Tékkneski stórmeistarinn Jan Smejkal varð efstur á sterku alþjóðlegu skákmóti, sem fram fór í júgóslavneska bænum Novi Sad á dögunum. Meðal þátttakenda voru báðir íslenzku stórmeistararnir, þeir Friðrik Ólafsson og Guðmundur Sigurjónsson, en af öðrum sterkum keppendum má nefna, auk Smejkals, júgóslavnesku stórmeistarana Gligoric, Matulovic, Velimirovic og Ivkov, Tékkann Hort sem hefur tryggt sér sæti í næstu áskorendakeppni go ungverjann Sax.
Eins og sjá má var mótið allvel skipað, en engu að síður fóru þeir Friðrik og Guðmundur vel af stað og höfðu báðir þrjá vinninga eftir fjórar umferðir. Þeir héldu svo sínu striki fram i mitt mót, en þá fór allt að ganga á afturfótunum, þar til undir lokin.
Þá tókst þeim báðum að tryggja sér mjög sómasamleg sæti. Eins og komið hefur fram i fréttum, áttu Íslendingarnir í deilum við framkvæmdaaðila mótsins vegna fargjalds þeirra frá Íslandi til Júgóslavíu, en slíkt stapp hefur að sjálfsögðu ekki góð áhrif á einbeitingarhæfileikana. Einnig hefur heyrzt, að aðstæður á keppnisstað hafi ekki fullkomlega verið sæmandi alþjóðlegu skákmóti sem þessu.