Guðmundur Sigurjónsson, stórmeistari í skák, bar sigur úr býtum í Helgarskákmótinu í Borgarnesi, sem lauk á sunnudag. Hann hlaut 5,5 vinning á mótinu, en þátttakendurnir 28 tefldu sex skákir hver. Næsta helgarskákmót fer fram á Bolungarvík og Ísafirði fljótlega.
Mótið fór fram í Hótelinu í Borgarnesi og keppendur bjuggu þar meðan á keppninni stóð og kunnu vel að meta hina góðu aðstöðu þar. Það er Tímaritið Skák, sem gengst fyrir þessum helgarskákmótum, og Jóhann Þórir Jónsson, ritstjóri Skákar, var skákstjóri.
Verðlaun í mótinu gáfu Hótel Borgarnes og Borgarneshrepur. Sigurvegarinn fékk 300 þúsund krónur í sinn hlut, en aðrar 300 þúsund skiptust á milli þeirra, sem urðu í 2 næstu sætum.
Í stigakeppninni, sem háð er í þessum helgarskákmótum, hefur Helgi Ólafsson forystuna með 40 stig, Guðmundur Sigurjónsson 35 stig, Jón L. Árnason 20 stig, Friðrik Ólafsson og Margeir Pétursson 15 stig.
Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, 17 ára stúlka úr Reykjavík, fékk 2,5 vinning í mótinu og þykir sérlega efnileg. Guðjón Rúnarsson úr Borgarnesi stóð sig best unglinga innan 14 ára aldurs og fær að launum vikudvöl í skákskólanum á Kirkjubæjarklaustri næsta sumar. Í mótinu í Keflavík fyrir nokkru vann Halldór Einarsson úr Bolungarvík til sömu verðlauna.
Guðmundur Sigurjónsson var með fullt hús vinninga fyrir síðustu umferð, en gerði þá jafntefli við Helga Ólafsson. Þá má einnig geta þess að Jón L. Árnason vann Friðrik Ólafsson í mótinu.
Morgunblaðið 1. júlí 1980.
Skák nr. 4820
Hvítt: Jón L Árnason
Svart: Friðrik Ólafsson
Spænski leikurinn
Skákirnar
Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu