Friðrik Ólafsson var í stórum hópi Íslendinga sem fór í skákvíking til hins sólríka bæjar Portu Mannu á Sardiníu í júní 2015. Þar var nú haldið opið skákmót í sjöunda sinn og voru keppendur alls 124. Stórmeistararnir Jóhann Hjartarson og Margeir Pétursson voru líka meðal keppenda, og var mótið hugsað sem undirbúningur þremenninganna fyrir EM landsliða í skák í Reykjavík um haustið.
Auk stórmeistaranna settu fjölmargir íslenskir skákmenn á öllum aldri svip á mótið og rökuðu til sín verðlaunum í hinum ýmsu flokkum.
Friðrik fékk 6 vinninga af 9 mögulegum á mótinu, vann fjórar skákir, gerði fjögur jafntefli og tapaði aðeins fyrir ítalska stórmeistaranum Sabino Brunello, sem varð efstur á mótinu ásamt Rússanum Konstantin Landa. Þriðji varð Axel Rombaldoni, en Friðrik lenti í 4.-16. sæti, ásamt Jóhanni og Margeiri.
Þátttaka hins áttræða heiðursborgara Reykjavíkur, fyrrverandi áskoranda um heimsmeistaratitilinn og forseta FIDE vakti að vonum mikla athygli, og hefur íslenskum víkingaforingja líklega aldrei verið betur fagnað!
VII. alþjóðlega Capo d´Orso-mótið
Árangur Friðriks og vinningshlutfall

