Friðrik Reykjavíkurmeistari: Lagði Inga R. í spennandi einvígi
Sveinn Kristinsson skrifar.
Hinu spennandi einvígi þeirra Friðriks og Inga um Reykjavíkurmeistaratitilinn lauk með sigri Friðriks, sem hlaut 2,5 vinning gegn 1,5. Fyrsta skákin varð jafntefli, aðra skákina vann Ingi en þá þriðju og fjórðu vann Friðrik. Þannig hreppti stórmeistarinn æðsta skáktitil Reykvíkinga, svo sem flestir höfðu búizt við. Hins vegar á Ingi hrós skilið fyrir hið harðvítuga viðnám, sem hann veitti, og hefur hann að mínu viti stórum aukið orðstír sinn í keppninni sem heild.
Flestir munu mér samdóma um að óþarft sé að kynna skákmeistara Reykjavíkur. En ávallt þegar ég frétti af nýjum sigurvinningum Friðriks, þá fer ekki hjá því, að hugur minn hvarfli aftur til ársins 1946, en þá tók Friðrik þátt í sinni fyrstu opinberu keppni, á Skákþingi Íslands. Friðrik var þá 11 ára að aldri, er hann kom og vildi fá sig skráðan til keppni í 2. flokki.
En þá kom upp vandamál mikið. Hvergi fannst skráð heimild um það í lögum Skáksambandsins, að svo ungum manni væri kræft að taka þátt í móti á vegum þess. Og fordæmi voru engin fyrir því.
Voru nú kvaddir til einir þrír vitringar til að leysa fram úr þessu vandamáli. Úrlausn þeirra varð sú, að rétt væri að hleypa Friðriki í keppnina, þrátt fyrir æsku sína „enda mundi hann engum mein gera.“
Varð því niðurstaðan sú, að Friðrik tók þátt í keppninni, eins og áður greinir. Engum blandast nú hugur um, að dómsúrlausn þeirra þremenninga hafi orðið íslenzku skáklífi mjög til góðs.
Er nú svo komið að einna mestur ljómi mun standa um nafn Friðriks af öllum núlifandi Íslendingum, og eigum við þó marga góða fulltrúa bæði á sviði vísinda, lista og íþrótta. Hitt gæti líklega fremur orðið ágreiningsefni, hvort þær forsendur dómsins, að hann muni „engum mein gera“, hafi rætzt nema í takmörkuðum skilningi.
Því frá herfræðilegu sjónarmiði skákarinnar, þá hafa víst fáir Íslendingar gert meisturum og stórmeisturum meira mein en einmitt Friðrik Ólafsson. En hvaða máli skiptir það, þótt forsendur dóms orki tvímælis, ef dómsniðurstaðan hefur jafn heillavænlegar afleiðingar og hér varð raun á.
Þátturinn óskar Friðriki Ólafssyni einlæglega til hamingju með meistaratignina.
Þjóðviljinn 17. mars 1963.
1963: Einvígi við Inga R. Jóhannsson
Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Umferð | Dags. | Nafn | Úrslit | Nafn |
1 | 3.3. | Ingi R. Jóhannsson | 1-0 | Friðrik Ólafsson |
2 | 4.3. | Friðrik Ólafsson | 1/2-1/2 | Ingi R. Jóhannsson |
3 | 5.3. | Friðrik Ólafsson | 1-0 | Ingi R. Jóhannsson |
4 | 10.3. | Ingi R. Jóhannsson | 0-1 | Friðrik Ólafsson |
Skákirnar
Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu