Friðrik Ólafsson var í stórum hópi Íslendinga sem fór í skákvíking til hins sólríka bæjar Portu Mannu á Sardiníu í júní 2015. Þar var nú haldið opið skákmót í sjöunda sinn og voru keppendur alls 124. Stórmeistararnir Jóhann Hjartarson og Margeir Pétursson voru líka meðal keppenda, og var mótið hugsað sem undirbúningur þremenninganna fyrir EM landsliða í skák í Reykjavík um haustið.
Auk stórmeistaranna settu fjölmargir íslenskir skákmenn á öllum aldri svip á mótið og rökuðu til sín verðlaunum í hinum ýmsu flokkum.
Friðrik fékk 6 vinninga af 9 mögulegum á mótinu, vann fjórar skákir, gerði fjögur jafntefli og tapaði aðeins fyrir ítalska stórmeistaranum Sabino Brunello, sem varð efstur á mótinu ásamt Rússanum Konstantin Landa. Þriðji varð Axel Rombaldoni, en Friðrik lenti í 4.-16. sæti, ásamt Jóhanni og Margeiri.
Þátttaka hins áttræða heiðursborgara Reykjavíkur, fyrrverandi áskoranda um heimsmeistaratitilinn og forseta FIDE vakti að vonum mikla athygli, og hefur íslenskum víkingaforingja líklega aldrei verið betur fagnað!