1970: Alþjóðlegt skákmót í Lugano

Morgunblaðið, 20. mars 1970.

Friðrik Ólafsson varð annar á stórmeistaramótinu sem lauk í gær í Lugano, Sviss. Bent Larsen sigraði á mótinu, hlaut 9,5 vinning, en Friðrik 8,5. Í þriðja og fjórða sæti urðu Gligoric, Júgóslavíu, og Vestur-Þjóðverjinn Unzicker með 7,5 vinning hvor. Byrne, Bandaríkjunum hlaut 7 vinninga og varð fimmti. Ungverjinn Szabo varð sjötti með 6 vinninga, Tékkinn Kavalek sjöundi með 5,5 og Donner, Hollandi, áttundi með 4,5 vinning.

 

Öllum skákunum í síðustu umferð lauk með jafntefli. Friðrik gerði jafntefli við Byrne, Donner við Larsen, Unzicker við Kavalek og Gligoric við Szabo. Flestar voru skákirnar stuttar og keppendur búnir að sætta sig við röðina og enginn þeirra virtist þess umkominn að taka á sig neina hættu undir lokin.

Friðrik vann 5 skákir, gerði 7 jafntefli og tapaði tveimur skákum á mótinu, en Larsen vann 7 skákir, gerði 5 jafntefli og tapaði einnig tveimur.

Blaðið átti í gær stutt viðtal við Friðrik og í því gat hann þess að á morgun héldi hann frá Sviss til Belgrad, höfuðborgar Júgóslavíu, en þar hefst þann 29. þessa mánaðar allnýstárleg skákkeppni, sem oft hefur verið talað um á undanförnum árum en aldrei orðið að veruleika fyrr en nú, en  það er keppni milli 10 bestu skákmanna Sovétríkjanna gegn 10 bestu skákmönnum heims utan Sovétríkjanna.

 

Dr. Euwe, heimsmeistari í skák 1935-37, valdi heimsliðið. Friðrik var valinn í 11. sæti, eða sem 1. varamaður í keppninni. Aðspurður um ákvörðun Bent Larsens um að taka ekki þátt í fyrrnefndri keppni, sagðist Friðrik halda að Larsen ætli að mæta í Belgrad og sjá hverju fram vindur. En Larsen vill tefla á 1. borði, eða sitja hjá ella.

 

,,Það er dálítið erfitt þegar um tvær primadonnur er að ræða. Önnur hvor verður að gefa sig,“ bætti Friðrik við og átti þá við þá Fischer og Larsen á 1. og 2. borði heimsliðsins.

 

Í keppni þessari tefla Sovétmenn, með Spassky og Petrosian í fararbroddi, fjórum sinnum gegn heimsliðinu og er því um 40 mögulega vinninga að tefla.

 

Blaðið óskar íslenska stórmeistaranum til hamingju með sína ágætu frammistöðu í Lugano.

1970: Alþjóðlegt skákmót í Lugano

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1970 lugano mótstafla

Vinningshlutall 61%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu
Merki: