Með hinni glæsilegu frammistöðu á millisvæðamótinu í Portoroz 1958 vann Friðrik Ólafsson sér rétt til að tefla á sjálfu Áskorendamótinu 1959. Þar tefldu átta bestu skákmenn heims fjórfalda umferð, alls 28 skákir, um réttinn til að skora á Botvinnik heimsmeistara. Ingi R. Jóhannsson, aðstoðarmaður Friðriks á mótinu, fjallaði um þetta gríðarlega sterka mót í tveimur tölublöðum SKÁKAR 1959.
Áskorendamótið, sem margir skákunnendur höfðu beðið eftir með mikilli eftirvæntingu, hófst í Bled hinn 6. september s.l. Þátttakendur voru alls átta, eins og kunnugt er. Þegar þetta er ritað er helmingi mótsins lokið. Ekki er hægt að sega að þessi helmingur hafi verið friðsamur, því af þeim 56 skákum, sem tefldar hafa verið, lauk aðeins 20 með jafntefli, og af þeim aðeins eitt stórmeistarajafntefli.
Alls hafa því 36 skákir unnist og er það óvenju há tala í svo jafnsterku móti. Sýnir það, að baráttan um hinn eftirsóknarverða áskorendarétt er afar hörð.
Slæleg frammistaða Smyslovs, Keres fer á kostum
Margt óvænt hefur skeð í þessum helmingi mótsins. Er þá helst að nefna hina slælegu frammistöðu heimsmeistarans fyrrverandi, Smyslovs, sem aðeins hefur hlotið 6 vinninga úr 14 skákum! Er áreiðanlegt, að engir hafa reiknað með þessari útkomu hjá honum.
Næst er þá að nefna hina stórglæsilegu frammistöðu Keresar, sem er nú í efsta sæti með 10 vinninga af 14. Hann hefur unnið 8 skákir, tapað tveimur og gert fjögur jafntefli. Þessi árangur sýnir greinilega að Keres gefur hinum yngri skáksnillingum ekkert eftir.
Það er einnig eftirtektarvert að Keres byrjaði ekki vel; hann tapar í 1. umferð fyrir ,,undrabarninu“, sem hann ætlaði að vinna. Í næstu umferð vinnur hann Smyslov og tapar síðan óvænt fyrir Petrosian. En þá er eins og orka leysist úr læðingi, og í næstu tíu skákum nær hvorki meira né minna en 8 vinningum, sem er afar sjaldgæfur árangur í svo sterku móti.
Tal á hælum Kerasar
Fast á hæla Kerasar kemur Tal með 9,5. Það má segja um hann og Keres, að fall virðist hafa verið fararheill, því hann tapaði í 1. umferð fyrir Smyslov, vinnur Gligoric í 2. umferð og tapar svo fyrir Keres í þeirri þriðju. Síðan hefst sigurganga hans, og næstu ellefu skákum nær hann 8,5 vinningum, sem einnig er stórglæsilegur árangur.
Í þriðja sæti er Petrosian með 8,5 vinning. Hann tók forystuna þegar í byrjun og hélt henni fram að 5. umferð, og hafði þá hlotið 3,5 vinning. Síðan koma tvö jafntefli og tvö töp, sem rændu hann forystunni. Í næstu sex skákum nær hann sér þó vel á strik og hlaut 4 vinninga úr þeim.
Gligoric nær sér á strik, Smyslov nánast úr leik
Í 4. sæti er Gligoric með 8 vinninga. Hann fór heldur illa af stað, hafði hlotið 1 vinning eftir 3. umferð. Eftir það gekk honum mjög vel, vann m.a. bæði Smyslov og Petrosian og hefur ekki tapað skák eftir það.
Í 5. sæti er Smyslov með 6 vinninga. Ekki er þó hægt að segja, að hann hafi byrjað illa; hann vann Tal í 1. umferð, en síðan virtist gæfan snúa baki við honum, og í næstu 13 skákum gerir hann átta jafntefli og vinnur aðeins eina skák. Er því greinilegt að möguleikar Smyslovs eru harla litlir héðan af.
Fischer, Benkö og Friðrik í neðri hlutanum
Í 6., 7. og 8. sæti koma þeir Fischer með 5,5 v., Benkö 5 v. og Friðrik Ólafsson með 3 v. Margir hafa ef til vill gert sér vonir um að Friðrik myndi ná betri útkomu úr þessum helmingi mótsins. En þar sem hér eigast við margir af snöllustu meisturum heimsins, er baráttan gífurlega hörð. Þá reynir ekki hvað síst á þjálfunina og úthaldið, en segja má að þar standi þrír þeir síðasttöldu hinum e.t.v. eitthvað að baki.
Hér skal þó ekki neinu spáð um heildarúrslit mótsins; margt getur ennþá óvænt skeð og röðin breyst. Segja má þó að fjórir þeir efstu hafi mesta möguleika til sigurs, og þá sérstaklega Keres og Tal. Það verður því áreiðanlega spennandi að fylgjast með síðari helming þessa skemmtilega áskorendamóts.
Seinni hluti: Spennan magnast
Að loknum 14 umferðum stóðu leikar þannig að Keres leiddi með 10 vinningum, Tal hafði 9,5, Petrosian 8,5, Gligoric 8, Smyslov 6, Fischer 5,5, Benkö 5 og Friðrik Ólafsson 3,5.
Það þótti því sýnt að Smyslov átti ekki möguleika á efsta sætinu, þrátt fyrir að taflmennska hans færi stöðugt batnandi, og snerist því áhugi manna aðallega um þá Keres, Tal og Petrosian, en Gligoric var ekki álitinn koma til greina af öðrum en Júgóslövum.
Keres tefldi frábærlega vel allt mótið í Bled, og sama sagan endurtók sig í Zagreb og Belgrad, að undanskildum skákum hans gegn Fischer, þar sem Keres hafði hvítt.
Unun að fylgjast með Keres
Það var unun að fylgjast með skákum Keresar, því þær voru tefldar af slíkri nákvæmni og markvísi. Ég held að sjaldan eða aldrei hafi skákmeistari teflt jafn vel gegnum svo erfiða keppni og Keres gerði. Einnig var eftirtektarvert, hversu seigur hann var að tefla í erfiðum stöðum.
Hættulegur skákstíll sigurvegarans
Sigurvegarinn í þessu móti, Mikail Tal, hefur algjöra sérstöðu í þessu skákmóti, því hann tefldi ákaflega hættulegan skákstíl, bæði fyrir sjálfan sig og andstæðinga sína. Það var ekki svo sjaldan sem hann hafði hætt of miklu og átti í vök að verjast, en hið gífurlega vald hans yfir flóknum stöðum bjargaði honum oft á síðustu stundu.
Tal hefur ákaflega haldgóða þekkingu í byrjunum, og hann áreiðanlega eftir að verða Botvinnik erfiður á því stigi. Einungis í tafllokum virðist hann standa þeim Botvinnik, Keres og Smyslov að baki, en eins og allir reyndir skákmenn vita kemur styrkleiki í skáklokum fram með aukinni reynslu.
Ég vil leyfa mér að fyllyrða að Tal á vissulega erindi í einvígi við Botvinnik, þótt ég vilji engu spá um úrslitin.
Smyslov nær sér á strik, Petrosian skorti hörku
Það var sannarlega harmleikur að fylgjast með hinni slælegu frammistöðu snillingsins Smyslovs í fyrri helming mótsins, en hin frækilega sókn hans í síðari hlutanum sannaði aðdáendum hans að þetta er einungis stundarfyrirbrigði.
Margir álitu að Petrosian myndi standa sig betur, sérstaklega eftir hina góðu byrjun í Bled, en hann skorti mjög hörku, sem þarf til þess að ná efsta sæti á slíku móti.
Hver verður Rússunum hættulegastur?
Ég vil leyfa mér að taka í sama flokk þá Gligoric, Fischer og Friðrik, því að mínu áliti verður framtíðin að skera úr hver þeirra verður Rússunum hættulegastur.
Benkö hlaut neðsta sætið, eins og flestir höfðu reiknað með, og var öllum ljóst er fylgdust með gangi keppninnar, að hann átti tæplega heima í þessu móti.
Að síðustu langar mig til að minnast dálítið á tilhögun mótsins. Í Zagreb og Belgrad var teflt í rúmgóðum sölum, og sátu keppendur uppi á ,,senu“ og gátu áhorfendur fylgst með gangi skákanna á stórum sýningarborðum, en blaðamönnum voru ætluð sérstök sæti, svo og aðstoðarmönnum.
Allur aðbúnaður var með ágætum og Júgóslövum til sóma, þegar frá dregnar eru truflanir þær, sem áhorfendur ollu.
Að mínum dómi er þessi keppni of löng og mætti gjarnan stytta hana um hálfan mánuð.
1959: Áskorendamót FIDE í Bled, Zagreb og Belgrad
Árangur Friðriks og vinningshlutfall
World Chess Championship | ||||||||||
Bled/Zagreb/Belgrade, Yugoslavia, IX-X, 1959. | ||||||||||
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | Vinningar | ||
1 | Tal M | xxx | 0 0 1 0 | = = = = | 0 1 = 1 | 1 = 1 1 | 1 1 1 1 | 1 1 1 = | 1 1 1 = | 20 |
2 | Keres P | 1 1 0 1 | xxx | 0 = = = | 1 = = 0 | = = 1 1 | 0 1 0 1 | 1 1 1 0 | 1 1 1 1 | 18,5 |
3 | Petrosian T | = = = = | 1 = = = | xxx | = = 0 = | 0 = = 1 | 1 1 = = | 1 0 0 = | = 1 1 = | 15,5 |
4 | Smyslov V | 1 0 = 0 | 0 = = 1 | = = 1 = | xxx | 0 = 1 0 | = = 1 0 | = 1 = 1 | = 0 1 1 | 15 |
5 | Gligoric S | 0 = 0 0 | = = 0 0 | 1 = = 0 | 1 = 0 1 | xxx | 0 1 = = | = = 1 0 | = 1 = = | 12,5 |
6 | Fischer R | 0 0 0 0 | 1 0 1 0 | 0 0 = = | = = 0 1 | 1 0 = = | xxx | 0 1 = 1 | = 1 = 1 | 12,5 |
7 | Olafsson F | 0 0 0 = | 0 0 0 1 | 0 1 1 = | = 0 = 0 | = = 0 1 | 1 0 = 0 | xxx | 0 0 = 1 | 10 |
8 | Benko P | 0 0 0 = | 0 0 0 0 | = 0 0 = | = 1 0 0 | = 0 = = | = 0 = 0 | 1 1 = 0 | xxx | 8 |