HEIMSMEISTARAMÓT STÚDENTA
Sovétstúdentarnir sigruðu örugglega.
Undirbúningur.
Í októbermánuði í fyrra var skipuð framkvæmdanefnd til undirbúnings IV. heimsmeistaramóti stúdenta í skák, og var hún þannig skipuð: J. Sajtar, fulltrúi Alþjóðaskáksambandsins (FIDE), K. Vogel, fulltrúi Alþjóðastúdentasambandsins (IUS), Baldur Möller, fulltrúi ríkisstjórnar Íslands, Árni Snævarr, fulltr. bæjarstjórnar Reykjavíkur, Pétur Sigurðsson, fulltr. Háskólaráðs, Bjarni Felixson og Jón Böðvarsson, fulltrúar Stúdentaráðs, Friðrik Olafsson og Þórir Olafsson, fulltrúar Skáksambands Íslands.
Pétur Sigurðsson var kosinn formaður nefndarinnar, Bjarni Felixson gjaldkeri, og Þórir Olafsson ritari. Var Þórir síðan framkv.stj. nefndarinnar frá miðjum maí og þar til mótið byrjaði, en þá tók Grétar Haraldsson við því starfi.
Nefndin kom saman í fyrrahaust og var þá ákveðið, að mótið skyldi fara fram í Reykjavík dagana 11. 26. júlí 1957. Dvöldu þeir Sajtar og Vogel í nokkra daga á Íslandi og kváðu sig samþykka tillögum nefndarinnar varðandi undirbúning mótsins. Voru síðan send boð öllum aðildarríkjum Alþjóðaskáksambandsins og þeim tilkynnt um mótið.
Þátttökutilkynningar og fyrirspurnir um mótið tóku fljótlega að berast. Fer áhugi greinilega vaxandi fyrir mótum þessum, og alltaf bætast við nýjar og nýjar þjóðir. Er nú tala þeirra þjóða, er þátt hafa tekið í stúdentamótum frá því er þau hófust 1952, komin upp í 24.
Undirbúningur mótsins gekk eftir atvikum vel. Nefndin leitaði stuðnings ýmissa aðilja, svo sem ríkis, bæjar, Háskólaráðs, Stúdentaráðs, Skáksambands Íslands, Taflfélags Reykjavíkur, Taflfélags Hreyfils, Taflfélags Landsmiðjunnar, æskulýðssambanda og ýmissa menningafélaga. Var málaleitan nefndarinnar yfirleitt vel tekið, og hlaut hún margvíslega aðstoð.
Keppendum var fengin gisting í Sjómannaskólanum, og þar borðuðu þeir einnig. Skákstaður var ákveðinn Gagnfræðaskóli Austurbæjar.
Mótið hófst 11. júlí. – Setningarathöfnin fór fram í hátiðasal Háskóla Íslands. Ávörp fluttu þeir Pétur Sigurðsson og Kurt Vogel, en setningarræðuna flutti Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri. Athöfninni stýrði Bjarni Beinteinsson, form. stúdentaráðs.
Fyrsta umferð hófst að kvöldi sama dags.
Fjórtán þjóðir sendu þátttakendur til keppni að þessu sinni, og er það næst bezta þátttaka í stúdentamóti til þessa. – Flestar voru þær í fyrra, 16 að tölu. Írar, Ísraelsmenn og Pólverjar höfðu sent þátttökutilkynningar, en munu hafa hætt við þátttöku af fjárhagsástæðum.
Í fyrsta skipti tóku nú þátt Danir, Ekvadormenn og Mongólar. Mongólar sendu lið, á Olympiumótið í Moskvu í fyrra, og var það fyrsta alþjóðaskákmót, sem þeir tóku þátt í. Þeir höfðu frá því í mótinu í Uppsölum sýnt mikinn áhuga fyrir mótinu, og sendu þangað tvo menn til þess að kynna sér fyrirkomulag og þátttökuskilyrði. Voru þeir og hinir fyrstu til að tilkynna þátttöku í mótinu í ár.
Ekvadorsmenn komu hins vegar eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hafði frétzt frá Alþjóðastúdentasambandinu, að þeir sendu einhverjar fyrirspurnir um mótið í júní, en síðan ekkert meira, þar til skeyti barst til framkvæmdanefndarinnar, þess efnis, að þeir væru á leiðinni hingað.
Þessar tvær þjóðir, Ekvador og Mongólía, fulltrúar tveggja fjarlægra heimsálfa, settu ekki hvað sízt skemmtilega alþjóðlegan svip á mótið.
Þátttaka Dana var einkar ánægjuleg nýjung. Er ekki vafi á því, að hún jók áhuga á mótinu til muna, þótt frammistaða þeirra yrði ekki eins góð og búizt var við.
Gangur mótsins.
Í fyrstu og síðustu umferð skákmóta skeður oftast eitthvað markvert. Hið minnisstæðasta úr 1. umferð mun vera stórsigrar Tékka yfir Bandaríkjamönnum, og Mongóla yfir Finnum, 3 ½ – 2 1/2. En síðan unnu Mongólar ekki annað einvígi, þar til í síðustu umferð, og þá gegn Svíum.
Rússar og Tékkar tóku forystuna í upphafi mótsins, en eftir 4. umferð voru Rússar komnir vinning fram úr Tékkunum. Jókst síðan bilið jafnt og þétt milli þeirra og næstu þjóða. Rússarnir tefldu mjög vel, og til marks um öryggi þeirra er það, að þeir töpuðu aðeins tveimur skákum. Sveitin virtist vera nokkuð jafnsterk, þótt Tal sýndi einna mesta snerpu, enda voru þeir bersýnilega í góðri þjálfun. Það er líka ekki svo lítill styrkur fyrir sveitir í mótum sem þessum, að geta notað tvo varamenn, sem eru jafnvel sterkari en aðalmennirnir!
Tékkar og Búlgarar háðu harða baráttu um 2. sætið, og svo fór, að Búlgarar urðu hlutskarpari.
Búlgararnir fóru hægt af stað, en unnu jafnt og þétt á, og komust fram úr Tékkunum í síðustu umferð. Sveit Búlgara er skipuð geysisterkum og mjög jafnsterkum skákmönnum. Það háði þeim nokkuð (og einnig Tékkum), að þeir höfðu aðeins einn varamann.
Tékkar urðu þriðju og Ungverjar fjórðu. Dr. Filip var greinilega bezturi Tékkanna, en hinir nokkuð jafnsterkir. Ungverjar hafa staðið sig betur í á undanförnum stúdentamótum, urðu t.d. í 2. sæti í fyrra. Þeir virtust ekki vera í góðri þjálfun að þessu sinni.
Íslenzka sveitin hreppti 8. sætið með rúmlega 50% vinninga, eftir harða baráttu við Rúmena og Austur-Þjóðverja, sem urðu nr. 6 og 7.
Frammistaða einstaklinga sveitarinnar var nokkuð, svipuð. Mest mæddi á Friðriki Ólafssyni, sem tefldi á 1. borði. Hann hlaut 7 vinninga af 13, þar af 2 gegn 3 stórmeisturum. Þetta er í sjálfu sér góð útkoma, en nálgast ekki það bezta, sem Friðrik hefur áður náð á alþjóðamótum.
Guðmundur Pálmason tefldi á 2. borði og hlaut einnig 7 v. af 13. Hann var öruggasti maður sveitarinnar, tapaði aðeins einni skák.
Ingvar Asmundsson tefldi á 3. borði og hlaut hæstu vinningatölu Islendinga, 7 1/2 v. af 13. Hann tefldi af mikilli snerpu og margar ágætar skákir. Er þetta einhver bezta frammistaða Ingvars til þessa.
Á. 4. borði hlaut Þórir Ólafsson 5 1/2 v. af 12. Hann tefldi flóknar og erfiðar skákir, og skorti nokkuð á í úthaldi, er líða tók á mótið.
Varamenn voru þeir Jón Einarsson og Arni G. Finnsson. Jón tefldi eina skák og tapaði.
Hér fara á eftir vinningatölur þriggja efstu manna á hverju borði fyrir sig:
-
borð:
- Tal (Sovét) 8 1/2 af 10
- Filip (Tékk.) 10 af 13
- Kolarov (Búlg.) 9 af 12
-
borð:
- Spassky (Sovét) .. 7 af 9
- Minev (Búlg.) 8 1/2 af 12
- Drimer (Rúm.) 7 af 12
-
borð:
- Polugaevsky (Sov.) 8 af 9
- Blatny (Tékk.) 9 af 12
- Forintos (Ung) 7 af 11
-
borð:
- Tringov (Búlg.) .. 9 1/2 af 12
- Saidy (Bandar.) .. 8 1/2 af 12
- Gurgendize (Sov.) 6 af 9
Varamenn:
- Gipslis (Sovét) 7 af 7
- Nikitin (Sovét) 7 af 8
- Vyslousil (Tékk.) .. 6 1/2 af 8
Um önnur úrslit vísast til meðfylgjandi töflu.
Teflt var í ágætum húsakynnum, fordyri Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Áhorfendur voru fleiri en á nokkru öðru skákmóti hérlendis til þessa. Skákir voru oft skýrðar í hliðarherbergjum, og áhorfendum þannig gefinn kostur á að fylgjast sem bezt með keppninni.
Þeir bræður, Sigurjón og Bragi Þorbergssynir, sáu um fjölritun á skákum mótsins.
Verðlaunaafhending fór fram í Sjálfstæðishúsinu laugard. 27. júlí s.l. Afhentu þeir Pétur Sigurðsson, Kurt Vogel og Bjarni Beinteinsson verðlaunin. Fengu allir erlendu skákmennirnir gæruskinn til minningar um Íslandsferðina. Færðu þeir íslenzku þátttakendunum fána landa sinna að gjöf, en auk þess gáfu Tékkar íslenzku skákmönnunum fagran postulínsvasa.
Og nú, þegar þessu merka, alþjóðlega móti er lokið, og við höfum fengið nokkra reynslu í að halda slík mót, verður manni á að varpa fram eftirfarandi spurningu: Hvenær verður haldið á Íslandi Ólympíumót í skák?
Húsnæðis- og fjárhagsvandamál munu þar vera Þrándur í Götu um sinn, en ekki er óhugsandi, að þeim tálmum verði einhvern tíma rutt úr vegi. Hinn mikli áhugi almennings á skák, og það, að fólk telur ekki eftir sér að leggja nokkuð af mörkum til að horfa á skákkeppni, ætti að ýta undir framkvæmd þessarar hugmyndar.
Þórir Ólafsson.