Friðrik Ólafsson sigurvegari í svæðamóti III.
Þá er mótinu í Marianske Lazne lokið með öruggum sigri Friðriks Ólafssonar. Athyglisvert er hve vinningshlutfall efstu manna á mótinu er hátt: Friðrik hefur 12 1/2 vinning, Filip 12 og Uhlmann 10 1/2. Ef tekin eru til samanburðar hin svæðismótin í Evrópu, í Búdapest og Madrid, kemur í ljós að þar kemst enginn hærra en í 10 1/2 vinning úr jafnmörgum skákum. Að vísu er þetta mót ögn veikara en til var stofnað, þar vantar Bent Larsen og fleiri góða menn, en munurinn talar sínu máli engu að síður.
Með sigrum sínum á svæðismótunum tveimur hefur Friðrik sett met, sem erfitt verður að hnekkja, hann er taplaus í 24 skákum og vinnur bæði mótin með nákvæmlega sama vinningshlutfalli, eða rösklega 83%. Við þetta bætist svo ágæt frammistaða hans á skákmótinu í Moskvu. Þegar þetta er allt athugað í senn, verður niðurstaðan sú, að Friðrik hafi enn bætt við sig og hafi aldrei teflt betur en í ár. Vonandi slakar hann ekki á klónni á stórmótinu í Bled. (G. A.).