1975: Svæðamót FIDE í Reykjavík

Svæðamótið í Reykjavík 1975

Zoltan Ribli öruggur sigurvegari

 

Zoltan RibliÞá er lokið frábæru skákmóti í Reykjavík — einum áfanga af mörgum á leiðinni til að fá úr því skorið hver fær að skora á Karpov til einvigis um heimsmeistaratitilinn í skák.

Skömmu eftir að mótinu hér í Reykjavík lauk, bárust einnig fréttir um úrslit sams konar móts í Búlgaríu.

Íslensku stómneistararnir tóku þátt í þessum mótum og bundu íslenskir iðkendur og unnendurnskáklistarinnar miklar vonir við þá báða. Var jafnvel talið í munn berandi, að þeir kæmust báðir áfram til keppni í millisvæðamóti, sem er næsti áfangi, og ef grannt er skoðað og lítið til árangurs islensku stómeistaranna, átti þetta að takast.

Sigurður Sigurðsson fréttamaður sem fylgst hefur með og flutt ágætar frásagnir af öllum meiriháttar skákmótum hérlendis á undanförnum árum, komst þannig að orði, er hann greindi frá úrslitum á mótinu í Búlgaríu, að þetta væru „vonbrigði á vonbrigði ofan.“ Undir þau orð munu margir taka, því miður.

Hér verður fyrst og fremst fjallað um mótið í Reykjavík, en hjá því verður ekki komist, að lýsa vonbrigðum yfir endalokum mótsins í Búlgaríu. Guðmundur Sigurjónsson sýndi frábæna taflmennsku á mótinu og vann margan frækinn sigur, allt til síðustu umferðarinnar. Þá teflir hann við aldinn skákmann frá Ísrael, sem mun hafa verið í neðsta sæti, og hefur Guðmundur baráttuna af því ofurkappi, að hann sést ekki fyrir og verður að fella kóng sinn í lokin. Þar með fór það, sem hélt. Það er hastarlegt að glopra þannig niður farseðlinum á millisvæðamótið og gera að engu þau afrek, sem Guðmundur var þegar búinn að vinna á mótinu. Á vonbrigðin vegna mótsins í Reykjavík verður að minnast síðar í þessu greinarkorni.

Liberzon-Parma-Friðrik-PautainenSvæðismótið í Reykjavík var viðamikið og kostnaðarsamt fyrirtæki og þótti ýmsum mikið færst í fang að taka að sér mótshaldið hér á landi. En forystumenn Skáksambands Íslands og Taflfélags Reykjavíkur héldu ótraruðir á brattann, minnugir þess hve heimsmeistaraeinvígið tókst vel hér í Reykjavík. Þeir hafa unnið frábærlega gott starf við undirbúning mótsins og mótshaldið sjálft og hefur það verið þeim til hins mesta sóma. Var það mál allra hinna erlendu keppenda, að mótið hafi verið mjög vel skipulagt og farið vel fram og luku þeir miklu lofsorði á mótsstjórnina, aðbúnað og viðurgenning allan.

Er ekki fjarri lagi, að loknu þessu móti, að taka undir orð borgarstjóra Reykjavíkur, Birgis Ísleifs Gunnarssonar, i ávarpi, sem birtist í mótsskránni:

Reykjavík er því með sanni eitt af höfuðbólum skáklistarinnar í heiminum.

Við þessi orð mega íslenskir skákmenn og forystu menn samtaka þeirra vel una, enda til þeirra unnið.

Svæðismótið í Reykjavík fórhægt og silalega af stað. Þegar draga skyldi um töfluröð að kvöldi laugardagsins 18. október voru tveir keppenda ókomnir, þeir Liberzon frá Ísrael og Murray frá Írlandi. Þoka tafði hinn síðarnefnda, en nokkuð er óljóst um ferðir Liberzons. Þó mun það hafa komið fram, að hann lagði ekki af stað frá Ísrael fyrr en á laugardgsmorgun, og virðist hann ekki hafa ætlað sér langan frest til að komast frá einni heimsálfu í aðra. Var haldið uppi spurnum um hann á ýmsum stöðum á leiðinni og ekkert lét sá góði maður frá sér heyra. Þegar hann loks kom til landsins, kvaðst hann ekki hafa getað látið vita af sér því að símstöðvar hefðu verið lokaðar í London á sunnudeginum, og lét séra Lombardy, yfirdómari mótsins, segja sér það tvisvar, og trúði þó eigi.

Þegar loks Liberzon kom til landsins tók ekki betra við. Mótsstjórnin hafði fengið í hendur mynd af skákmanninum og bar þar fyrir augu sköllóttan mann og nokkuð við aldur að sjá. Þeir sem fóru suður á Keflavíkurflugvöll að taka á móti eftirlegukindunum tveimur, skimuðu í allar áttir eftir þessum sköllótta manni, en sáu hvergi. Var þá gripið til þess ráðs að kalla manninn upp í kallkerfi vallarins, og birtist þá allhærður og fremur unglegur maður á sviðinu. Reyndist Liberzon hafa fengið sér engu tilkomuminna höfuðdjásn en Ingólfur í Útsýn.

Þessir byrjunarörðugleikar ollu nokkrum erfiðleikum en voru yfirstignir og mótið gat hafist. Í fyrstu umferð seig þegar í stað á ógæfuhliðina fyrir stórmeistaranum okkar, Friðriki Ólafssyni. Hann tefldi við jafn tiginn mann, stórmeistarann Bruno Parma frá Júgóslavíu, sem hlýtur eiginlega að vera af ítölsku kyni, svo miklu fremur líikist hann Ítala í fasi og framkomu en Slava. Er skemmst frá því að segja, að Friðrik tefldi þarna langt undir styrkleika og átti sér aldrei viðreisnar von eftir mistök í byrjuninni.  Ástæðulanst er að rekja gang mála í fyrstu umferðunum, þær voru ósköp lítið áhugaverðar og fátt um fína drætti. Það var eins og mótið væri varla komið í gang, í mesta lagi í fyrsta gír. Áhugi almennings fór eftir því og aðsókn lengi framan af var fremur dræm og fjármálamönnum mótastjórnar lítt að skapi.

W-LombardyÞað sýndi sig strax í upphafi, að vel hafði tekist val á yfirdómara mótsins, séra William Lombardy stórmeistara frá Bandaríkjunum. Hann er íslenskum skákmönnum að góðu kunnur og hefur tvívegis komið hér áður og eignast marga vini og kunningja. Lombardy reyndist mjög traustur og öruggur skákstjóri og naut mikilla vinsælda og virðingar keppenda, enda fór saman hjá honum traust þekking á skák, skákreglum og keppnisreglum og hlýleg og glettin framkoma hins mannlega heimsborgara. Honum til aðstoðar voru tveir góðkunnir Skákmeistarar íslenskir, þeir Bragi Kristjánsson og Jón Pálsson og stóðu þeir vel fyrir sínu.

Keppnistaðzstaða á Hótel Esju var góð, en þegar leið á mótið kom í ljós, að áhorfendarými var of lítið. Áhorfendum til hróss skal það sagt, að þeir létu ekki þrengslin á sig fá og veittu keppendum gott hljóð í salnum og næði til að hugsa upp næstu fléttu.

Þetta svæðismót var að mörgu leyti mjö g frábrugðið hinu heimsfræga einvígi Fischers og Spasskys, sem að líkum lætur. Engu að síður er þetta mjög merkilegt mót þar sem hér var ekki eingöngu teflt um hver yrði efstur eins og allajafna er á skákmótum, heldur var þetta útsláttarkeppni og aðeins tveir efstu höfðu eftir einhverju verulegu að slægjast, sem sé þátttöku í millisvæðamótinu.

Heimsmeistaraeinvígið í Laugardalshöllinni var vitanlega mikill skákviðburður og tekinn sem slíkur af miklum fjölda áhorfenda, sem það sóttu. En mótið var einnig „sjó“, eins konar karnival, þar sem menn komu til þess að sýna sig og sjá aðra þótt þeir hefðu aldrei lært mannganginn og kynnu varla mun á peði og biskup. Þar komu skáld og listamenn, listasnobbarar, salmkvæmismenn og þeir, sem vildu vera með á nótunum. Þessu var ekki til að dreifa á svæðismótinu í Reykjavík. Þangað komu fyrst og fremst áhugamenn um skák, gamlar skákkempur og skákiðkendur, misjafnlega vel að sér í fræðunum, en þó að heita má allir með einhverja nasasjón af skáklistinni. Þetta var því miklu fremur skákmót en ekki samkvæmisleikur i viðburðasnauðu menningarlífi borgarinnar eins og sumarið ’72.

Þegar liða tók á mótið fengu  menn eitt og annað að sjá fyrir peningana og spennan jókst. Að vísu þótti mönnum hlutur Friðriks fremur rýr framan af og um hinn íslenska keppandann, Björn Þorsteinsson Íslandsmeistara, er það að segja, að hann mun ekki hafa gengið heill til skógar í þessu móti og sýndi því alls ekki getu sína og styrkleika og er leitt til þess að vita. Auk þess má benda á, að Björn var eini keppandinn á mótinu, sem varð að stunda vinnu sína jafnhliða keppninni, svo að hann sat þar ekki við sama borð og hinir.

Hartson-HamannSkákskýringar voru allajafna fluttar í hliðarsal og stóðu mest megnis fyrir þeim ungir skákmeistarar svo sem Helgi Ólafsson og Margeir Pétursson, en einnig nokkrir eldri og bar þar hæst Ingvar Ásmundsson. Úr hópi áheyrenda mátti heyra ýmsar raddir og tillögur um leiki og voru þar á ferðinni ýmsir kunnir skákmenn og reyndar einnig ýmsir minni spámenn, en athyglisverðasti skákskýrandi úr hópi áhorfenda var að sjálfsögðu okkar eini og sanni Benóný. Skákskýringar þessar voru að sumu leyti nokkru lausari í böndum en við höfum átt að venjast, en það stendur vafalaust til bóta. Nokkrir erlendu keppendanna fengust aðeins við að skýra skákir og var þeirra einna skemmtilegastur Englendingurinn Hartston.

Friðrik Ólafsson hristi af sér slenið um miðbik mótsins og jók á vonir manna um að hann næði að komast í annað efstu sætanna.

Í elleftu umferð tefldi hann við Hollendinginn unga, Jan Timman, sem var einstaklega óheppinn í þessu móti, og varð að auki fyrir persónulegu áfalli undir lok þess. Þegar skák þeirra fór í bið um kvöldið, var það allra manna mál, að Friðrik væri með tapað tafl og þar með útilokað að hann fengi reisupassa á millilsvæðamótið. Fóru flestir i þungum hug frá mótinu það kvöldið. Morguninn eftir var tekið til við biðskákina. Friðrik hafði rannsakað biðstöðuna mjög nákvæmlega og legið yfir skákinni allt fram til klukkan fjögur um nóttina, þá fór hann í sitt ból. Vafalaust hefur Friðrik lagst djúpt og kannað hverja leið, sem kynni að rétta taflið ef Hollendingurinn gæfi færi á því. Enda fór svo morguninn eftir, mirabile dictu, að Timman missteig sig og lék einn ónákvæman leik, er dugði okkar  íslenska stórmeistara til sigurs.  Vænkaðist nú hagur Strympu.

Sama kvöldið átti Friðrik í höggi  við Liberzon, einn skæðasta, keppinautinn um efstu sætin. Er skemmst frá því að segja, að Friðrik vann þar glæsilegan sigur. Lyftist nú brúnin á mörgum og menn eygðu fræðilegan möguleika á að Friðriki tækist að ná settu marki.

Æstist nú leikurinn og runnin var upp örlagastund. Áhorfendum fór sífjölgandi og margt bar skemmtilegt fyrir augu í skákunum og urðu víða harðar sviptingar. Sennilega verður skákin, sem ungi Finninn Poutiainen tefldi við við tékkneska stórmeistarann Jansa, eftirminnilegust fyrir áhorfendur. Polutiainen var sá keppenda, sem tefldi mest fyrir áhorfendur, ef svo mætti að orði komast. Hann er eitilharður sóknarskákmaður og teflir í stíl hinzs fræga Tal, allt í háalofti, blikandi brandar og brugðin sverð, enda fóru leikar svo í þessari skák, að stórmeistarinn varð að þola þá niðurlægingu, að vera mátaður hastarlega úti á miðju borði. Áður hafði Finninn mátað Timman mjög fallega í mikilli sóknarskák og hlaut fegurðarverðlaun mótsins fyrir hana. Óneitanlega var þessi skák falleg og augnayndi fyrir áhorfendur, en hvort hún var best teflda skákin í mótinu leyfi ég mér að draga í efa. Poutiainen er sóknharður og vigdjarfur skákmaður og gæddur hinu finnska „sisu“, baráttuvilja og þrautseigju, sem einkennir þjóð hans. Athyglisvert er, að hann vann átta skákir, gerði aðeins eitt jafntefli, en tapaði fimm skákum. Segir þetta sitt um skákstíl hans. Með þessum úrslitum tryggði hann sér titil alþjóðlegs meistara i skákinni. Í hraðskákmótinu, sem haldið var eftir svæðismótið, reyndist Finninn harður í hríð og sigraði. Verður gaman að fylgjast með ferli þessa unga skákmeistara á komandi árum.

VandenBroeck-Murray-Björn-LaineAnnar ungur maður vakti mikla athygli, þótt ekki færi jafn mikið fyrir honum, en það var ungverski skákmeistarimn Ribli, sem jafnt og þétt safnaði saman vinningum, að því er virtist án mikilla tilþrifa, en af miklu öryggi, og þegar líða tók á mótið, varð séð að hverju fór, og Ribli varð öruggur sigurvegari mótsins.

Annar vaxandi skákmaður er Oistermayer, næsta hlédrægur og óframfærinn, en á stundum beinskeyttur og illzskeyttur við skákborðið, og fengu ýmsir að kenna á því.

Komið hafa fram raddir um það, að tilhögun svæðamótanna hjá FIDE sé „hrein vitleysa“. Er ástæða til að taka undir það, að æskilegra væri að jafnsterkir menn ættust við á slíkum mótum. Hér komu til leiks keppendur, sem hafa ekki roð við stórmeistununum og hafa enga möguleika á að komast áfram, en eru valdir til keppni eingöngu af landfræðilegum ástæðum. — Á þetta við um ýmsa neðstu menn á mótinu, sem flestir stórmeistararnir „settust á“ í 15-16 leikjum, eins og einn áhorfandinn orðaði það, þó að sumir stórmeistaranna gættu sín ekki sem skyldi og létu það henda sig að ná aðeins jafntefli gegn þeim.

Meðal hinna ágætu manna, sem vart gátu talist eiga erindi í þennan trönudans var geðþekkur garðyrkjubóndi frá eynni Guernsey á Ermarsundi, Laine að nafni. Hann sagði sjálfur í samtali við undirritaðan, að hann gæti ekkert á móti þessum stórkörlum, enda ekki byrjað að tefla skák fyrr en um fertugt. En ekki fer á milli mála að Laine var mesti göngugarpurinn á mótinu. Hann sagðist hafa stundað gönguferðir frá unga aldri og oft gengið 30-40 enskar milur sér til hugarhægðar, og einn daginn í góðviðrinu á meðan á mótinu stóð, fékk hann sér stuttan göngutúr upp að Rauðavatni og aftur niður á Hótel Esju án þess að blása úr nös.

Danski skákmeistarinn Svend Hamann þæfðist illa fyrir sumum stórmeisturunum og í mótslok mátti gera því skóna, að sómi okkar væri í höndum Dana. Var dæmið sett upp þannig, að Friðrik ynni Jansa í síðustu umferðinni, en Hamann næði jafntefli við Parma og þar með næði Friðrik öðru sætinu. Parma þurfti reyndar um 90 Ieiki til að leggja Hamann að velli og einnig frýði skuturinn skriðar hjá okkar manni.

Zwaig-Timman-Ostermayer-JansaFjölmiðlar gerðu þessu merka skákmóti mikil og góð skil og fluttu flest fréttir og langar frásagnir af hverri umferð. Hljóðvarpið stóð mjög myndarlega að verki og útvarpaði Sigurður Sigurðsson beint frá Hótel Esju að lokinni hverri umferð og hafði mikinn sóma af. — Eina undan tekningin var hið háa Sjónvarp. Ókunnugir hefðu mátt halda að sjónvarpsmenn hefðu ekki frétt af mótshaldinu. Fréttir af mótinu voru næsta slitróttar eða engar á stundum.

Það fer víst að verða best að slá botninn í þetta rabb. Ég vona að okkar afburða stórmeistarar séu ekki þau goð á stalli, að ekki megi gagnrýna þá, rétt eins og handboltamenn eða blakara.

Mér finnst að það hljóti að vera hálfgerð handvömm þeirra Friðriks og Guðmundar að komast ekki áfram í millisvæðamótið. Ég hefi áður minnst á Guðmund og nefnt skák Friðriks við Parma. Segja má að Friðrik hafi hlotið heppnissigur gegn Timman og hamrað járnið þegar í stað á meðan það var heitt með því að sigra Liberzon strax á eftir. En svo lét hann deigan síga. Jafnteflið við Ostermayer er þyngra en tárum taki og svipað má segja um jafnteflið við Jansa, svo að ekki sé minnst á jafnteflið við van der Broeck fyrr á mótinu. Ekkert er fráleitt að Friðrik hefði getað náð jafntefli við Parma með eðlilegri taflmennsku Þarna hafa þá farið samtals 2 vinningar. Segjum að Friðrik hefði átt að tapa fyrir Timman að öllu jöfnu ef tekið er mið af biðastöðunni. Hann væri samt heilum vinningi hærri ef umræddar skákir hefðu endað á eðlilegan hátt.

Ég veit ekki hvort íslensku stórmeistararnir voru „á réttu róli“ eins og sagt er, á þessum mótum. Árangur þeirra hlýtur að verða þeim hvatning til að taka skákina fastari tökum og minnast þess, að kapp er best með forsjá. Með ósk um betri tíð og blóm í haga þeim til handa í skáklistinni, læt ég þessum pistli lokið.

Högni Torfason.

1975: Svæðamót FIDE í Reykjavík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_svaedamotid_tafla

Vinningshlutall 71%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu