1955: Einvígi við Herman Pilnik – Reykjavík

Áskorandi um heimsmeistaratitilinn gjörsigraður

Friðrik sigraði Pilnik 5:1!

Sannkallað skákæði greip um sig á Íslandi þegar hinn tvítugi Friðrik Ólafsson og stórmeistarinn Herman Pilnik tefldu einvígi í Reykjavík, sem hófst 23. nóvember. Pilnik stóð þá á hátindi frægðar sinnar og hafði nokkru fyrr unnið sér rétt til að tefla á Áskorendamótinu 1956.

Herman Pilnik fæddist í Þýskalandi 1914 og var í þýska liðinu sem tefldi á Ólympíumótinu í Buenos Aires 1939, þegar seinni heimsstyrjöldin hófst. Líkt og nokkrir fleiri sterkir skákmenn kaus hann að fara hvergi og tefldi því undir fána Argentínu eftir það. Hann hafði unnið marga góða sigra og lagt skákmenn á borð við Smyslov og Petrosian, en þótti ekki litríkur meistari; skákir hans voru einatt óralangar og viðburðasnauðar.

Hinn liðlega fertugi stórmeistari og áskorandi um heimsmeistaratitilinn átti hinsvegar aldrei möguleika gegn Friðriki sem efndi til stórkostlegustu flugeldasýningar sem íslenskir skákáhugamenn höfðu orðið vitni að.

Einvígið fór fram í Þórscafé og þangað flykktust áhorfendur á skákirnar sex. Fyrstu skákinni lauk með jafntefli eftir spennandi baráttu, en Friðrik vann næstu tvær með glæsibrag.

Blaðamaður Morgunblaðsins átti vart nógu sterk orð til að lýsa þriðju einvígisskákinni:

,,Þessi skák sýndi okkur, sem horfðum á hana, ekki einasta það, að Friðrik er mikill listamaður, heldur einnig hitt, sem er ekki síður mikilsvert, að hann er enn ört vaxandi. Ég hef að vísu ekki séð allar þær skákir, sem hann hefur teflt í útlöndum, en ég fullyrði, að hann hefur aldrei teflt eins góða skák beinlínis á þeirri forsendu, að sú kirkja sem stendur á fjalli fær eigi dulist. Hefði hann einhvern tíma teflt slíka skák hefði hún farið út um allan heim og lika komizt fyrir mín augu. „Kombinasjon“, eins og sú, sem hófst þarna í 28. leik og lauk í 42. leik með því að Pilnik gafst upp, er sjaldséð.“

Friðrik náði svo mun betri stöðu í fjórðu skákinni, en lék henni niður í jafntefli í gríðarlegu tímahraki. Þar með var staðan orðin 3-1 Friðrik í vil, svo Pilnik þurfti að vinna tvær síðustu skákirnar til að jafna metin gegn unga manninum. En það fór á annan veg: Friðrik lék sér að stórmeistaranum líkt og köttur að mús og vann báðar skákirnar!

Lokaúrslitin því 5-1, enda ætlaði ætlaði lófaklappinu aldrei að ljúka í Þórscafé þegar Herman Pilnik rétti fram höndina í lok sjöttu skákarinnar, til merkis um fullkomna og sögulega uppgjöf.

1955: Einvígi við Herman Pilnik

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Umf. Dags. Nafn Þjóð Úrslit Nafn Þjóð
1 24.11.1955 Herman Pilnik ARG 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson ISL
2 27.11.1955 Friðrik Ólafsson ISL 1-0 Herman Pilnik ARG
3 29.11.1955 Herman Pilnik ARG 0-1 Friðrik Ólafsson ISL
4 4.12.1955 Friðrik Ólafsson ISL 1/2-1/2 Herman Pilnik ARG
5 6.12.1955 Herman Pilnik ARG 0-1 Friðrik Ólafsson ISL
6 7.12.1955 Friðrik Ólafsson ISL 1-0 Herman Pilnik ARG
Vinningshlutall 83%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu