Í 19. umferð beið hann ósigur fyrir Pomar, og þá var útséð um það að hann gæti náð Fischer.

Þeir Dr. Filip og Kortsnoj höfnuðu í 4.-5. sæti með 14 vinninga. Filip komst strax í „toppinn“ og hélt sig þar út allt mótið. – Kortsnoj komst heldur seint í gang, en náði sér vel á strik í síðari hluta mótsins.

Í 6.-8. sæti koma þeir Stein, Gligoric og Benkö með 13 1/2 v. Urðu þeir því að tefla til úrslita um 6. sætið og sigraði Stein, hlaut 3 v., Benkö 2 1/2 og Gligoric 1/2 v. Samkvæmt reglugerð mótsins geta aðeins þrír Sovétmeistarar komizt áfram, og hreppti Benkö því 6. sætið og ferð til Curacao. Gligoric virðist ekki hafa verið í „formi“ í þessu móti.

Öllu sorglegri eru þó örlög Uhlmanns, sem tók forystuna í byrjun og var í efsta sæti eftir 9. umferð. Eftir 14. umferð var hann í 2. sæti með 10 vinninga, en þá sneri gæfan við honum bakinu eða taugarnar hafa bilað, því í þeim  umferðum, sem eftir voru, hlaut hann aðeins 2 1/2 vinning.

Friðrik Ólafsson slapp ekki heldur við áföllin, er hann missti unna stöðu niður í tap gegn Petrosjan í fyrstu umferð. Virtist Friðrik aldrei ná sér verulega á strik eftir þetta, þótt hann hafnaði rétt á eftir þeim útvöldu.

Um önnur úrslit vísast til meðfylgjandi töflu.

1962: Millisvæðamót FIDE í Stokkhólmi

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1962 Stokkhólmur_tafla

Vinningshlutall 55%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu