1978: Sigur Friðriks – sigur Íslands

Jóhann Þórir Jónsson, DV 14. nóvember 1978.

Sá einstæði atburður hefur nú gerst að Íslendingur hefur hlotið kjör sem forseti Alþjóðasambands, sem telur milljónatugi innan sinna vébánda.

Þrátt fyrir þrotlausa vinnu margra manna að undirbúningi þessa máls, standa menn nú kannski örlítið reikandi, sem vonlegt er. Sigurinn kom nokkuð óvænt, þótt vonir væru heitar. Nú dynja spurningarnar. „Hvernig gat þetta eiginlega skeð, hvernig standa málin og hvers virði er þetta landi og þjóð?“

Eflaust eru syörin mörg og margvísleg, en þegar Dagblaðið bað mig að svara þessum spurningum varð ég reyndar tregur til. Ástæðan er augljós. Að mínu mati ættu þeir að svara, sem við eldana sitja. En hvað um það, þrautseigja þeirra Dagblaðsmanna bar mig ofurliði.

Í mínum huga á þetta langan aðdraganda, sem hægt og bítandi þéttist að þessum glæsisigri. Í því sambandi langar mig að taka spyrjandann með mér í snögga ferð um íslenzka skáksögu og svara þannig, á þann eina hátt sem ég kann.

Skáklistin hefur verið landlæg hér á landi frá ómunatíð og í gullaldarbókmenntum okkar er víða getið gjörvilegra skákmeistara, þótt lítið sé um það vitað í dag, hvernig manntafl var þá leikið.

Hin eiginlega eiginlega skáksaga okkar getur þó varla talist hefjast fyrr en um síðustu aldamót. Um það leyti voru stofnuð fjölmörg taflfélög í landinu og fyrsta tímaritið um skák hóf göngu sína. Á þessum árum kom hingað fyrsti alþjóðlegi skákmeistarinn, blaðamaðurinn W. Napier. Hann hafði náð góðum árangri við skákborðið, meðal annars hlotið annað sætið á alþjóðlegu skákmóti sem háð var í Buffalo, en Pillsbury sigraði.

Á þeim árum vorum við þegar farnir að vekja athygli. Nægir þar að geta Magnúsar Magnússonar Smith, sem fluttist til Kanada og vann marga glæsta sigra við skákborðið, og Björn Kalman fluttist einnig út og tefldi talsvert, en hann er af mörgum talinn fyrirmynd og hvati Stefáns Zweigs, er hann hugsaði upp smásöguna Manntafl.

Hin eiginlegu millilandaskipti okkar við skákborðið hefjast ekki fyrr en 1925, sama ár og Skáksamband Íslands var stofnað. Þá tefldum við radioskák við Noreg og skömmu síðar við Dani. Fyrri keppnina unnu Íslendingar með 1,5-0,5 og sömuleiðis fór seinni keppnin.

Við þessa sigra óx okkur ásmegin og nú var farið að horfa til framandi landa með frekari dáðir í huga. 1930 tökum við fyrst þátt í ólympíuskákmóti, og árið eftir kom A. Aljekín hingað og tefldi við okkur fjöltefli.

Nú, fram streymir tíminn, en það varð ekki fyrr en 1939 að við vinnum til verðlauna á erlendri grund. Þá hrepptum við forsetabikarinn fagra á ólympíumótinu í Buenos Aires, þar sem hin miklu tíðindi gerast nú.

Erlendur frami

Til gamans væri að geta þess að einn af keppendum Íslendinga á þessu móti, Guðmundur Arnlaugsson rektor, er eini Íslendingurinn, sem komizt hefur í landslið erlendra þjóða, mér vitanlega. Honum var boðið að tefla með landsliði Dana á þessu sama móti.

Áratugurinn 1940-50 er um margt merkilegur, þá koma fram einstaklingar, sem kveða sér hljóðs á erlendum vettvangi. Fyrstur í röðinni var Guðmundur S. Guðmundsson, en hann tefldi í Hastings 1946 og hlaut þriðja sæti með sex vinninga af níu mögulegum. Vakti þetta að vonum talsverða athygli.

Baldur Möller gerði sér lítið fyrir og varð fyrstur til sigurs á fjölþjóðamóti, er hann varð skákmeistari Norðurlanda 1948. Þetta afrek endurtók hann 1950 er hann vann Norðurlandamótið sem haldið var í Reykjavík og var þá jafnframt fyrsta fjölþjóðamótið sem haldið var hér á landi.

Fer nú atburðarásin að þéttast verulega. Friðrik Ólafsson er kominn til sögunnar og sigraði á Norðurlandamótinu 1953.

1954 komast Íslendingar í fyrsta sinn í röð fremstu skákþjóða heims er þeir tefla í A-riðli ólympíumótsins í Amsterdam. Árið 1955 sigraði Friðrik argentínska skákmeistarann Hermann Pilnik glæsilega í einvígi, 5-1, og um áramótin 1954-55 verður hann ásamt V. Korchnoi sigurvegari í Hastings á mjög sterku þingi. Með Friðrik eignumst við okkar fyrsta stórmeistara, og hann er sá eini okkar, sem komizt hefur í kandídatakeppni, en þar eru lokaátökin fyrir heimsmeistaraeinvígið.

1957 komu hingað tveir sovézkir skákmeistarar og árið 1960 var haldið stórmót með erlendri þátttöku. Í lok þessa móts kom Bobby Fischer hér fyrsta sinni en honum hafði verið boðið á stórmótið en kom of seint. Ekki fór þó svo að hann tefldi ekki. Var slegið upp fjögurra manna móti, sem Fischer vann auðvitað.

Það er þó ekki fyrr en 1964 að fyrsta eiginlega alþjóðlega skákmótið er haldið hér og þegar við vorum komnir á bragðið var ákveðið að halda alþjóðlegt skákmót annað hvert ár. Hefur svo verið síðan. Þetta sama ár eignuðumst við okkur annan titilbera, er Ingi R. Jóhannsson hlaut nafngiftina alþjóðlegur meistari í skák. Margir eru þeirrar skoðunar að hann hefði hæglega getað bætt þeim stóra við, en hann lagði skákiðkun að mestu á hilluna eftir þetta, enda aðrir tímar en nú.

1970 eignuðumst við einn enn alþjóðlegan meistara, Guðmund Sigurjónsson, en síðar eftir langt hlé frá skákinni tók hann sig til og krækti í stórmeistaratitil.

Mesti viðburður FIDE

Árið 1972 verður hins vegar okkar stærsti skákviðburður og ef vitnað er í orð Gligoric þá segir hann á einum stað í framboðsbæklingi sínum, að heimsmeistaraeinvígið i Reykjavík 1972 hafi verið mesti viðburður í sögu FIDE.

Skipulagning þessa einvígis þótti með slíkum hætti, að aðrar þjóðir fylltust lotningu. Þessi atburður varð til þess, að við vorum loks teknir í úrvalssveitir skákheimsins og af mörgum álitnir fremstir á þessu sviði, þ.e.a.s. að skipuleggja og halda mikla skákviðburði.

Alþjóðlegu mótin sem hófust 1964 voru forgrunnurinn að þessu áliti. Skákmeistarar heimsins sóttust eftir þátttöku hér og voru erlendis ósparir á lofið Íslendinga fyrir mótshaldið. Heimsmeistaraeinvígið 1972 var loka-hápunkturinn.

Á þessu augnabliki vorum við líka orðin óumdeilanlega sterk skákþjóð og höfðum fram til þessa unnið Norðurlandameistaratitilinn oftar en nokkur frændþjóð okkar frá 1948 og reyndar jafnoft og þær allar til samans.

Viðmiðun við Ísland

Það er þvi eðlilegt að á þessu augnabliki hefjist ákveðin viðmiðun erlendra þjóða við Ísland hvað skák snertir. Við þetta bætist síðan að nú eigum við tvo stórmeistara, þrjá alþjóðameistara og síðast en ekki sízt heimsmeistara. Það er alveg ótrúlegt, hve jafn fámenn þjóð og einangruð hefur náð langt í þessari andans íþrótt.

„Frábær maður og frábær þjóð“

Þegar við horfum á kjör Friðriks Ólafssonar með hliðsjón af skáksögu okkar, stígandinni sem þar hefur átt sér stað og síðan frábærs árangurs hans sjálfs við skákborðið, fer vafalítið að skýrast hvers vegna slíkur heiður fellur okkur í skaut. Hér sameinast frábær maður og frábær þjóð. Hvað er hægt að hugsa sér betra?

Eftir Friðrik bíða mörg vandamál úrlausnar, vandamál sem erfitt er að leysa. Þar treystir hann á landa sína og ríkisstjórn til aðstoðar.

Á undanfömum árum hafa pólitísk áhrif og afskipti aukizt til mikilla muna innan FIDE. Er svo komið, að á stundum eru það ekki skákmennirnir sem ráða ferðinni. Af mörgu ástæðum er þetta skiljanlegt, þótt það sé óviðunandi.

Í mörgum fjölmennustu aðildarlöndum FIDE ríkir stjórnarskipulag, sem kallar á bein afskipti og skipulagningu æðstu stjórnvalda um skákmálefni jafnt og önnur. Þessar þjóðir eiga það til að senda pólitíska fulltrúa til fundarsetu FIDE fremur en skákáhugafólk. Það vill þvi tíðar brenna við, að önnur málefni og aðrar hliðar málanna lendi í brennidepli, fremur en þau sem eiga að vera til umræðu.

Burt með pólitísk afskipti

Viðhorfin mótast þá fremur af stefnu stjórnvalda viðkomandi þjóða en af hagsmunum skákhreyfingarinnar. Því miður er FIDE ekki einu samtökin, sem svona er ástatt fyrir, en hér ætlar Friðrik að freista gæfunnar. Hann vill FIDE fyrir skákmálefni eingöngu. Burt með pólitisk afskipti.

Hvernig til tekst við þetta mikilvæga verkefni getur framtíðin ein sagt um. Lausnin liggur ekki á einni hendi. Hér þarf samstöðu til.

Nú, en mörg önnur viðfangsefni bíða. Fyrirkomulagið um heimsmeistaraeinvígið hefur verið á tilraunastigi, og breytinga er þörf. Hvað um Fischer? Vafalítið fær Friðrik þar gnægð verkefna, þótt annað væri ekki um að ræða. En við skulum bíða með frekari vangaveltur í þessu sambandi, eftir Friðriki heim.

Eitt er vist, að hér er um skemmtilegt en viðsjált verkefni að ræða, sannkallað stórmeistaraverkefni.

„Hvað höfum við upp úr?“

Nú, hvað höfum við svo upp úr krafsinu? Þurfum við í raun að hafa eitthvað upp úr krafsinu? Verður mér á að spyrja til baka.

Með kjöri Friðriks höfum við fengið einhverja mestu viðurkenningu, sem hægt er að hugsa sér, og það er ekki svo lítið. Nú er aðeins að standa sig og þá koma kannski nýir sigrar í kjölfarið. Þetta gæti verið fyrsta skrefið í þá átt að verða forystuþjóð í víðari skilningi.

Okkur hefur verið talin trú um, að fyrir fámennt eyland eins og Ísland, sem þó hefur yfir slíkum auðæfum að ráða, sé það lífsspursmál að vera til í umheimsvitundinni. Þannig telja margir, að landhelgissigrarnir hafi fengið gott veganesti með einvíginu 1972.

Einvígið færði Ísland inn í alla stærstu fjölmiðla heims, og í kjölfar frétta af þvf komu svo fréttir af landhelgisdeilunni. Bretar áttu því erfitt með að brjóta okkur á bak aftur með þvingunum og því síður að þeir gætu tekið okkur herskildi.

Augljöst er því mikilvægi þeirra atburða, er Friðrik náði kjöri sem forseti FIDE. Hann verður boðberi íslenzkrar menningar um heim allan, og Ísland sem höfuðstöðvar FIDE verður í auknum mæli í heimsfréttum.

Með þessum frábæra sigri höfum við jafnt og Friðrik fengið tækifæri. Tækifæri sem verður að nota. Við eigum að hlúa að þessum vaxtarbroddi eins og framast er unnt og þá er afraksturinn vís.

Við skulum hafa í huga, að fjölmargir ef ekki flestir forsetar framandi skáksambanda eru auðmenn og/eða miklir höfðingjar. Þetta eru menn er eiga í umtalsverðum viðskiptum. Það væri því ekki úr vegi að gera þeim „íslenzka veizlu“ á góðum degi. Hver veit, hvað af því kynni að leiða, hver veit?

Íslenzkir skákmenn hafa nú svarað áfrýjunarorðum Einars Benediktssonar í Íslandsljóði:

Reisn í verki

viljans merki, —

vilji er allt, sem þarf.

Þeim, sem vilja

vaka og skilja,

vaxa þúsund ráð.

 

 

Merki: