Alþjóðlegt skákmót – í Færeyjum!
Margeir Sigurjónsson skrifar.
Havnar Telvingarfelag, Þórshöfn í Færeyjum á 40 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni af þessu var stofnað til afmælismóts, sem hófst í Þórshöfn 2. júní og lauk 11. júní. Var undirrituðum ásamt Friðriki Ólafssyni stórmeistara og Ingvari Ásmundssyni boðið að taka þátt í móti þessu. Auk okkar þriggja voru mættir B. H. Wood, ritstjóri „Chess“, Dr. A. Seitz frá Þýzkalandi og F. Ronsperger frá Sviss. Þátttakendur voru auk þess Mr. F. P. Goldney, sem er Englendingur, en hann stjórnaði brezka hernum í Færeyjum á stríðsárunum, og hefir verið búsettur þar síðan, og 7 Færeyingar, þannig að þátttakendur voru samtals 14. Var teflt eftir Monrad kerfi, 9 umferðir.
Mótið fór vel fram, og úrslit samkvæma meðfylgjandi töflu. Sex fyrstu umferðirnar voru tefldar á Hotel Hafnia og þar bjuggu hinir erlendu keppendur, að undirrituðu mundanskildum, sem bjó hjá færeysku vinafólki. Þrjár síðustu umferðirnar voru tefldar í nýja sjómannaskólanum í Þórshöfn, sem er mjög vegleg bygging.
Teflt var frá kl. 7 til 12 daglega, 45 leiki á 2 1/2 klukkustund.
Knud Lambaa stórkaupm. og heiðursfélagi Havnar Telvingarfelags hélt þátttakendum samsæti laugardagskvöldið 8. júní, en 12. júní var samsæti og verðlaunaafhending, en 1. verðlaun voru 600 færeyskar krónur, 2. verðlaun 300 f. kr. og 3. verðlaun 100 f. kr. – Auk þess voru greiddar 30 f. kr. fyrir hverja unna skák.
Formaður Havnar Telvingarfelag er nú Torarinn Evensen, og var hann skákstjóri mótsins. Undirritaður var búsettur í Færeyjum árin 1933-1945, og kom einmitt til Færeyja þegar félagið hélt upp á 10 ára afmælið. Þetta mun vera í fyrsta skipti, sem mót með erlendum þátttakendum er haldið í Færeyjum.
Áhugi er talsverður fyrir skák í Færeyjum, og munu sterkustu skákfélögin vera Havnar Telvingafelag og taflfélagið í Vestmanhavu, sem eru nokkurn vegin álíka að styrkleika. Havnar Telvingarfelag á hús í Þórshöfn, sem er notað til æfingafunda, og stendur þar framar en íslenzk skákfélög. Undirritaður hafði mikla ánægju af ferð þessari, og fékk nú tækifæri til að hitta gamla kunningja, og meðal þátttakenda í þessu móti voru J. P. Hendriksen og Olaf Andreasen, sem voru með þeim beztu á þeim tíma, sem ég var félagi í Havnar Tevlingarfelag. Ég varð þá svo frægur að tefla einvígi við J. P. Hendriksen um Færeyja meistaratignina, en tapaði. Var þá teflt í 12 tíma án klukku, og hafði ég það mér til afsökunar. J.P. Hendriksen er einn af stofnendum félagsins og um árabil var hann formaður þess, en hefir lítið teflt seinni árin eins og ég.
Friðrik Ólafsson tefldi útvarpsskák í Utvarp Færoya við B. H. Wood og lauk þeirri skák með jafntefli. Leiknir voru 30 leikir á klukkustund, og var skákinni útvarpað jafnóðum og hún var tefld. Ingvar tefldi samskonar skák við F. Ronsperger, og vann hana. Þeirri skák á að útvarpa seinna.
Friðrik Ólafsson tefldi fjöltefli á 32 borðum, eftir mótið, hann vann 29, tapaði 1 og gerði 2 jafntefli.
Ef Færeyingar fá tækifæri til að tefla við sér sterkari skákmenn, munu þeir fljótlega verða skeinuhættir, og væri skemmtilegt ef hægt væri að endurgjalda þetta boð þeirra.
Íslenzku þátttakendurnir fóru með Drottningunni 30. maí og komu aftur með Heklu 19. júní. Konur þeirra voru með í ferðinni.
Skákirnar
Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu