Eftir Guðmund G. Þórarinsson.
Á áratugnum milli 1950 og 1960 varð Friðrik Ólafsson þjóðhetja. Þegar ég horfi aftur til þessara ára virðist mér staða Friðriks á þessum árum ekki ólík því sem staða Bjarkar varð síðar. Afrek Friðriks við skákborðið voru á heimsmælikvarða þrátt fyrir einangrun og erfiðar aðstæður.
Árangur hans vakti athygli ekki síður erlendis en hér heima. Margir þættir spunnust saman við að auka þessi áhrif, glæsilegir sigrar, drengileg og hógvær framkoma, myndarlegur og glaðlegur ungur maður með ákveðið aðalsyfirbragð.
Sigrar hans vöktu bergmál í hugum yngri kynslóðarinnar og segja má að yngri meistarar okkar standi á herðum hans.
Þegar rætt er um áhrif Friðriks Ólafssonar á íslenskt skáklíf koma margir þættir í hugann:
Í fyrsta lagi skákfræðileg áhrif Friðriks, stíll hans, byrjanaval, tækni, rannsóknaraðferðir og skrif hafa haft áhrif á skákstyrk Íslendinga.
Í öðru lagi áhrif hans í þá átt að efla áhuga á skák í landinu, jafnvel áhrif hans á þá sem ekki eru gjörkunnugir leikreglum manntaflsins.
Í þriðja lagi áhrif hans á skákhreyfinguna sem slíka, þ.e. félagsmál skákmanna, mótahald og félagslíf.
Í fjórða lagi áhrif Friðriks á sjálfsmynd Íslendinga sem ég tel að hafi verið veruleg svo skömmu eftir stofnun lýðveldisins og síðast en ekki síst kynning hans á landi og þjóð og frægð hans erlendis. Enginn vafi er að áhrif Friðriks eru mikil á öllum þessum sviðum.
Þegar Friðrik hóf að tefla var hér á landi allsterk skákhefð. Friðrik stendur föstum fótum í íslenskri skákmenningu. Hann stendur á herðum þeirra íslensku skákmanna sem hér fóru fremstir í flokki.
Snillingar festa rætur þar sem menning og hefð eru með blóma. Rósir vaxa ekki af sjálfsdáðum upp úr engu á eyðisöndum.
Aldagömul skákmenning
Skákmenningu Íslendinga má rekja langt aftur í aldir. Af fornum bókum Íslendinga má sjá að Íslendingar tefldu talsvert fyrr á öldum og um það eru ýmsar heimildir.
Í Búalögum um 1500 er þess getið að það kosti 12 álnir að kenna að tefla. En árið 1900 er í fyrsta sinn stofnað taflfélag hérlendis, í fyrsta sinn farið að tefla hér í formlegum félögum.
Menn telja að skáklistin hafi komið til Íslands frá Bretlandi en ekki frá Norðurlöndum og taka þá mið af heitum taflmannanna á borðinu, hrókur, biskup, riddari, peð; á ensku rook, bishop, knight og pawn.
Enn er athyglisvert að Íslendingar virðast einir þjóða eiga sögnina að tefla, í öðrum löndum er talað um að spila, danskan spille skak, enskan play chess, þýskan schach spielen, franskan jouer echech o.s.frv.
Við höfum oft sagt og talið að skákin njóti almennari vinsælda á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Íslendingar eiga sér orðtak ,,að leggjast í skák” sem kann að minna á orðtakið ,,að leggjast í óreglu”.
Daniel Willard Fiske hafði ritað bókina Chess in Iceland og séð um útgáfu á okkar fyrsta skákriti, Í uppnámi, um aldamótin 1900. Nafn tímaritsins sótti hann í Sturlungu.
Sjálfur hef ég alltaf mikla ánægju af að velta fyrir mér kenningunni um að Lewis taflmennirnir, skornir út úr rostungstönnum á 12. öld séu frá Íslandi og því að orðið biskup í skák sem líklega er aðallega notað í tveim tungumálum, íslensku og ensku, sé upprunnið á Íslandi. Lewistaflmennirnir munu vera elstu taflmenn, sem fundist hafa, sem bera sama svipmót og taflmenn sem notaðir eru í dag.
Brautryðjandinn Baldur Möller
Áður en Friðrik hóf að tefla skák höfðu Íslendingar átt sterka skákmenn. Baldur Möller var fyrsti Íslendingurinn sem vann alþjóðleg skákmót og varð tvívegis skákmeistari Norðurlanda. Segja má að með Baldri Möller hafi hafist nýtt tímabil í íslenskri skáksögu.
Þessi hægláti og vandvirki skákmeistari talaði hægt en varð þó Íslandsmeistari í 200 m hlaupi og átti mörg verðlaun fyrir spretthlaup.
Friðrik Ólafsson orðaði það svo í minningargrein um Baldur: ,,Enginn vafi leikur á því að að afrek hans hafa átt drjúgan þátt í því að skapa þann skákáhuga sem íslenskt skáklíf býr að enn í dag.“ Friðrik hefur jafnframt látið svo um mælt að Baldur hafi verið frumkvöðull faglegra vinnubragða í skák á Íslandi.“
Erfitt er að telja upp nöfn án þess að gera einhverjum rangt til en nefna til sögunnar þá Ásmund Ásgeirsson, Guðmund S. Guðmundsson, Guðmund Pálmason, Guðmund Arnlaugsson, Guðjón M. Sigurðsson, Guðmund Ágústsson, Eggert Gilfer.
Ingi R. Jóhannsson var um skeið sterkasti skákmeistri okkar að Friðriki frátöldum og helsti keppinautur hans hér á landi.
Óður til skáklistarinnar
Umræða um Friðrik Ólafsson verður óhjákvæmilega öðrum þræði óður til skáklistarinnar. Til þess að ná langt í skák þarf fjölþætta hæfileika. Það þarf einbeitni, öflugt hugarflug og hugsmíðaafl, mikinn viljastyrk og ögun, skynjunarkraft, sterka rúmskynjun sem gerir kleift að skynja og tengja mennina á borðinu, gríðarlega greiningar- og talningarhæfileika svo nokkuð sé nefnt.
Íslenskt mál á sér orð sem lýsa sérstökum hæfileikum s.s. smiðsauga, læknishendur, tóneyra. Ekkert slíkt orð þekki ég sem lýsir snillingum skáklistarinnar. Næmleika tónsnillingsins fyrir tónum, málarans fyrir litum og línum er við brugðið.
Snilli skákmeistarans er samofin úr mörgum eiginleikum hugarflugs og rökhyggju, Skákin á sér kröfu sem er sameiginleg öðrum listum, krafan um sköpunargáfuna, samræmi, einbeitingu, ástríðu, frumleika og viljastyrk.
Ríki skáklistarinnar er þar í ríki andans sem saman koma landamæri vísinda, lista og keppnisíþrótta.
Snillingur við skákborðið þarf að eiga eiginleikann til að gera hverja hugsun að neista, kynda bál í huganum, varðveita þennan demantsharða loga sem stöðugt lýsir allt upp með athugun, undrun og aðdáun.
Glæsilegur ferill
Skýrustu einkennin á skákstíl Friðriks eru sókndirfska og leiftrandi fléttur og ekki má gleyma tímahrakinu sem einkenndi skákstíl Friðriks. Margir sögðu að Friðrik hefði verið ofurstórmeistari í tímahraki. Í því sambandi eru athyglisverð orð Reshevskys: ,,Friðrik leikur aldrei af sér!“
Það þýðir: Ef menn ætla að vinna hann verður það að gerast á borðinu. Þessi umsögn verður enn merkilegri þegar haft er í huga að margar skákir Friðriks enduðu í ævintýralegu tímahraki og hinu að nær allir sterkustu skákmeistarar heims hafa gert sig seka um fingurbrjóta. Tímahrak Friðriks vakti oft upp gríðarlega spennu í hópi áhorfenda og það svo að helst verður jafnað til áhrifa magnþrunginna spennumynda nú á dögum.
Friðrik er fæddur 26. janúar 1935 og lærði að tefla 8 ára, líklega af því að fylgjast með föður sínum tefla sem minnir á fyrstu kynni sumra sterkustu meistara sögunnar af skákinni, t.d. Capablanca.
Friðrik varð Íslandsmeistari 1952, 17 ára gamall, eftir einvígi við Lárus Johnsen. Fræg er tilvitnun Lárusar eftir einvígið þegar hann sagði þungt hugsi: ,,Nú verður Frikki ekki stöðvaður úr þessu.“ Lárus gerði sér grein fyrir að hér eftir yrði við ofurefli að etja.
Skákmeistri Norðurlanda varð hann 1953 og þá sá yngsti sem því marki hafði náð. Einvígið við Larsen 1956 um Norðurlandameistaratitilinn er minnisstætt. Þessir tveir áttu eftir að verða öflugustu skákmeisarar Norðurlanda.
Larsen nam verkfræði við verkfræðiháskólann í Kaupmannahöfn. Honum gekk vel og hann átti aðeins rúmt ár þegar hann hvarf frá námi og helgaði sig skákinni. Hann gaf þá skýringu í útvarpi að Danir ættu marga góða verkfræðinga en engan góðan skákmeistara.
Einvígi Friðriks og Larsens vakti slíka athygli hér að dæmi voru ekki um slíkt áður. Áhorfendasalur fylltist, fólk stóð utan dyra, jafnvel lá á gluggum til þess að reyna að fylgjast með, útvarp og blöð voru undirlögð af þessum atburði. Hér á landi höfum við varla nokkurn atburð sem stendst samanburð varðandi almennan áhuga nema ef vera kynni heimsmeistaraeinvígið 1972.
Skömmu fyrir hólmgönguna við Larsen háði Friðrik einvígi við argentíska stórmeistarann Pilnik. Friðrik sigraði með yfirburðum og líkaði Pilnik miður.
Eitt kunnasta afrek Friðriks er þegar hann náði efsta sæti í Hastings ásamt Kortsnoj 1955-56.
Atlögur gerði Friðrik nokkrar að heimsmeistaratitlinum. Of langt mál er að telja hér upp öll mót Friðriks. Geta verður þó þess að hann vann sér rétt til að tefla á kandidatamóti í Júgóslavíu 1959 þar sem hann hafnaði í 7. sæti. Þar var tekist á um réttinn til að tefla við Botvinnik um heimsmeistaratitilinn.
Friðrik var útnefndur stórmeistari í skák 1958, fyrsti Íslendingurinn sem náði þeim titli. Þá fór mikil hrifningaralda um íslenskt þjóðfélag. Það var engu líkara en Íslendingum þætti sem þeir væru allir orðnir stórmeistarar. Síðan komu fjölmörg mót.
Friðrik tefldi á 8 Ólympíumótum fyrir Ísland, öll skiptin nema eitt á fyrsta borð og í Búlgaríu 1962 náði hann besta árangri á 1. borði ásamt Najdorf, hlaut 14v af 18v mögulegum.
Hann tefldi á þrem heimsmeistaramótum stúdenta; Í Uppsölum hlaut hann 9 vinninga af 10 mögulegum.
Íslandsmeistari varð hann 6 sinnum.
Hraðskákmeistari Íslands 7 sinnum.
Skákmeistari Reykjavíkur þrisvar.
Skákmeistari TR. Skákmeistari Norðurlanda tvisvar 1953 og 1971.
Hann tefldi á 10 alþjóðlegum Reykjavíkurmótum, þar af efstur þrisvar.
Auk þess fjölmörgum alþjóðlegum skákmótum, og sigraði í mörgum.
Hefur lagt fjóra heimsmeistara
Friðrik hefur ritað bækur um skák, Lærið að tefla ásamt Ingvari Ásmundssyni, Heimsmeistaraeinvígið 1972 með Freysteini Jóhannssyni. Haft er eftir Bobby Fischer að skýringar Friðriks við skákirnar frá einvíginu 1972 séu þær bestu sem gerðar hafa verið. Við skákborðið í aldarfjórðung er bók um bestu skákir Friðriks. Fjölmargar greinar hefur hann ritað í dagblöð og tímarit, komið fram í sjónvarpi og útvarpi við skákskýringar.
Skáksamband Íslands hélt Friðriki sérstakt afmælismót á 60 ára afmæli hans í þjóðarbókhlöðunni. Þar fór þá fram jafnhliða sýning á ýmsum þáttum frá skákferli Friðriks, myndir, greinar og bækur. Þá fór jafnhliða fram kynning á öðrum miklum áhrifavaldi í íslensku skáklífi, Daniel Willard Fiske.
Gaman er að rifja upp að Friðrik hefur á sínum ferli unnið flesta frægustu skákmeistara heims. Ég nefni bara heimsmeistarana Tal, Petrosjan, Fischer, Karpov. Athyglisvert er að Friðrik var forseti FIDE þegar hann vann Karpov. Líklega eina dæmið úr skáksögunni um að sitjandi forseti FIDE, bundinn félagsstörfum vinni sitjandi heimsmeistarann í kappskák.
Ég nefni sigra yfir stórmeisturunum Keres, Korchnoi, Geller, Stein, Tajmanov, Gligoric, Larsen, Reshevsky, Najdorf, Pilnik, Panno, Benkö, Robert Byrne, Uhlmann, Unziker, Szabo, Portisch, Hort, Hübner,Andersson, Timman, Seirawan, og Browne.
Þessi upptalning sýnir svart á hvítu stöðu Friðriks Ólafssonar í skákheiminum.
Fórnin
Friðrik lagði skákina að mestu á hilluna um tíma og nam lögfræði við Háskóla Íslands. Þar fór Larsen aðra leið. Ekki verður fram hjá því horft að þar fórnaði Friðrik mörgum frjóum árum frá skákinni og freistandi að velta fyrir sér hvað hefði getað gerst ef hann hefði helgað sig skákinni að fullu. Til þess voru hins vegar ekki aðstæður.
Til þess að helga sig skákinni hefði Friðrik einfaldlega orðið að leggja sjálfan sig undir. Husunarhátturinn í þjóðfélaginu var annar þá, menn urðu að sjá fyrir sér, afla sér menntunar til þess að mæta framtíðinni. Ekki skipti máli þó fórnað væri snilligáfu.
Á þessum árum fékkst skáksnillingurinn við að læra þurrar lagagreinar utanað. Nú koma orð Larsens aftur í hugann. Íslendingar áttu á þessum tíma marga góða lögræðinga en aðeins einn stórmeistara í skák. Mér finnst þegar ég hugsa til þessa sem tjóðurhæll skyldunnar, dýflissumúrar vanans, hömlur þjóðfélagsins hafi verið sem óvinnandi vígi.
Forseti FIDE
Íslendingurinn Friðrik Ólafsson var kosinn forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE og Ísland varð þannig áhrifaland í skáklífi heimsins. Friðrik var kjörinn 4. forseti FIDE en áður höfðu verið forsetar Hollendingurinn dr. Alexandre Rueb 1924-1949, Svíinn Folke Rogard 1949-1970 og Hollendingurinn Max Euwe 1970-1978.
Viðbrögð skákheimsins við kjöri Friðriks voru almenn ánægja. Fyrst og fremst var kjörið viðurkenning á einstaklingnum Friðriki Ólafssyni og lýsti trausti á honum og sýndi vinsældir hans. Í annan stað var kjörið viðurkenning á skákhefð Íslendinga. Ísland var orðið þungamiðja í skáklífi heimsins.
Með kjöri Friðriks má segja að nýr kafli hefjist í sögu FIDE. Að ýmsu leyti varð nú meiri festa í starfsemi FIDE. Friðrik var farsæll. Skipulagsmál og þinghald færðist allt til hins betra.
Deilur risu hins vegar vegna fjölskyldumála Kortsnois, sem tengdust síðan framkvæmd heimsmeistaraeinvígis Korchnoi og Karpovs í Merano á Ítalíu. Til að Sovétmenn gætu leyst það mál ákvað Friðrik að fresta einvíginu um heilan mánuð.
Niðurstaðan varð sú að eftir heilmikið stapp mótmæli lofuðu Sovétmenn að leyfa fjölskyldu Korchnoi að yfirgefa Sovétríkin vorið 1982. Sú ákvörðun Friðriks að fresta einvíginu kostaði hann ófá atkvæði á næsti þingi FIDE Þetta fullyrti Baturinskij í bók sinni um einvígi Karpov og Korchnoi í Merano.
Í forsetatíð Friðriks Ólafssonar var FIDE virt alþjóðasamband. Forsetastarf hans var bæði honum og íslensku þjóðinni til sóma.
Árangur Friðriks við skákborðið varð aflvaki skáklífs á Íslandi. Enginn vafi er að skákferill Friðriks varð til þess að Ísland kom yfirhöfuð til greina við ákvörðun um að halda heimsmeistaraeinvígið í skák hér 1972. Um það mætti skrifa heila grein.
Áhrifin á skákhreyfinguna voru mikil og skákmótahald jókst sem og áhugi erlendra skákmeistara á Íslandi. Íslendingar hófu að halda skákmót sem vöktu athygli um allan heim.
Sagan sýnir okkur að tiltölulega stutt tímabil í sögu þjóða geta haft áhrif sem leiftra langt fram á ógengnar slóðir. Þannig geta einstök afmörkuð atvik eða líf og afrek einstaklinga eflt með þjóðum sjálfstraust og styrkt trú þeirra á tilverurétt sinn á erfiðum tímum.
Íslendingar voru og eru örþjóð á eyju í miðju Atlantshafi fjarri öðrum löndum. Samstaða þeirra og styrkur byggðist einkum á fornri menningu, handritum, sögum og kvæðum ásamt með íslenskri tungu sem nær engir skylja nema þeir sjálfir.
Strákurinn okkar
Uberall gibt es Menschen, ja hérna, alls staðar býr fólk, sagði þýski þjónninn þegar honum var sagt að gestirnir væru frá Íslandi. En Íslendingar hafa eignast einstaklinga sem vakið hafa athygli með hæfni sinni og snilli um víðan heim, einstaklinga sem með starfi sínu og afrekum hafa vísað veginn og orðið fyrirmynd í amstri þessarar smáþjóðar í hafi þjóðanna. Friðrik Ólafsson er einn þeirra.
Áhrif Friðriks Ólafssonar og ímynd hans í íslensku þjóðlífi verða ekki metin eingöngu út frá þröngu mati á afrekum hans við skákborðið. Það verður líka að líta á þau út frá stöðu hans meðal fámennrar einangraðrar þjóðar, einstaklings sem stígur fram meðal þeirra allra fremstu í heiminum á sínu sviði. Íslendingum fannst þeir allir eiga þátt í afrekum hans. Hann var strákurinn okkar.
Það er alkunna að afrek og árangur verða ekki einvörðungu metin eftir mælikvörðum metrakerfisins. Aðstæður og erfiðleikar vega þungt þegar snilli og afrek eru metin. Smíðar Robinsons Krúsó á eyðieyjunni voru ekki nýjar merkilegar uppgötvanir en vekja undrun og aðdáun lesenda þegar horft er með berum augum á þær fjallháu hindranir sem við var að etja.
Nú er það svo að Friðrik og afrek hans við skákborðið þurfa ekki þessara skýringa eða afsakana við. Þau hefðu verið meðal þess besta í skákheiminum þó allar aðstæður hefðu verið sem ákjósanlegastar.
Afrek hans verða enn glæsilegri þegar þetta er haft í huga. Hér voru aðrar aðstæður en nú á tölvuöld þegar upplýsingar berast með ljóshraða milli landa. Aðstæður Friðriks til þess að fylgjast með þróun og nýjungum skáklistarinnar í heiminum voru erfiðar.
Úti í heimi vöktu afrek Friðriks framan af ekki síst athygli vegna þeirra aðstæðna sem hann bjó við. Hugsið ykkur þegar stóra sýningarborðið var sett upp á torgi í Belgrad til þess að sýna hvernig piltur frá lítilli fjarlægri eyju var að yfirbuga Petrosian, skákmeistarann ósigrandi.
Skákþjóðin Júgoslavar gerði sér grein fyrir því hvað var að gerast. Þeir vissu og skildu hvað til þurfti. Atvinnumenn stórþjóðanna stóðu undrandi. Íslendingur sem sætti lagi að komast til Bretlands með togara sem sigldi með fisk, sigraði á stórmótum heimskunna atvinnumenn.
Hér heima fannst okkur við eiga Friðrik hann var einn af okkur, hann vakti athygli og aðdáun á landi okkar. Ólíklegustu menn fengu áhuga á skák. Ferill hans og afrek vöktu skákahuga á Íslandi umfram allt sem Íslendingar höfððu áður þekkt.
Unga kynsloðin og raunar þjóðin öll hreifst með. Minnisstæðustu augnablikin eru þegar hann á broti úr sekúndu töfraði hann fram í ævintýralegu tímahraki listaverk þannig að frægustu skákmeistarar sátu ráðþrota og ringlaðir yfir rjúkandi rústunum. Hvernig var hægt að seiða fram slík listaverk úr engum stöðuyfirburðum með ljóshraða? Okkur meðalmennina sundlar. Við tilhugsunina koma helst í hugann hugtök eins og ferhyrndur hringur og n-vítt rúm.
Goðsögnin lifir
Ég held að það sé sama hversu marga og sterka skákmeistara Íslendingar eignast, Friðrik verður alltaf Friðrik. Yfir nafni hans og ferli verður alltaf einhver ævintýrablær. Ekki ólíkt og með Fischer þó þessir menn geti varla verið ólíkari.
Þjóðverjar eiga sér hugtakið die Vergaanglichkeit. Sagt er að allt sé heiminum hverfult. Skáldið sagði: Bókfellið velkist, stafirnir fyrnast og fúna, fellur í gleymsku það orð sem er lifandi núna…
Steinn Steinar orti á sínum tíma undir áhrifu frá öðru skáldi, ljóðið: Ég er gras og ég græ yfir sporin þín, byggið hallir og musteri, leggið götur og stræti úr gulum og rauðum sandsteini. Ég er gras og ég græ yfir sporin ykkar.
En sums staðar vex ekki gras.
Þó Friðrik tefldi 1000 skákir á næstu árum og tapaði þeim öllum, hefur það ekkert að segja.
Goðsögnin lifir. Hún mun lifa svo lengi sem Íslendingar hirða um að muna sögu sína. Meira að segja guð getur ekki breytt því sem liðið er.
Langt fram á ógengna vegi mun slá glampa af lífi og starfi Friðriks Ólafssonar.