1954: Svæðamót FIDE – Prag og Mariánske Lázne

Pachman efstur í svæðakeppninni í Prag og Mariánske Lázne

Prýðileg frammistaða Friðriks Ólafssonar

Svæðakeppni Alþjóðaskáksambandsins, sem er fyrsti áfanginn í hinni torsóttu leið að heimsmeistaratigninni, var háð í Prag og Mariánske Lázne í Tékkóslóvakíu, á tímabilinu frá 28. maí til 27. júní s.l.

Eins og kunnugt er, skiptist Evrópa í 3 svæði, Vestur- og Austur-svæði, og Sovétríkin, sem er sérstakt svæði. Fjórir efstu úr V.- og A.-svæðinu og fimm frá Sovétríkjunum hljóta rétt til þátttöku í næsta áfanganum, en ekki er ennþá ákveðið hvar það mót verður haldið.

Íslenzku þátttakendurnir, þeir Friðrik Ólafsson og Guðmundur Pálmason, svo og Einar Þ. Mathiesen, er var í för með þeim, komu til Prag 26. maí. Upphaflega var ætlunin að Guðmundur yrði Friðriki til aðstoðar, en þar eð Ísraels þátttakandinn heltist úr lestinni, var Guðmundi boðið að tefla með, og samþykkti Skáksamband Íslands það fyrir sitt leyti.

1954 Svæðakeppni - l_pacmanFöstudaginn 29. maí hófst setningarathöfnin. Setti forseti Skáksambands Tékkóslóvakíu mótið, og tilkynnti að það væri haldið í minningu hins látna skákmeistara Jan Foltys. Var síðan leikið sorgarlag, og risu allir viðstaddir úr sætum. Síðan voru flutt nokkur ávörp, og að lokum kynnti framkvæmdastjóri mótsins, hr. Louma, keppendur. Sjálft mótið fór fram í útvarpssal, mjög vistlegum. Var keppendum komið fyrir á sviðinu, en fjölda sýningarborða, ýmist fyrir ofan þá eða til hliðar. Niðri í salnum sat fjöldi áhorfenda, sem fylgdist með mótinu af miklum áhuga.

Fyrstu sex umferðirnar voru tefldar í Prag, en þá var mótið flutt til Mariánske Lázne og þar tefldar átta umferðir. Síðustu fimm umferðirnar voru svo tefldar í Prag. Eins og áður er minnzt á, varð tékkneski skákmeistarinn Pachman hlutskarpastur, hlaut 15 v. af 19, sem er mjög glæsilegur árangur í svo sterku móti. Hann tapaði aðeins fyrir Szabo, sem margir spáðu sigri. Munurinn var líka mjög naumur, aðeins hálfur vinningur. Pachman, sem er þrítugur að aldri, var vel að sigrinum kominn. Hann lagði óhemju vinnu í skákir sínar og sýndi fágæta keppnishörku. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum alþjóðaskákmótum með góðum árangri. Meðal annars varð hann efstur í svæðakeppninni 1951, og 2.-3. ásamt Szabo í minningarmóti Rety’s 1949, en þar sigraði Stáhlberg.

Szabo fór geyst af stað, vann fjórar fyrstu skákirnar, og í næstu sjö umferðunum leyfði hann aðeins þrjú jafntefli. En þá stöðvaði Lundin hann, rétt einu sinni, og eftir það hægði Szabo heldur á sér. Í 16. umferð kom hið örlagaríka tap hans fyrir Balanel, sem segja má að kostað hafi hann efsta sætið. – Þeir Szabo og Pachman skiptust á um efsta sætið fram að 15. umferð, er Pachman komst framúr og hélt forystunni eftir það.

Í þriðja sæti er skákmeistari Pólverja, Sliwa, með 13 vinninga. Kom árangur hans nokkuð á óvænt, enda hafði hann heppnina með sér í mörgum skákum.
Í 4.-5. sæti eru þeir Stáhlberg ,og Filip með 12 1/2 v. hvor. – Stáhlberg fór mjög rólega af stað, gerði meðal annars jafntefli við Hoxha, en náði sér á strik og komst fljótlega í „toppinn“. Hann tapaði aðeins einni skák, fyrir Barcza.

Filip byrjaði frekar illa, var í 10.-11. sæti eftir 10. umferð, með 5 v. En hann sýndi geysilega keppnishörku og sigurvilja, og tókst að ná 7 1/2 v. af þeim níu, sem eftir voru. Í sjötta sæti er Friðrik Ólafsson með 11 l/2 v. Fór hann prýðilega af stað, var í 3. sæti eftir 6. umferð, og hélt því einn fram að 12. umferð, en þá náði Stáhlberg honum. Eftir 15. umferð var hann í 5. sæti, og í 7 .-8. sæti eftir 17. umferð. Í síðustu tveim umferðunum hlaut hann 1 1/2 v., sem kom honum í 6. sæti.

1954 Svæðakeppni - yfirlitsmyndÞessi árangur Friðriks er með afbrigðum góður, sérstaklega þegar þess er gætt, að þetta er fyrsta stórmótið, sem hann tekur þátt í. Er frammistaða hans mun betri, en margur þorði að gera sér vonir um. Meðal skáka þeirra, sem Friðrik vann, en þær eru, mjög vel tefldar, má nefna sigur hans yfir þeim Fílip og Barcza, sem báðir eru vel þekktir og sterkir skákmenn. Þessir sigrar Friðriks vöktu að vonum mikla athygli, og fylgdist fjöldi áhorfenda með skákum hans.

Í sjöunda sæti er sænski skákmeistarinn Lundin, með 11 v. Hann fór mjög illa af stað og virtist vera í lítilli sem engri æfingu. Eftir 7. umferð var hann í 17. sæti með 2 1/2 v. En eftir það komst skriður á hann og hlaut hann 8 1/2 v. úr 12 síðustu umferðunum.

Í 8.-9. sæti koma þeir Barcza og Balanel með 10 1/2 v. hvor. Barcza virtist ekki vera í góðu formi, tapaði sex skákum. Hann fór hálfilla af stað, náði sér þó á strik aftur og var í 4. sæti eftir 12. umferð. En í síðustu 7 umferðunum hlaut hann aðeins 2 1/2 vinning. Balanel fór rólega af stað, hafði 5 1/2 v. eftir 12. umferð. Í næstu sex skákum náði hann 5 1/2 v. og var jafn Friðrik er þeir mættust í 18. umferð, en þá vann Friðrik.

Í 10., 11. og 12. sæti eru þeir Sajtar, Kluger og Minev með 10 v. hver. Sajtar tefldi mjög varlega, tapaði aðeins tveim skákum og fékk sitt fyrsta tap í 15. umferð, fyrir Stáhlberg. Varð hann jafntefliskóngur mótsins, gerði samtals 14 jafntefli. Þeir Kluger og Minev fóru báðir hægt af stað, en sóttu á í síðari hluta mótsins.

Guðmundur Pálmason varð 15.-16. ásamt Pedersen, með 7 v. Guðmundur byrjaði mjög vel, vann fyrstu þrjár skákirnar og var í 4. sæti, á eftir Friðrik, eftir 7. umferð. Í miðhlutanum gekk honum mjög illa, en náði sér aðeins á strik í síðustu umferðunum. Má útkoma Guðmundar teljast eftir atvikum góð, þegar þess er gætt, að hann hefur sáralítið teflt í nokkur ár, og þess vegna ekki líklegur til neinna stórræða í löngu móti. – Af skákum Guðmundar má nefna sigra hans yfir þeim Minev og Kluger, sem báðir eru sterkir skákmenn.

Önnur úrslit sjá töflu.

Fyrirkomulag mótins var þannig, að teflt var frá kl. 4-9 e. h., oftast tvær umferðir í einu, og biðskákir á morgnana. Tefldir voru 40 leikir á 2 1/2 tíma, síðan 16 leikir á klukkutíma.
Sunnudaginn 27. júní var mótinu slitið og verðlaun afhent. Tíu peningaverðlaun voru veitt, og skiptust þau þannig: I. verðlaun 2500 tékkneskar krónur, II. 2000, III. 1600, IV. 1300, V. 1100, VI. 1000, VII. 900, VIII. 800, IX. 700 og X. 600 t. kr. – Aðrir keppendur fengu 50 t. kr. fyrir hverja unna skák. Auk peningaverðlauna fengu allir keppendur gjafir.

Tilhögun mótsins og aðbúnaður keppenda var allur hinn vandaðasti.

1954: Svæðamót FIDE - Prag og Mariánske Lázne

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1954 Svæðakeppni - tafla

Vinningshlutall 55%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu