1975: Alþjóðlegt skákmót í Las Palmas

Alþjóðaskákmótið í Las Palmas 1975

Ljubojevic sigraði annað árið í röð

 

Há peningaverðlaun einkenndu hið árlega alþjóðaskákmót, sem haldið var í Las Palmas á Kanaríeyjum síðastliðið vor. Mót þetta var eitt hið sterkasta, sem haldið hafði verið á þessu ári, eða í 10. flokki. Til að öðlast stórmeistaratitil þurfti 9 1/2 vinning, en 7 til að ná alþjóðlegum meistaratitli. Tíu stórmeistarar og fjórir alþjóðlegir meistarar voru meðal þátttakendanna sextán, og því aðeins tveir titillausir.

Það voru engir smákarlar saman komnir í stórmeistarahópnum: Tveir fyrrverandi heimsmeistarar, en hinir átta úr röðum fremstu stórmeistara heimsins.

Verðlaunin höfðu mikið aðdráttarafl: 130 þúsund pesetar í fyrstu verðlaun, en tíu þúsund pesetar fyrir neðstu sætin.

Það var því fyrirfram vitað að baráttan um efsta sætið yrði hörð og tvísýn. – Henni lauk þó með verðskulduðum sigri júgóslavneska stórmeistarans Ljubojevic, sem hlaut 11 vinninga af 14, tapaði engri skák.

Þrír stórmeistarar skiptu með sér 2.-4. sæti, en það voru þeir Andersson, Mecking og Tal, sem hlutu 10 v. hver. Andersson sigldi taplaus gegnum mótið, en Meckinig tapaði aðeins fyrir sigurvegaranum, Ljubojevic. – Sovétstórmeistarinn Tal mátti þola tvö töp, fyrir þeim Mecking og Friðriki.

Í 5.-6. sæti koma þeir Hort og Friðrik með 9 1/2. v. hvor. – Hort tapaði fyrir Andersson og Mecking, en nokkur sárabót var þó árangurinn gegn minni spámönniunum, þvi Hort hlaut 7 1/2 V. gegn átta neðstu mönnunum.

Árangur Friðriks verður einnig að teljast góður. Hann tapaði aðeins fyrir Ljubojevic. Sigur Friðriks yfir heimsmeistaranum fyrrverandi, Tal, var nokkur búbót á árangurinn, og birtist sú skák hér í blaðinu.

Öryggið sat greinilega í fyrirrúmi hjá Petrosjan, sem gerði tiu jafntefli og vann fjórar skákir. Þetta dugði þó aðeins til að ná sjöunda sætinu.

Af heimamönnum náði Bellón bestum árangri, 6 v., ásamt Tatai hinum ítalska. – Sést best á þessu hve styrkleikamumurinn er mikill: þrír vinningar skilja að 7. og 8. sætið!

Danski stórmeistarinn B. Larsen var einnig meðal þátttakenda í byrjun mótsins, og hefur ugglaust ætlað sér stóran hlut. Eins og mönnum er ef til vill kunnugt hefur Larsen sest að á Kanaríeyjum, þar sem hann telur hag sinum mun betur borgið en í Danmörku vegna skattákvæða. Eiginkona Larsens er þó enn búsett í Danmörku og það var einmitt sökum veikinda hennar sem Larsen varð að hætta þátttöku eftir sex umferðir. – Ekki hafði þá blásið byrlega, því hann hafði tapað fyrir Pomar og Rodriguez. Það var einmitt í 7. umferð sem Friðrik átti að tefla við Larsen, er hann varð að hætta í mótinu.

Um önnur úrslit vísast til meðfylgjandi töflu.

 

Þetta var í fjórða sinn sem alþjóðlegt skákmót var haldið í Las Palmas og er það jafnframt minningarmót um spænska skákmeistarann Ruy Lopez. Árið 1972 sigraði Portisch, en næstir komu Larsen og Smyslov. Árið 1973 unnu Sovétmenn tvöfaldan sigur: Stein og Petrosjan, en Hort náði þriðja sæti. Í fyrra sigraði Ljubojevic, en næstir urðru Beljavsky og Friðrik Ólafsson. – Þá voru veitt fegurðarverðlaun fyrir best tefldu skákina, 12.000 pesetar. – Fyrir  bestu leikfléttuna 8000 pesetar og fyrir bestu tafllokin 8000 pesetar. Skákunnendum skal bent á að Friðrik Ólafsson ritar bók um mótið í ár og mun hún verða gefin út af tímaritinu Skák.

SKÁK, 5 tbl. 1975.

 

,,Byrjaði fullseint á lokasprettinum“

 

Morgunblaðið 26. apríl 1975.

,,Ég byrjaði eiginlega fullseint á lokasprettinum,“ sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari er Mbl. náði tali af honum að loknu skákmótinu í Las Palmas í gærkvöldi. Friðrik gerði jafntefli við brasilíska stórmeistarann Mecking í 20 leikjum í gærkvöldi og hafnaði í  5.-6. sæti ásamt Hort með 9,5 vinning. Ljubomir Ljubojevic bar sem vænta mátti sigur í mótinu, hlaut 11 vinninga.

„Eftir ástæðum er ég bara nokkuð ánægður með frammistöðuna i mótinu,“ sagði Friðrik. „Ég fann mig reyndar ekki almennilega í byrjun og glopraði t.d. tveimur kolunnum skákum niður í jafntefli.  Í lokin gekk þetta svo allt miklu betur og ég held að ég hafi ekki lent í slæmum félagsskap ef litið er á nöfnin.“

Mótið i Las Palmas var svipað að styrkleika og mótið á Tallin á dögunum en þá fékk Friðrik 9,5 vinning í 15 skákum en nú 9,5 vinning í 14 skákum svo frammistaða hans nú er ekki síðri og jafnvel heldur betri. Þess má geta til gamans að stórmeistaraárangur á þessu móti voru 8 vinningar og er Friðrik vel yfir því marki.

Friðrik kvaðst vonast til að komast heim seinnipartinn i dag. Hann sagðist ætla að hvíla sig á skákmótum næstu tvo mánuði og nota þann tíma til að grúska í skákbækur.

1975: Alþjóðlegt skákmót í Las Palmas

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_Las-Palmas_tafla

Vinningshlutall 68%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

Merki: