Ávarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra

Illugi 26.1.2016 01-05-32.2016 010532Við Íslendingar höfum gjarna litið svo á að eftir langan aðdraganda hefjist nútímasaga þjóðarinnar á Þingvöllum 17. júní 1944, þegar lýðveldið var stofnað og Íslendingar tók öll sín mál í eigin hendur. Það var hins vegar fyrst um og eftir miðja öldina sem einstakir afreksmenn, hver á sínu sviði, vöktu athygli langt út fyrir landsteinana og urðu bæði til að vekja með okkur þjóðarstolt og auka virðingu Íslendinga og jafnvel aðdáun meðal annarra þjóða.

Meðal slíkra einstaklinga má nefna Albert Guðmundson knattspyrnumann, sem gerði garðinn frægan með nokkrum þekktustu knattspyrnuliðum Evrópu á þessum tíma, og ekki síður rithöfundinn Halldór Laxness, sem hlaut hin eftirsóttu Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1956. Sá afreksmaður sem hreif íslenska þjóðarsál einna mest á þessum tíma var þó að öðrum ólöstuðum hógvær ungur maður, Friðrik Ólafsson, sem skaut hratt upp á stjörnuhimin skáklistarinar. Hann varð Íslandsmeistari í skák í fyrsta sinn árið 1953, aðeins 17 ára gamall, og ári síðar varð hann einnig Norðurlandameistari í fyrsta sinn, og var þá sá yngsti sem hafði unnið þann titil. Árið 1958 var Friðrik Ólafsson útnefndur stórmeistari í skák, fyrstur Íslendinga, og frá þeim tíma má segja að hafi endanlega verið leystur úr læðingi sá mikli áhugi sem hefur gert skákina að einni helstu þjóðaríþrótt Íslendinga æ síðan.

Friðrik vann fjölmörg frekari afrek á skákborðinu, sem seint verða tíunduð til fullnustu, en ekki er síður vert að minnast þeirra áhrifa, sem hann hafði á þróun skáksögunnar. Heimsmeistaraeinvígi Spassky og Fischer árið 1972 hefði til dæmis varla verið valinn staður á Íslandi nema fyrir það orðspor sem fór af skákáhuga landsmanna fyrir tilstilli hans, og í starfi sínu sem forseti alþjóðaskáksambandsins, FIDE, náði Friðrik með þolinmæði og þrautseigju að vopni að þræða vandrataða krákustigu kaldastríðsáranna þannig að orðstír og virðing skákheimsins óx og dafnaði sem aldrei fyrr. Má segja að í því starfi hafi hann fylgt orðum Goethe, sem sagði eitt sinn: „Djarfar hugmyndir eru líkt og taflmenn í sókn. Þeir kunna að falla, en þeir geta einnig verið upphafið að sigurleik.“

Hæverska, þolgæði og framsýni hafa einkennt allt ævistarf þessa fyrsta stórmeistara okkar Íslendinga, og aflað honum ómældrar virðingar og viðurkenningar alls staðar þar sem hann hefur lagt sín lóð á vogarskálar, t.d. í mótun starfshátta Alþingis, sem var starfsvettvangur hans um langt árabil.

Það er öllum ljóst, að skákin hefur öðru fremur markað feril Friðriks Ólafssonar og fyrir það er íslensk þjóð ævinlega þakklát. Því er vel til fundið að glæstum ferli og miklu ævistarfi hans séu gerð skil með vettvangi sem þessum, og ber að þakka sérstaklega fyrir það framtak sem felst í þessu verkefni.

Er þess að vænta að hér verði að finna drjúgan fróðleiksbrunn fyrir alla þá, sem vilja kynnast Friðrik Ólafssyni stórmeistara nánar, og megi þeir vel njóta.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.    

 

Merki: