Það blés ekki byrlega í fyrstu hjá gömlu kempunum gegn valkyrjum ungu kynslóðarinnar! Friðrik Ólafsson var í liði með Oleg Romanishin, Vlastimil Hort og Wolfgang Uhlmann, sem allir voru meðal sterkustu stórmeistara 20. aldar, sem mætti stórefnilegum, ungum skákkonum í skemmtilegri keppni í tékkneska bænum Poděbrady. Mótherjarnir voru Valentina Gunina, Tania Sachdev, Alina Kashlinskaya og Kristýna Havlíková.
Alls voru tefldar átta umferðir og eftir þrjár umferðir stefndi í hreint afhroð hjá gömlu kempunum, sem voru heilum 5 vinningum undir. Í hálfleik var staðan 10-6 fyrir kvennasveitinni og formsatriði virtist að ljúka keppninni. En þá bitu Friðrik og félagar í skjaldarrendur, og sýndu hversvegna þeir voru lengstaf í fremstu röð í heiminum. Þeir unnu síðari hálfleikinn 11-5 og keppnina þar með, 17-15!
Friðrik tapaði tveimur fyrstu skákunum, en fékk síðan 4 vinninga í næstu sex umferðum. Hann vann báðar skákir sínar gegn Havlíková, auk þess að leggja hina öflugu Valentinu Gunina í afar góðri skák. Hann mátti hinsvegar sætta sig við ósigur í skákunum gegn indversku skákdrottningunni Taniu Sachdev, en báðum skákum hans gegn Alinu Kashlinskaya frá Rússlandi lauk með jafntefli.