1957: Alþjóðlegt skákmót í Dallas

ALÞJÓÐASKÁKMÓTIÐ Í TEXAS

„Farnir að tefla skák í Texas! Ja, sem ég lifandi, eitthvað er þeim farið að förlast þarna westra“ sagði einhver við mig daginn áður en ég lagði upp í reisu mína til Vesturheims. Ja, ekki veit ég, hvað um veldur, en í borginni Dallasi í Texas, þessu víðfræga landi kúrekamenningar og olíukónga, var í vetur boðað til skákmóts, sem ekki á sinn líka í sögu Bandaríkjanna síðastliðin 20 ár. Boðið var eingöngu þeim skákmeisturum, sem á undanförnum árum hafa eitthvað komið við sögu skáklistarinnar, og var ég svo „heppinn“ að teljast þar á meðal.

Í upphafi mun hafa verið meining þeirra Texasbúa að hafa þetta 12 manna mót, en af ýmsum óviðráðanlegum orsökum varð að lækka töluna niður í 8. Á setningardegi mótsins voru því mættir þarna 8 Skákmeistarar, sem að virðingarstigum skiptust í 6 stórmeistara og 2 alþjóðlega meistara, þeir Reshevsky og Evans fra Bandaríkjunum, Szabó Ungverjalandi, Gligoric Júgóslavíu, Larsen Dan- mörku, Najdorf Argentínu, Yanofsky Kanada og ég undirritaður.

Mótið var til húsa í Hótel Adolphus, stærsta hóteli borgarinnar, en þar bjuggum við jafnframt, meðan á því stóð. Tefld var tvöföld umferð, þannig að hver keppenda tefldi tvær skákir við hvern hinna, og urðu því umferðirnar alls 14. Ekki nenni ég að rekja úrslit hverrar umferðar, því að það yrði of langt mál hér upp að telja, heldur vil ég leitast við að lýsa taflmennsku hvers keppanda, eins og hún kom mér fyrir sjónir, þvi að sú hlið málanna gefur ætíð bezta heildarmynd af einstaklingnum.

Eins og kunnugt er urðu jafnir í efsta sæti með 8 1/2 vinning, þeir Gligoric og Reshevsky. Eigi ég að gera upp á. milli þessara tveggja manna, er ég ekki í nokkrum vafa um, að Gligoric átti heiðurinn betur skilið. Hann tefldi af miklum þunga og öryggi og komst hvergi í taphættu, nema á móti Szabó, enda tapaði hann þeirri skák. Á stundum reyndist hann hins vegar heldur friðsamur og gerði það gæfumuninn, þegar fram í sótti. Um Reshevsky skiptir allt öðru máli, því að ekki var misjöfn taflmennska hans til þess fallin að vinna verðlaun. Það gerði aftur á móti útslagið, að gæfan reyndist honum drjúgum hliðholl, og minnist ég þá helzt þess atburðar, er kappinn Najdorf féll á tíma á móti honum í gjörunninni stöðu og átti þó einungis eftir að leika einn leik á einni mínútu. En það er víst eins og máltækið gamla segir, heppnin er þeim sterka ætið hliðholl.

Þeir Szabó og Larsen skiptu svo á milli sin 3. og 4. verðlaununum og tel ég þau hafa komið þar í réttan stað, því að báðir sýndu þeir ágæta taflmennsku. Szabó virtist þó heldur með daufara móti, sé miðað við hin fjölmörgu jafntefli hans, en þess ber að gæta, að gæfan var honum heldur mótsnúin, t. d. var hann óheppinn að vinna ekki báðar jafnteflisskákir sínar við Reshevsky. Larsen Var „energiskur“ að vanda og lét mótlæti það, sem hann hafði um miðbik mótsins, litið á sig fá. Flestar skáka hans voru ágæta vel tefldar og var hann vel að vinningum sínum kominn.

– 5. sætið féll svo Yanofsky í skaut og var hann áreiðanlega sá keppandinn, sem mest kom á óvart, því að honum var spáð neðsta sætið fyrir mótið. Hann byggði yfirleitt skákir sínar rólega upp, en lét svo hart mæta hörðu, ef andstæðingurinn gerðist nærgöngull.

– Um minn eiginn árangur get ég sagt, að hann er ágætur miðað við taflmennskuna, því að hún var götótt sem gamall ostur. Slæm í byrjun, góð um miðbik mótsins, hörmuleg í lokin.

Hin aldna kempa Najdorf kemur svo í 7. sæti og má hann vissulega muna sinn fífil fegri. Hver man eftir Najdorf næstneðstum í móti áður fyrr? En Najdorf var ekki gæfunnar barn í þessu móti, eins og áðurnefnt tap hans gegn Reshevsky sýnir ljóslega, enda virtist mér hann eldast um 10 ár við þann atburð.

Í síðasta sæti kemur svo bandaríski stórmeistarinn Evans og verður ekki sagt, að hann hafi átt hærra sæti skilið, en að sjálfsögðu tefldi hann undir sínum venjulega styrkleika.

Mótið var afar strangt, því að þessar 14 umferðir voru tefldar á aðeins 16 dögum. Hafði þetta að sjálfsögðu sín áhrif á gæði skákanna, enda er mjög óalgengt að mót vinnist á svo lágri prósentutölu sem hér varð raunin á. Sýnir það líka öðrum þræði, hve keppnin hefur verið jöfn, því að einungis skilja að fyrsta og síðasta mann 3 1/2 vinningur.

– Aðsókn að mótinu var fremur dræm til að byrja með, en jókst, er á leið, og komu margir skákunnendur frá öðrum landshlutum, þegar líða tók að síðustu umferð.

Aðbúnaður keppenda var allur með ágætum og munum við lengi minnast frábærrar gestrisni þeirra Texasbúa.

Friðrik Olafsson.

1957: Alþjóðlegt skákmót í Dallas

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn   1 2 3 4 5 6 7 8 Vinn Prósenta
1. Svetozar Gligorić  Yugoslavia x ½½ ½½ ½1 8,5 61%
2. Samuel Reshevsky  United States ½½ x ½½ ½½ 01 11 11 8,5 61%
3 László Szabó  Hungary ½½ x ½½ ½½ ½½ ½1 7,5 54%
4 Bent Larsen  Denmark ½½ ½½ x ½1 01 01 7,5 54%
5 Daniel Yanofsky  Canada ½½ ½0 x 01 ½½ ½1 7 50%
6 Friðrik Ólafsson  Iceland 10 10 10 x ½½ ½0 6,5 46%
7 Miguel Najdorf  Argentina ½½ 00 ½½ 10 ½½ ½½ x ½0 5,5 39%
8 Larry Evans  United States ½0 00 ½0 ½0 ½1 ½1 x 5 36%
Vinningshlutall 46%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu
Merki: ,