1977: Alþjóðlegt skákmót í Genf

Larsen í fantaformi: Íslensku stórmeistararnir langt frá sínu besta

 

Bent Larsen
Bent Larsen

Danski meistarinn Bent Larsen sigraði á firnasterku skákmóti í Genf, sem skipað var 12 stórmeisturum og tveimur alþjóðameisturum. Friðrik Ólafsson og Guðmundur Sigurjónsson voru báðir meðal keppenda, en voru langt frá sínu besta.

Larsen kom rakleitt til Genfar frá Rotterdam, þar sem hann beið lægri hlut gegn Lajos Portisch í áskorendaeinvígi. Hann hlaut 8,5 vinninga af 13 í Genf og var hálfum vinningi á undan Svíanum Ulf Andersson.

Guðmundur varð í 9. sæti en Friðrik varð 12. og í samtali við Tímann í mótslok kvaðst Friðrik mjög óánægður með taflmennsku sína.

,,Ég þarf að hvíla mig og undirbúa, enda hef ég teflt alltof stíft að undanförnu, eða á þremur mótum svo að segja í einni lotu. Ég hef slæma reynslu af þvi af því að tefla svona mikið í einu, og ég fékk staðfestingu á að það borgar sig ekki. Ég er óánægður með taflmennsku mína að undanförnu, og verð að gera bragarbót þar á, taka mér hvíld, og taka þetta föstum tökum. Taflmennska mín hefur þróazt út á brautir, sem ég er ekki sáttur við, og ég hef orðið var við snerpuleysi hjá mér.“

Friðrik sagðist hafa tapað þremur skákum í röð á skákmótinu í Genf, og í þeim öllum hefði hann staðið mjög vel, en látið sigurinn ganga sér úr greipum.

,,Ég er ekki vanur að standa mig svona illa, svo ég kenni um ofþreytu. Sama var með Timman — hann stóð sig mjög vel í Bad Lautenberg-mótinu, var í 2. sæti, en hafnaði svo meðal neðstu manna í Genf. Mótið í Bad Lautenberg var ofboðslega strangt, 15 umferðir og aðeins einn frídagur fyrir 14 fyrstu umferðirnar. Það var hreinasta geggjun.“

Í síðustu umferðinni tefldi Friðrik 115 leikja skák við Liberzon og dróst því talsvert að lokahóf og verðlaunaafhending gætu farið fram. Skákinni lauk með jafntefli.

1977: Alþjóðlegt skákmót í Genf

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1977 Genf - mótstafla

Vinningshlutall 42%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

Merki: